Vatnstjón eru allt of algeng – Hvað getur þú gert?

Heimild:  

 

Október 2013

Tjón af völdum vatns eru ein algengasta orsök tjóna á heimilum hér á landi.  Mörg vatnstjón eru vegna lagna sem gefa sig eða blöndunartækja og það getur verið erfitt að fyrirbyggja slík tjón.  Reynslan er hins vegar sú að mjög mörg önnur vatnstjón má koma í veg fyrir og að það þarf oft lítið til, hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga.

 

Setur þú uppþvotta- eða þvottavélina af stað áður en farið er af heiman?

Mörg vatnstjón verða þegar enginn er heima og af þeirri einföldu ástæðu að uppþvottavélin eða þvottavélin var sett af stað um morguninn til þess að spara tíma. Þegar svo eitthvað gefur sig þá er enginn til staðar heima við til þess að bregðast við.  „Vatnsskynjari sem tengdur er við öryggiskerfi hússins myndi bjarga miklu og lágmarka tjón en einfaldast og ódýrast er hreinlega að setja aldrei þvottavélina eða uppþvottavélina af stað rétt áður en farið er að heiman segir Fjóla Guðjónsdóttir forstöðumaður forvarna hjá Sjóvá.“

„Slöngur þessara véla duga ekki endalaust, þær fúna og morkna og þarf því að skipta þeim reglulega út,  í því fellst góð tjónavörn segir Fjóla“.

Hvar er vatnsinntakið?

Margir vita ekki hvar vatnsinntak heimilisins er en það er mikilvægt að merkja kranana og vera viss um að vel sé hægt að komast að vatnsinntakinu.   „Við höfum verið að gefa merkingar til þess að setja á heita og kaldavatnskrana þar sem slíkt vantar og hvetja íbúa til þess að fara yfir staðsetninguna með öllum á heimilinu svo hægt sé að bregðast rétt við segir Fjóla“.


Ertu búin/búinn að hreinsa niðurfallið  eða þakrenna fyrir veturinn

Núna sjáum við laufin fjúka út um allt og það er því rétti tíminn til að hreinsa lauf og sand frá niðurföllum og rennum áður en það fer að snjóa og frysta.  Stíflað niðurfall kemur í veg fyrir að vatnið geti runnið sína leið t.d. í vetur þegar snjór og klaki bráðnar hratt.

 

Hvað getur þú gert?

  • Forðastu að setja uppþvottavélina eða þvottavélina af stað áður en farið er af heiman
  • Settu upp vatnsskynjara og tengdu hann við öryggiskerfi hússins ef það er fyrir hendi
  • Skoðaðu slöngu þvottavéla og uppþvottavéla og  skiptu um ef hún er farin að morkna
  • Gott er merkja krana vatnsinntaksins „heitt“ „kalt“.  Merkingar fást hjá Sjóvá
  • Vertu viss um að gott aðgengi sé að  vatnsinntakinu  þannig að auðvelt sé að skrúfa fyrir
  • Sópaðu saman laufum þar sem niðurföll eru og athugaðu hvort sandur eða lauf eru í þakrennum.

Fleira áhugavert: