Guangdong hérað í Kína – Verksmiðja heimsins?

Heimild: pressan

 

Ágúst 2015

Vélmenni setja saman Hyundai bifreiðar í verksmiðju í Peking. Mynd: GettyImages

Vélmenni setja saman Hyundai bifreiðar í verksmiðju í Peking. Mynd: GettyImages

Sífellt fleiri kínverskar verksmiðjur færa sig nær sjálfvirkni og dæmi eru um að allt að 90 prósentum starfsmanna sé sagt upp störfum vegna tæknivæðingar. Markmiðið er að auka framleiðni.

Það stefnir því í að fljótlega verði það ekki endalausar raðir kínverskra verkamanna sem framleiða farsímana okkar og tölvurnar því vélmennin eru að taka völdin í kínverskum verksmiðjum. Í verksmiðju í eigu Changying Precision Technology Company í Dongguan, í suðausturhluta landsins, hafa fullkomin iðnaðarvélmenni tekið við störfum 90 prósenta starfsmannanna við framleiðslu ýmissa hluta í farsíma. Það sem meira er þá hefur þetta tekist mjög vel.

guangdong

Guangdong hérað – Verksmiðja heimsins

Verksmiðjan er ein af mörg hundruð sömu tegundar á svæði sem nefnist Pearl River Delta en það er mjög þéttbýlt og iðnvætt svæði í Guangdong-héraðinu sem er stundum nefnt „verksmiðja heimsins“.

South China Morning Post segir að rúmlega 60 prósent verksmiðjanna í Dongguan séu nú að vinna að því að skipta starfsfólki sínu út með vélmennum. Reiknað er með að fjárfestingin í þessu á næstu þremur árum verði sem nemur um 20.000 milljörðum íslenskra króna. Sveitarfélög á svæðinu styðja þessa þróun en mikill skortur hefur verið á vinnuafli á þessu svæði.

Stefnt er að því að í höfuðborg héraðsins, Guangzhou, verði búið að gera 80 prósent allra verksmiðja sjálfvirkar fyrir 2020.  Þessi aukna notkun iðnaðarvélmenna er hluti af stærri áætlun sem nefnist Made in China 2025 en henni var ýtt úr vör í maí á síðasta ári af ríkisstjórninni. Markmiðið er að nútímavæða kínverskan iðnað og berjast gegn þeirri efnahagslegu stöðnun sem Kína er á leið inn í.

 

60 vélmennahandleggir leysa 600 starfsmenn af hólmi

Í verksmiðjunni í Dongguan hafa 60 vélmennahandleggir nú leyst 650 starfsmenn við framleiðslulínuna af hólmi. Nú starfa einungis 60 manns í verksmiðjunni við viðhald og stjórnun. Þetta er aðeins fyrsta skrefið í fyrirætlunum eigenda verksmiðjunnar því þeir stefna að því að fullkomin vélmenni leysi alla starfsmenn af hólmi og að aðeins verði 20 starfsmenn af holdi og blóði á launaskrá.

Út frá framleiðnisjónarmiðum var það góð hugmynd að láta vélmennin taka við af starfsfólkinu því framleiðnin hefur aukist og nú framleiðir verksmiðjan þrisvar sinnum meira en áður. Í stað þess að framleiða 8.000 hluti á mánuði framleiðir verksmiðjan nú 21.000 hluti á mánuði. Þá eru gæðin einnig meiri en áður að sögn Danska ríkisútvarpsins og mun minna er um gallaða hluti en áður voru þeir um fjórðungur framleiðslunnar en eru nú undir 5 prósentum.

Í Dongguan er stefnt að því að vélmenni leysi 30.000 manns af hólmi og eitt þeirra fyrirtækja sem stefnir á aukna vélmennavæðingu er Shenzen Evenwin Precision Technology Company  en þar er stefnt að því að fækka starfsfólki úr 1.800 í 200.

Enn er þeirri spurningu þó ósvarað hvernig þessu verður tekið af þeim milljónum manna sem starfa í verksmiðjum í Pearl River Delta.

Fleira áhugavert:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *