Icelandair – Nýtt flugskýli á Keflavíkurflugvelli

Heimild:  

 

Mars 2017

Horft yfir mannvirki á Keflavíkurflugvelli, í forgrunni hefur nýbyggingunni verið skeytt inn við hlið núverandi flugskýlis með tölvutækni. Smella á myndir til að stækka

Flugskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli.

  • 13.600 fermetrar
  • Skapar á annað hundrað störf

Um er að ræða viðbyggingu við hlið núverandi flugskýlis, sem byggt var 1992. Áætlanir gera ráð fyrir að hægt verði að taka skýlið í notkun síðla árs 2017. Það mun skapa á annað hundrað störf og hýsa m.a. lager, verkstæði, skrifstofur og mötuneyti.

Byggingin verður um 27 metra hátt stálgrindarhús á steyptum undirstöðum og klædd að utan með einangruðum stálsamlokueiningum. Grunnflötur byggingarinnar er um 10.500 fermetrar og heildarflatarmál hennar um 13.600 fermetrar. Á suðurhlið skýlisins sem snýr að nýju steyptu flughlaði verður flugvélahurð sem samanstendur af 8 flekum á brautum. Hurðin er rúmlega 18 metra há og opnast mest um 65 metra.

Við hönnun flugskýlisins hefur verið horft til umhverfisþátta í efnisvali auk þess sem gott vinnuumhverfi starfsfólks hefur verið haft að leiðarljósi. Má þar til dæmis nefna val á steinull til einangrunar, innlenda framleiðslu samlokueininga, notkun vatnshitapanela til upphitunar og LED lampa í lýsingu. THG arkitektar og verkfræðistofan Ferill hafa hannað bygginguna.

Vöxtur Icelandair hefur gert það að verkum að það rými sem félagið hefur til viðhalds á Keflavíkurflugvelli annar ekki þörf félagsins fyrir viðhaldsskoðanir og breytingar á flugvélum og hefur félagið þurft að senda vélar erlendis í auknum mæli í slík verkefni. Veturinn 2015-2016 voru t.a.m. 14 stór viðhaldsverkefni send erlendis og keypt viðhaldsvinna sem nemur um 150 þúsund vinnustundum eða 75 ársverkum. Með byggingu skýlisins markar Icelandair þá stefnu að sinna sem mestu af viðhaldi flugflota síns á Íslandi.

Fyrstu skóflustunguna í dag tóku Ragnar Karlsson og Adólf Svavarsson sem fulltrúar elstu og yngstu kynslóðar starfandi flugvirkja hjá Icelandair. Og nutu aðstoðar Birkis Hólm Guðnasonar, framkvæmdastjóra Icelandair og yfirmanns tækniþjónustu félagsins, Jens Þórðarsonar.

Icelandair hefur stutt við bakið á uppbyggingu flugvirkjanáms á Íslandi og þannig tryggt aðgang að sérmenntuðum starfskröftum sem sinnt geta þeim störfum sem verða til í skýlinu en auk flugvirkjastarfa skapast störf fyrir aðra iðnaðarmenn, verkamenn og skrifstofufólk svo heildarfjöldi starfa sem skapast með framkvæmdinni er á annað hundrað. Nú starfa um 300 manns í flugskýli Icelandair.

Í Nýju byggingunni er unnt að koma fyrir tveimur flugvélum af gerðinni Boeing 757, einni Boeing 757 og einni Boeing 767 hlið við hlið ásamt stærri flugvélum. Einnig mun verða þar rými fyrir þrjár 737MAX vélar á sama tíma.

Ætlunin er að nota viðbótina fyrst og fremst til þess að sinna stærri viðhaldsverkefnum ásamt ýmsum breytingum og uppfærslum á flugvélum. Þá losnar rými í núverandi flugskýli til þess að sinna léttara viðhaldi og tilfallandi viðgerðum og eftirliti.

Flugskýlið kemur til með að tryggja Icelandair þann sveigjanleika sem því fylgir að sinna eigin viðhaldi og er mikilvægur þáttur í að tryggja innviði félagsins fyrir áframhaldandi vöxt.

Fleira áhugavert: