ÍSOR – Hlutverk Íslenskra orkurannsókna

Heimild:  

 

Desember 2015

Ólafur G Flóvenz

Ólafur G Flóvenz

ÍSOR er rannsóknastofnun á sviði náttúrufars, orku- og auðlindamála í eigu íslenska ríkisins. ÍSOR fær þó engin fjárframlög frá ríkinu, en vinnur öll sín verk samkvæmt verksamningum við fyrirtæki og stofnanir víða um heim. Jarðhitarannsóknir og ráðgjöf eru kjarnastarfsemi ÍSOR sem auk þess sinnir ýmiss konar verkefnum á sviði grunnvatns, umhverfismála, jarðfræðikortlagningar, hafsbotnsrannsókna og mannvirkjajarðfræði. Starfsemin byggist á þekkingu sem fengin er með rannsóknum, öflun gagna og þróun tækni og aðferða. ÍSOR starfar á samkeppnisforsendum með hagkvæmar lausnir og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi.

ÍSOR hefur sinnt jarðhitarannsóknum í 70 ár, framan af sem hluti af Raforkumálaskrifstofunni, síðar Orkustofnun og loks sem sjálfstæð stofnun frá árinu 2003. Lengst af hefur það verið markmið rannsóknanna að útvega landsmönnum ódýra og umhverfisvæna varmaorku til hitunar og raforkuframleiðslu. Í seinni tíð hefur áherslan færst meira yfir á jarðhitaverkefni erlendis, m.a. með kennslu og þjálfun sérfræðinga í þróunarríkjunum í jarðhitafræðum. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á að beina athygli erlendra stjórnmálamanna og fjárfesta að þeim möguleikum sem fjölmörg þróunarríki hafa til orkuvinnslu úr jarðhita í stað þess að nota jarðefnaeldsneyti. Með þessu móti leggur ÍSOR nokkuð af mörkum utan Íslands í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og stuðlar að bættum hag ýmissa fátækra ríkja.

ÍSOR hefur að miklu leyti lagt hinn jarðvísindalega grunn að þeirri miklu þróun sem hefur orðið í jarðhitavinnslu á Íslandi og hefur gert Ísland að einstöku landi í notkun endurnýjanlegra orkulinda. Jarðhitavinnslan á einnig ríkan þátt í þeirri velferð sem við búum við á Íslandi. Leiðin hefur þó ekki alltaf verið greið og á umliðnum áratugum hafa komið upp fjölmörg vandamál bæði við virkjun til hitunar og raforkuframleiðslu. Með þrotlausri vinnu, rannsóknum og tilraunastarfsemi hefur íslenskum jarðhitamönnum tekist að yfirvinna fjölmargar hindranir tengdar beislun jarðhitans.


Flest vandamál leyst

Oft hafa þó risið upp úrtölumenn sem miklað hafa fyrir sér hindranir og vandamál og viljað gefast upp. Flest vandamál í tengslum við lághitavinnslu á Íslandi hafa verið leyst, en þótt mikið hafi áunnist í þekkingu á nýtingu háhitasvæða undanfarna áratugi eru enn mörg viðfangsefni tengd henni, sem þarf að leysa. Til þess þarf rannsóknir, reynslu af nýtingu slíkra svæða og vilja til framþróunar.

ísorÍSOR er rannsóknastofnun sem m.a. veitir viðskiptavinum sínum ráðleggingar um hvernig heppilegast er að standa að nýtingu jarðhita í ljósi rannsóknaniðurstaðna og fyrirliggjandi þekkingar. Stefna ÍSOR hefur um áratuga skeið verið að ráðleggja viðskiptavinum sínum að nýta auðlindirnar á sjálfbæran, hagkvæman og ábyrgan hátt. Það felur í sér að gætilega sé farið í sakirnar og jarðhitinn virkjaður í hæfilega stórum áföngum, fyrst og fremst til að forðast offjárfestingu sem fælist í að reisa stærri mannvirki en viðkomandi jarðhitasvæði stendur undir með sjálfbærum hætti.
Eftir að reynsla hefur fengist af hverjum áfanga er hægt að meta sjálfbæra vinnslugetu af mun meiri nákvæmni en áður. Hversu stór hinn hæfilegi áfangi á að vera er breytilegt eftir aðstæðum frá einum stað til annars. Hér er einnig rétt að hafa í huga að það getur líka leitt til offjárfestingar að hafa áfangana of litla. Um það mun ég fjalla í annarri grein síðar.

Sá sem ætlar að virkja jarðhita tekur endanlega ákvörðun um stærð áfanganna. Hann þarf því að meta út frá líkum á árangri og fjárhagslegri áhættu hversu stór skref skynsamlegt er taka hverju sinni. Inn í það dæmi ganga meðal annars jarðhitafræðilegar ráðleggingar ÍSOR, en einnig hagfræðilegir og þjóðfélagslegir þættir sem aðrir en ÍSOR meta.                                                               

 

Fleira áhugavert: