Þeistareykjavirkjun – Fær heimsins fyrsta GSAP sjálfbærnimat

Heimild:  

 

Janúar 2017

Þeistareykjavirkjun er fyrsta jarðvarmavirkjun í heimi sem metin er samkvæmt drögum að nýjum GSAP matslykli um sjálfbærni jarðvarmavirkjana (e. „Geothermal Sustainability Assessment Protocol “). Nýi matslykillinn er unninn í samstarfi Orkustofnunar, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, HS Orku og Umhverfisstofnunar og er Sigurður St. Arnalds hjá Mannviti  verkefnastjóri. Verkefnið, sem er frumúttekt á undirbúningsfasa virkjunarinnar, hefur verið undirbúið frá því í haust.

Matsmaður úttektarinnar, Joerg Hartmann, er staddur hér á landi og hafa viðtöl við hagsmunaaðila verið tekin undanfarna daga. Í síðustu viku fóru fram viðtöl í Reykjavík og í þessari viku fara fram viðtöl norðan heiða í nærsamfélagi virkjunarinnar. Meðal viðmælenda hafa verið starfsmenn Landsvirkjunar, hönnuðir og fulltrúar ýmissa stofnana, sveitarfélaga, fyrirtækja og félagasamtaka og svo verktakar sem komið hafa að framkvæmdum.

Úttektin felur í sér nákvæma skoðun á 17 ólíkum flokkum sem varða undirbúning Þeistareykjavirkjunar og eiga að gefa mynd af því hversu vel starfsemin fellur að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun. Sem dæmi um flokka sem teknir eru út má nefna samskipti og samráð, stjórnun á umhverfislegum og samfélagslegum þáttum, vinnuafl og vinnuaðstöðu, nýting jarðhita auðlindarinnar og líffræðilegur fjölbreytileiki.

 

Byggt á HSAP-lykli um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana

Joerg Hartmann er kunnugur Landsvirkjun, en árið 2013 tók hann þátt í úttekt á rekstri Blöndustöðvar. Við úttektina á Blöndustöð var farið eftir alþjóðlegum matslykli um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana, svokölluðum HSAP matslykli (e. „Hydropower Sustainability Assessment Protocol“). Sá lykill, sem skilgreinir hversu vel starfsemi vatnsaflsvirkjana fellur að markmiðum um sjálfbæra þróun, er fyrirmynd GSAP.

HSAP lykillinn var unninn á árunum 2008 til 2010 í samstarfi frjálsra fjölþjóðlegra félagssamtaka á sviði samfélags- og umhverfismála, stjórnvalda víðs vegar um heim, viðskipta- og þróunarbanka og loks Alþjóða vatnsaflssamtakanna (e. International Hydropower Association (IHA)), sem hafði frumkvæði að gerð matslykilsins. Fulltrúi íslenskra stjórnvalda í þeirri vinnu var Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri en Landsvirkjun hefur í gegnum aðild að IHA stutt vinnu við þróun matslykilsins frá upphafi.

Tvær úttektir hafa verið unnar hér á landi samkvæmt HSAP matslyklinum. Sú fyrri var gerð í maí 2012 en þá var undirbúningur fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar í neðanverðri Þjórsá tekinn út. Seinni úttektin var á rekstri Blöndustöðvar og fór fram í september 2013.

Í framhaldi af tilkomu og árangursríkri notkun HSAP matslykilsins komu fram hugmyndir um að gera samsvarandi matslykil um sjálfbæra nýtingu jarðvarma (GSAP), og er það úttekt samkvæmt drögum að þeim matslykli sem nú stendur yfir. Niðurstaðna úttektarinnar á Þeistareykjum er að vænta í mars og svo í framhaldi af því verður tekin ákvörðun um hvernig þessum nýja matslykli verður komið á framfæri alþjóðlega.

Fleira áhugavert: