Vatnsveita – Hollráð um neysluvatn

Heimild:  

 

  • Alþjóðlegur dagur vatnsins er 22. mars. Á Íslandi erum við heppin að njóta hreins neysluvatns. Vissir þú að 783 milljónir manna um heim allan hafa ekki aðgengi að góðu drykkjarvatni.
  • Að meðaltali er hver einstaklingur um það bil 50-65% vatn. Ungabörn eru venjulega um 75-78% vatn.
  • Sýrustig kalda vatnsins okkar, þ.e. ph gildi á Reykjavíkursvæðinu er frá 8,75 uppí tæp 9 sem er frekar hátt. Ástæða þess er að vatnið okkar rennur í gegnum hraun sem er ríkt af basalti.
  • Neysluvatnið á Íslandi inniheldur lítið af steinefnum miðað við nágrannalönd okkar. Það þýðir að vatnið okkar er einstaklega góður svaladrykkur. Jafnvel sá besti í heimi. En samkvæmt helstu kaffisérfræðingum landsins er íslenska vatnið ekki sérstaklega gott til uppáhellingar vegna skorts á steinefnum. Íslenskir kaffiframleiðendur þurfa því að brenna kaffibaunirnar meira en gengur og gerist til að vega upp á móti þessu.
  • Íslenskt vatn er undir 2 °dh og því mjög mjúkt, á Reykjavíkursvæðinu er það 0,2 til 0,6 °dh eða sérstaklega mjúkt. Ekki á að þurfa nein mýkingarefni eða kalkhreinsi eða sölt í þvotta/uppvöskunarvélar á Íslandi. Mýkt vatnsins hefur þau áhrif að mun minna magn af sápu þarf til að þvo sér um hár og hendur, einnig þarf minna þvottaduft við fata og diskaþvott.
  • Uppruna veitustarfssemi okkar má rekja til þess þegar Vatnsveita Reykjavíkur tók til starfa árið 1909. Í júní það ár var vatni hleypt frá Elliðaánum til Reykjavíkur og um haustið var leiðslan frá Gvendarbrunnum tekin í notkun.
  • Afkastageta vatnsveitunnar á Heiðmerkursvæðinu er 1.650 lítrar á sekúndu við bestu mögulegu aðstæður.
  • Vatnsveita Reykjavíkur var fyrsta vatnsveita á Norðurlöndum til að hljóta vottun samkvæmt gæðastaðlinum ISO 9001.
  • Kalda vatnið okkar er dýrmæt auðlind sem okkur ber að að vernda með öllum tiltækum ráðum. Við leggjum mikla áherslu á að tryggja viðskiptavinum okkar hreint og tært vatn um alla framtíð.
  • Vatn á sér hvorki upphaf né endi í náttúrunni, það er á eilífri hringrás.
  • Hefur þú skoðað lagnirnar þínar nýlega? Tjón vegna vatnsleka eru alltof algeng í heimahúsum og því er mikilvægt að yfirfara lagnir og lagnagrindur reglulega.
  • Veist þú hvar inntakið fyrir kalda vatnið er á þínu heimili? Kynntu þér málið og athugaðu hvort aðrir heimilismenn þekki það líka. Það þarf að vera vel merkt og aðgengilegt. Merkingar fást til dæmis í verslunum með lagnaefni. Þá er mikilvægt að niðurfall sé í gólfi þar sem inntakið er.

Fleira áhugavert: