Bláa gullið

Heimild:  Orkubloggið

 

Júlí 2008

Ketill Sigurjónsson

Baugsmálið er búið. Og Jónsmálið að byrja. Gott að þeir hjá Ríkislögreglustjóra hafi eitthvað nýtt að dunda sér við. Annars mun aðalbisnessinn hjá Jóni Ólafssyni þessa dagana vera plön um sölu drykkjarvatns vestur í Ameríku. Kannski er vatn bláa gullið. Mér finnst að Skífu-Jón ætti að gera þetta af alvöru. Og verða stærsti einkaeigandi vatns á Íslandi.

Þá myndi Jón eignast flottan vatnsbróður. Westur í Bandaríkjunum. Stærsti einkaeigandi vatns þar heitir nefnilega… T. Boone Pickens. Auðvitað!

Eins og ég gat nýlega um, í færslunni „Blautagull“, byrjaði BizWeek_Pickens_Water_Covervindtúrbínuævintýri Pickens á því að hann keypti upp gríðarleg vatnsréttindi í Texas.

Business Week fjallaði um þetta ævintýri Pickens um miðjan júni s.l. Undir fyrirsögninni „There Will Be Water“. Þetta blessaða tölublað var svo sannarlega guðsgjöf fyrir mig, þar sem ég var staddur á Kastrup og á leið til Munchen. Ég get nefnilega ómögulega fest blund í flugvélum og þarf helst eitthvað uppbyggilegt að lesa. Eins og nærri má geta varð ég því afskaplega glaður þegar ég rak augun í myndina hér að ofan. Sem prýddi þessa forsíðu Business Week. Pickens fær hjartað alltaf til að slá örar – hann er bara svo fjandi skemmtileg og sjarmerandi týpa.

Pickens_young_boy

Þessi viðskiptahugmynd Boone Pickens er ekki ýkja flókin:  „There are people who will buy the water when they need it. And the people who have the water want to sell it. That's the blood, guts, and feathers of the thing.“ Segir Pickens.

Og hann er nú þegar búinn að spreða meira en 100 milljónum dollara í kaup á vatnsréttindum s.l. áratug eða svo. Öllu vandasamara hefur reynst að finna kaupanda að vatninu. En Boone Pickens hefur ekki miklar áhyggjur af því. Þetta er ekki fyrsta vandasama verkefnið, sem litli blaðasöludrengurinn frá Holdenville í Oklahóma hefur þurft að takast á við. Og þó hann hafi orðið áttræður í maí s.l. er engan bilbug á Pickens að finna.

blaa-gullidVatnsréttindin sem Pickens hefur eignast eru á tæplega þúsund ferkílómetra svæði í s.k. Roberts-sýslu nyrst á hinum víðáttumiklu sléttum Texas. Þau gætu gefið af sér nokkur hundruð milljarða lítra á ári og vel yfir 150 milljónir USD í tekjur árlega.

Pickens_Water_Line

En jafnvel bjartsýnismaðurinn ég verð að viðurkenna að þetta gæti reynst nokkuð snúið mál. Hugmyndin er að dæla vatninu um 400 km leið til Dallas og annarra borga (eins og El Paso og San Antonio). Það er auðvitað lítið mál að henda upp einhverri vatnsleiðslu. Smámál fyrir fáeina menn með nokkrar skóflur og hamra. Og samhliða vatnsleiðslunni vill Pickens reisa rafmagnsleiðslu, fyrir orkuna frá stærsta vindorkuveri heims, sem mun rísa þarna á sama svæði á næstu árum. Tvær flugur í einu höggi.

Aftur á móti þarf leiðslan að fara gegnum hundruð landareigna í einkaeigu og fjölmargar sýslur. Það er ekki einfalt mál. Og þetta er reyndar orðið hápólítískt mál þarna í landi einkaframtaksins. Það eru nefnilega ýmsir, meira að segja í Bandaríkjunum, sem segja að nú sé nóg komið. Það nái ekki nokkurri átt að einkaaðilar geti eignast vatnið eins og hverja aðra vöru – vatnið sé undirstaða lífs og þarna verði að draga mörkin.

Aðrir telja sýn Pickens einfaldlega eðlilega framsýni i veröld þar sem vatn muni verða æ verðmætara. Kallinum hefur verið líkt við Rockefeller, sem eignaðist á sínum tíma mestalla olíuvinnslu í Bandaríkjunum. Pickens sé Rockefeller vatnsins. En reyndar var Rockefeller stöðvaður. Með því að brjóta upp Standard Oil. Nú tala sumir fyrir því að það verði að stöðva Mesa Water; fyrirtæki Pickens.Pickens_Tub

Pickens hefur líka verið gagnrýndur fyrir það að áhersla hans á vindorkuna sé bara blöff. Til að styrkja stöðu sína gagnvart þeim sem gagnrýnt hafa uppkaup hans á vatnsréttindum. Hann sjái vindinn sem strategíu til að auðvelda sér að ná samningum um flutning og sölu vatnsins.

Það verður spennandi að fylgjast með framvindunni. Ennþá hefur Pickens ekki náð að finna kaupanda að vatninu. En hann er fullviss um að Dallas og fleiri borgir muni senn þurfa á vatninu hans að halda. Og þá muni hann græða mikinn pening. Og hann virðist sjaldan hafi verið ánægðari og bjartsýnni en nú, kominn á níræðisaldurinn. Til hamingju með afmælið, hr. Pickens!

 

Fleira áhugavert: