Rafhleðslustöðvar – 200 nýjar stöðvar á 3 árum

Heimild:  

 

Febrúar 2017

Smella á mynd til að stækka

Ísland er að margra mati tilvalinn staður fyrir rafbíla – enda rafmagnið bæði ódýrt og endurnýjanlegt. Það sem hefur hins vegar staðið því fyrir þrifum að rafbílar hafi notið meiri hylli á Íslandi er einkum skortur á hleðslustöðvum víða um land.

Að sjálfsögðu er hægt að hlaða bílana heima hjá sér og í vinnunni en þar sem bílarnir draga um og yfir 150 kílómetra að jafnaði duga þeir lítið til langferða meðan ekki er hægt að hlaða þá. En nú stendur þetta til bóta því ef áætlanir ganga eftir verður bætt við um 200 hleðslustöðvum á næstu þremur árum.

 

Orkusjóður styrkir tæplega 100 stöðvar

Í dag eru 13 hleðslustöðvar á landinu – allar á vegum Orku náttúrunnar. Sex stöðvar eru á höfuðborgarsvæðinu (Bæjarhálsi, Sævarhöfða, við IKEA, Miklubraut, Fríkirkjuvegi og við Smáralind), tvær eru á Akureyri (við Hof og Glerártog) og svo eru stöðvar við Fitjar í Reykjanesbæ, á Akranesi, í Borgarnesi, á Selfossi og við Hellisheiðarvirkjun.

Þessum stöðvum á eftir að fjölga til muna á næstu árum. Atvinnuvegaráðuneytið samþykkti fyrir skömmu tillögu Orkusjóðs um styrki til að koma upp hleðslustöðvum, en styrkirnir eru alls upp á rúmar 200 milljónir króna yfir þriggja ára tímabil. Þeim er ýmist veitt til orkufyrirtækja, olíufélaga eða sveitarfélaga.

Þegar er búið er greiða út tæplega 67 milljónir fyrir að koma upp 19 stöðvum víðsvegar um landið, og má búast við að þær verði settar upp á þessu ári. Þær verða í Staðarskóla, Blönduósi, Varmahlíð, Reykjahlíð, Skjöldólfsstöðum, Egilsstöðum, Fáskrúðsfirði, Djúpavogi, Höfn, Jökulsárlóni, Skaftafelli, Kirkjubæjarklaustri, Vík, Hellu, Hveragerði, Flúðum, Geysi, Bláa lóninu, Landeyjahöfn og Vestmannaeyjum. Allar stöðvarnar verða hraðhleðslustöðvar nema á Skjöldólfsstöðum, Jökulsárlóni og Vestmannaeyjum, en miðað er við að það taki um hálftíma að fullhlaða bíl. Það verður því hægt að hlaða bílinn töluvert víðar þegar árið er á enda, gangi þessar áætlanir eftir.

Á þessu ári verða svo veittar tæpar 66 milljónir til viðbótar til 18 stöðva sem verða væntanlega settar upp á þessu og næsta ári. Þá bætast við Lundur við Nýbýlaveg í Kópavogi, Garðatorg í Garðabæ, Miðbær Hafnarfjarðar, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Grundarfjörður, Búðardalur, Reykhólar, Flókalundur, Patreksfjörður, Hólmavík, Reykjanesskóli, Ísafjörður, Sauðárkrókur, Siglufjörður, Húsavík, Kópasker, Þórshöfn og Vopnafjörður. Það verða allt hraðhleðslustöðvar nema í Flókalundi og Reykjanesskóla.Árið 2018 er svo ætlunin að koma upp hátt í sjötíu stöðvum, en aðeins lítill hlutii þeirra eru hraðhleðslustöðvar. Þeim er frekar ætlað að þétta netið sem þá er búið að byggja upp. Á fjórða tug nýrra stöðva verður þá komið upp í Reykjavík, meðal annars við bílastæðahús, og þrjár stöðvar verða settar upp í Mosfellsbæ. Auk þess verða stöðvar settar upp í  Grindavík, á Þingvöllum, Húsafelli, Reykholti í Borgarfirði, Vegamótum, Norðurfirði og Stokkseyri, auk þess sem þrjár nýjar verða settar upp á Selfossi.

Orkusjóður tillaga

 

Orkusalan gefur í öll sveitarfélög

Í þessari áætlun er fjölgun um hátt í hundrað stöðvar. En þar með er ekki allt upptalið. Orkusalan, sem er dótturfyrirtæki RARIK, tilkynnti í október að fyrirtækið hyggðist gefa sveitarfélögunum um áttatíu hleðslustöðvar. Markmiðið er ein hleðslustöð í hvert sveitarfélag.

Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda segir að það sem fólk hafi fyrst og fremst sett fyrir sig er hversu langt hægt er að aka á einni hleðslu, sem og hvernig hægt er að komast í hleðslustöðvar. „Norðmenn hófu markvissa uppbyggingu á hleðslustöðvum þar sem þeir komust að því með rannsóknum að það hversu stutt bíllinn komst á einni hleðslu fældi fólk frá því að kaupa. Þegar hleðslustöðvar eru komnar víða um landið var slegið á það. Þetta hafði því ekki síður sálræn áhrif.“

Runólfur bendir á að víða sé hægt að komast í rafmagn úti á landi, til dæmis í sumarbústöðum. En með tilkomu hleðslustöðva batnar aðgengið og menn eru öruggari á að fá hleðslu. Reynsla Norðmanna sé hins vegar sú að nýtingin á þessum stöðvum sé ekki endilega mjög mikil.

Runólfur segir að sala á hreinum rafbílum hafi ekki aukist jafn mikið hlutfallslega í fyrra og áður. Hins vegar hafi sala á tengil-twin bílum, sem ganga bæði fyrir bensíni og rafmagni, aukist töluvert í fyrra. Þeir bílar geta keyrt um 60 km á rafhleðslu og draga því verulega úr eldsneytisnotkun. Og eðli málsins samkvæmt tekur styttri tíma að hlaða þá.

 

Áfram mest notað í styttri ferðir

Runólfur segir ýmisa kosti við að kaupa rafbíla. Það eru hvorki aðflutningsgjöld né virðisaukaskattur á þeim, auk þess sem rafmagnið sjálft sé mun ódýrara og jafnvel frítt á hleðslustöðvunum. Það bæti svo enn úr að fjölga þeim. „Þetta er allt saman lykill í að aðlaga fólk að þessu, auk þess sem það er líka reynslan að ef fólk kaupir sér rafbíl einu sinni, þá gerir fólk það aftur. En á móti eru þessir bílar dýrari. Ég býst við því að eftir sem áður verða bílarnir áfram fyrst og fremst notaðir í þéttbýli og til að keyra styttri vegalengdir, en með hraðhleðsluneti um landið verður auðveldara að eiga slíkan bíl.“

Fleira áhugavert: