Gullkálfur íslensku þjóðarinnar

Heimild:  pressan

 

Ágúst 2015

Vilhjálmur Birgisson

Vilhjálmur Birgisson

Gullkálfur íslensku þjóðarinnar í dag er klárlega Landsvirkjun en hún skilaði 8,4 milljörðum í hagnað fyrstu 6 mánuðina sem er 83% meiri hagnaður miðað við sama tíma og í fyrra. Skuldir lækkuðu um 23 milljarða á fyrstu 6 mánuðum ársins og því orðið ljóst að Landsvirkjun er búin að greiða niður um 100 milljarða af skuldum sínum á liðnum árum og verður orðin skuldlaus eftir örfá ár. Takið eftir að það er að gerast þrátt fyrir að Landsvirkjun hafi ráðist í dýrustu framkvæmd Íslandssögunnar sem var bygging Kárahnjúkavirkjunar.

Nú þegar er Landsvirkjun farin að greiða milljarða á ári í arð til ríkissjóðs og eftir nokkur ár munu þessar arðgreiðslur nema tugum milljarða sem verður miklu meira en sjávarútvegurinn er að greiða til samfélagsins í formi auðlindagjalds.

Það er algerlega með ólíkindum  að til séu aðilar í íslensku samfélagi sem finna stóriðjunni allt til foráttu og reyna að blekkja íslenskan almenning um að raforkan til stóriðjunnar sé nánast gefins.  Hið sanna er að stóriðjan er að greiða um 50 milljarða til orkufyrirtækja ár hvert fyrir raforkuna, þar af á milli 30 til 40 milljarða til Landsvirkjunar og rest fer til Orkuveitu Reykjavíkur og HS orku.

Nei, þessar afkomutölur Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja sína hversu mikilvæg þessi starfsemi er okkar þjóðarbúi en við verðum hins vegar passa okkur að slátra ekki mjólkurkúnni okkar, sem eru stóriðjurnar, með græðgi, en eins og flestir vita þá kaupa stóriðjurnar yfir 80% af þeirri raforku sem Landsvirkjun selur.  Við þurfum að skapa öllum fyrirtækjum góð rekstrarskilyrði þannig að þau geti greitt starfsfólki sínu mannsæmandi laun og haldið áfram að vaxa og dafna og fjölgað störfum þjóðinni til heilla.

Tryggja verður að Landsvirkjun verði aldrei seld frá íslensku þjóðinni því hún þarf að vera til staðar til að skapa þjóðinni gríðarlegan arð á komandi árum, sanngjarnt og samkeppnishæft verð til heimila og fyrirtækja og skapa atvinnu fyrir íslenska þjóð.

Fleira áhugavert:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *