Verður 2017 ár rafmagnsbílsins?

Heimild:  

 

Febrúar 2017

Sigurður Már Jónsson

MMorgunblaðinu fylgdi stórt og mikið fylgirit um rafmagnsbíla. Fróðlegt er að lesa hvað er að gerast á þeim vettvangi en margir spá því að árið 2017 verði árið sem rafbíllinn slær í gegn. Lestur á blaðinu staðfestir þá skoðun margra sérfræðinga en gríðarlegar breytingar eru nú að eiga sér stað á helsta samgöngutæki mannkynsins, bílnum. Evrópusambandið vinnur að tilskipun um að öll ný eða endurnýjuð heimili innan sambandsins verði með búnað fyrir rafhleðslu fyrir bíla. Gert er ráð fyrir að tilskipunin verði komin í framkvæmd 2019.

 

Verðið að verða viðráðanlegt

Engum blöðum er um að fletta að rafmagnsbílar eru nú komnir í fjöldaframleiðslu, verðið er orðið viðráðanlegt, gæðin meiri og drægnin hefur aukist verulega. Rafhlöðurnar voru dýrar en hafa lækkað um áttatíu prósent á 6 árum. Um leið eru hleðslustöðvar að spretta upp um heim allan. Já, líka hér á landi. Í Morgunblaðinu er meðal annars fjallað um fyrirætlanir IKEA hér á landi um að gera öll stæði við verslunina að hleðslustæðum en þau verða 42 í sumar. Strætó bs. er að hefja rafvæðingu flotans hjá sér og þá hefur Guðmundur Tyrfingsson ehf. flutt inn fyrstu rafrútuna til landsins. Sömuleiðis hefur N1 tekið þá stefnu að bjóða upp á rafmagn sem orkugjafa fyrir viðskiptavini sína hringinn í kringum landið og mun byrja í ár með því að bjóða hraðhleðslu á þjónustustöðvum sínum á leið til Akureyrar frá Reykjavík. Markmiðið er að ekki verði meira en 100 kílómetrar á milli hleðslustöðvanna í framtíðinni.


Bandaríkjamenn og Kínverjar að taka við sér

Í Bandaríkjunum voru keyptir 160 þúsund rafbílar á síðasta ári. Fimm bílategundir voru seldar í meira en 10 þúsund eintökum, Tesla Model S, Tesla Model X, Chevrolet Volt, Nissan Leaf og Ford Fusion Energi. Sala á rafbílum jókst um 41 prósent í heiminum á síðasta ári en þá voru keyptir ríflega 777.000 rafbílar. Aukningin á árinu 2015 nam 72 prósentum. Sala á rafbílum jókst um 37 prósent í Bandaríkjunum árið 2016. Meira en helmingar þeirra var keyptur í Kaliforníu. Þar eru rafmagnsbílar að verða lífstíll.

Í Kína er að verða til stærsti bílamarkaður heims og mengunin við það að verða óviðráðanleg. Í Morgunblaðinu kemur fram að búist er við gríðarlegri aukningu í sölu rafbíla í Kína á þessu ári og það þrátt fyrir að ríkið sé tekið að draga úr ívilnunum vegna kaupa á slíkum farartækjum segir í Morgunblaðinu. Áætlað er að 800.000 vistvænir bílar verði nýskráðir í landinu 2017 sem er 58% aukning miðað við sölu sambærilegra bíla á nýliðnu ári. Af aukningunni í ár er talið að kínverskir rafbílar verði um 352.000 talsins eða 46% af heildinni. Kínverska ríkið hafði hvatt til kaupa á rafbílum bílum um árabil áður en salan tók við sér 2015. Meðal annars voru í boði sem svarar mörgum milljörðum króna í niðurgreiðslur til kaupa á vistvænum bílum til að draga úr loftmengun og örva kínverska bílsmiði til að komast í fremstu röð í smíði mengunarlausra bíla. Sannarlega metnaðarfull markmið.

 

Ísland í einstakri stöðu

Ísland er í einstakri stöðu til að rafbílavæða landið en við eigum nóg af umhverfisvænu rafmagni. Þá þurfum ekki að setja upp nýtt dreifikerfi – en verðum augljóslega að styrkja það sem er fyrir. Nú lætur nærri að um eitt þúsund rafbílar séu á götum landsins. Þeim fjölgar hins vegar hratt og sú þróun mun ráða miklu um hraða uppbyggingarinnar. Stöðugt fjölgar tegundum rafbíla, drægni þeirra eykst og innviðauppbyggingin er komin af stað. Já, hugsanlega verður árið 2017 ár rafmagnsbílsins á Íslandi.  

Fleira áhugavert: