Banaslys Jarðhitagas.. – Niðurdælingarkerfi brennisteinsvetnis tengt neysluvatnskerfi

Heimild:  

 

 

 

Smella á mynd að ofan til að heyra umfjöllun RÚV, skýringar HS Orku og Vinnueftirlits ríkisins

 

Framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja segir enga aðra borholu á Suðurnesjum geta mengað ferskvatn á sama hátt og gerðist í gær á Reykjanesi. HS Orka aftengdi afrennsliskerfi frá borholunni í gær og eftir það mældist engin mengun í vatninu. Ný sýni verða tekin á mánudaginn til að ganga endanlega úr skugga um að vatnið sé öruggt.

Starfsmaður fiskverkunarinnar Háteigs á Reykjanesi lést í gærmorgun þegar brennisteinsvetni úr borholu sem verið var að dæla niður í barst í ferskvatnskerfi svefnskála sem maðurinn hafðist við í. Þaðan barst það inn í skálann með þeim afleiðingum að súrefnisskortur varð þar. Annar maður sem var í skálanum var fluttur á sjúkrahús en var svo útskrifaður.

Þegar uppspretta mengunarinnar kom í ljós hófst HS Orka handa við að aftengja þetta kerfi og skola allt vatn út í kerfinu, þannig að tryggt væri að þessi efni kæmust ekki í vatnskerfið. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja tók svo sýni úr vatninu í gærkvöldi með aðstoð starfsmanna Íslenskra orkurannsókna, og samkvæmt þeim mælingum var engin mengun í vatnskerfinu. Til stendur að taka ný sýni á mánudaginn til að taka af allan vafa um að vatnið sé í lagi. Starfsemi í fiskverkuninni fer ekki af stað fyrr en á mánudaginn.

Kristinn Tómasson yfirlæknir hjá Vinnueftirliti ríkisins kallaði eftir því í fréttum RÚV í gærkvöld að þetta yrði skoðað ítarlega. Það sé grundvallaratriði að borholur tengist ekki með beinum hætti inn á neysluvatnskerfi eins og gerðist í þessu tilviki.

Magnús fullyrðir hins vegar að svona kerfi sé hvergi annars staðar á Suðurnesjum, og í raun hvergi á landinu svo hann viti til. Þetta sé einstakt tilfelli. Hann treystu því að við það að umrædd hola hafi verið aftengd frá vatnskerfinu sé búið að tryggja að þetta geti ekki gerst aftur. Ný sýni verði þó tekin til að ganga endanlega úr skugga um það.

Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar vildi ekki tjá sig um málið, þar sem stofnunin hefði ekki beina aðkomu að málinu.

Skoða þarf aðstæður á öllum jarðhitasvæðum og fara í ítarlega rannsókn á því hvers vegna svona atburður gat átt sér stað, segir Kristinn Tómasson, yfirlæknir hjá Vinnueftirliti ríkisins. Starfsmaður fiskverkunarinnar Háteigs á Reykjanesi lést þegar gas úr borholu Reykjanesvirkjunar komst í vatnskerfi tengt svefnskála sem hann svaf í.

Reykjanesvirkjun

Kristinn segir að enginn hafi átt von á því að þetta gæti gerst.
„Þarna gerist það óvænta skyndilega þegar þeir eru að dæla vatni niður í borholu í sínum hefðbundnum vinnuferlum að þá fer gas, kolmónoxið og brennisteinn sem síðan kemst inn í vatnskerfi hússins. Það er sírennsli í salerni og vatngufurnar, kolmónoxið og brennisteinn fara inn með sírennslinu. Þannig mettast loftið af þessum hættulegu eiturgufum inni í þessum vistarverum þar sem þessir starfsmenn voru með þessum hörmulegu afleiðingum.“

„Nú segir forstjórinn að þeir muni tryggja að þetta geti ekki gerst aftur en hvað með önnur jarðhitasvæði?  Þetta er náttúrlega málefni sem kallar á það að við skoðum þennan möguleika á öllum jarðhitasvæðum og skoðum þetta bara sem samfélag því að Ísland byggir jú á jarðhita.“

Kristinn segir að jarðhitinn sé grundvallar kennimerki Íslands og þess vegna verði Íslendingar að klára ítarlega rannsókn á því hvers vegna svona gat gerst. Það sé grundvallaratriði að  borholur tengjast ekki með þessum hætti inn á neysluvatnskerfið eins og hér virðist hafa gerst.

„En er ekki áríðandi að fara þegar í þá vinnu til þess að koma í veg fyrir að þetta geti gerst á öðrum jarðhitasvæðum?  Jú það er afar brýnt að þetta sé klárað. Ég held að menn frá bæði  hinu opinbera og orkufyrirtækunum séu þegar komnir á kaf í að reyna að hugsa málið og finna skynsamlega lausn til þess að þetta geti aldrei gerst aftur. Sennilega er þetta atburður sem enginn bjóst við nokkurn tímann eða höfðu hugmyndaflug  í að kæmi fyrir.“

Kristinn segir að slysið kalli á að rannsóknir á þessu sviði verði efldar til þess að skilja betur eðli jarðvarmanns og mögulegar hættur sem tengjast þessari grundvallar auðlind landsins.

 

Svæðið sem um ræðir er merkt með rauðum punkti á kortinu.

Fleira áhugavert: