Stjórn vatnamála – Verndun vatns

Heimild:  Umhverfisstofnun

 

Árið 2000 tók Evrópusambandið mikilvægt skref þegar það innleiddi rammatilskipun um verndun vatns (tilskipun 2000/60/EB). Árið 2007 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um að innleiða vatnstilskipunina hér á landi. Vatnatilskipunin var síðan innleidd með lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála vorið 2011, og með setningu reglugerðar nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun, og reglugerð nr. 935/2011 um stjórn vatnamála. Undir hatti stjórnar vatnamála eru allar reglugerðir til varnar mengun vatns og grunnvatns, fráveitur og skólp, köfnunarefnis frá landbúnaði og fleiri reglugerðir á sviði umhverfisverndar. Innleiðingatímabil stjórnar vatnamála er árin 2011-2015 og fyrsta framkvæmdatímabil vatnastjórnar er árin 2016-2021. Með stjórn vatnamála er komið á lögbundinni stjórnun og verndun vatns óháð stjórnsýslumörkum, samþættri vatnastjórnun óháð ólíkri stefnumörkun sveitarfélaga, og tímasettri áætlun um aðgerðir til að bæta ástand vatns eða viðhalda góðu ástandi þess. Í lögunum nær skilgreining á vatni yfir ár, stöðuvötn, árósa, sjávarlón, strandsjó, grunnvatn og jökla.

 

Staðreyndir um vatn og vatnaáætlun

Vatn er forsenda alls lífs á jörðunni, því allt líf þarf á vatni að halda. Vatn er lykilþáttur í mótun landslags og er hluti af sköpun og viðhaldi velmegunar og hagkerfa samfélaga, m.a. vegna landbúnaðar, fiskveiða, raforkuframleiðslu, iðnaðar, ferðamennsku og flutninga. Álag á vatn eykst stöðugt vegna nýrra íbúðahverfa, varnargarða, hafna, losunar frárennslis, námugraftrar, notkunar áburðar og varnarefna og vegna fiskveiða. Mengun og breyting á vatnsfarvegum og vatnsrennsli hafa mikil og oft óæskileg áhrif á vatn.
Stór hluti vatns á Íslandi er í góðu ástandi, ómengað og lítt raskað, en á nokkrum stöðum er vatn undir staðbundnu álagi af mannavöldum, einkum við stærri þéttbýlissvæði, ýmis framleiðslufyrirtæki, iðnaðarfyrirtæki og á virkjunarsvæðum. Víða á meginlandi Evrópu er mun meira álag á vatn, og þar býr nær helmingur íbúanna á svæðum þar sem vatn er undir einhvers konar álagi. Á heildina litið er talið að um 20% yfirborðsvatns á meginlandi Evrópu stafi hætta af mengun. Um 60% evrópskra borga ofnýta grunnvatnsuppsprettur og 50% votlendis er í hættu. Sambærilegar upplýsingar verða teknar saman fyrir Ísland í tengslum við stjórn vatnamála og birtar í vatnaáætlun.

Helstu þættir vatnaáætlunar eru flokkun vatns í vatnshlot, kortlagning álags og áhrifa á vatnshlot af mannavöldum, yfirlit yfir vernduð svæði, umhverfismarkmið, aðgerðaráætlun og vöktunaráætlun. Við gerð vatnaáætlunar er gert ráð fyrir víðtæku samræmi við hagsmunaaðila og almenning, m.a. með opinberum kynningum. Hver vatnaáætlun gildir í 6 ár í senn og á næstu 6 ára tímabilum verður hún endurskoðuð og betrumbætt. Gert er ráð fyrir að fyrsta vatnaáætlun Íslands taki gildi í byrjun árs 2016.

Ísland er eitt vatnaumdæmi og því er skipt niður í fjögur undirsvæði í reglugerð um stjórn vatnamála. Í hverju undirsvæði sem kallað er vatnasvæði eru starfandi vatnasvæðisnefndir. Í vatnasvæðisnefndum eiga sæti fulltrúar sveitarfélaga, heilbrigðisnefnda, náttúruverndar- og umhverfisverndarnefnda, fulltrúar ráðgjafanefnda hagsmunaaðila og fagstofnana og eftirlitsaðila. Fulltrúar í vatnasvæðisnefndum koma að gerð vatnaáætlunar, aðgerðaáætlana og vöktunaráætlunar.

Fleira áhugavert: