Af kolum og vatnsafli, Íslandi og Kína

Heimild:  

 

Pétur Blöndal

Svo virðist sem margir hafi komið af fjöllum þegar nefnt var að stóriðjan notaði kolaskaut til rafgreiningar. Það hefur þó verið raunin allt frá því álver hóf starfsemi í Straumsvík árið 1969 eða í tæpa hálfa öld. Enn hefur ekki fundist tækni til að leysa kolaskaut af hólmi í rafgreiningarferli álvera, þó að unnið sé að því að þróa óvirk skaut, m.a. í verkefni á vegum Nýsköpunarsjóðs. Þess vegna mælist losun frá álverum.

Til að setja hlutina í samhengi, þá er um helmingur af allri raforku í Bandaríkjunum og Þýskalandi framleidd með kolum. Það er því misskilningur ef fólk heldur að kol séu ekki lengur hluti af nútímasamfélagi. Stóriðjan hér á landi nýtir kol hinsvegar ekki sem orkugjafa, eins og fram kom hjá Ágústu Loftsdóttur verkefnastjóra eldsneytis og vistvænnar orku hjá Orkustofnun á Bylgjunni í lok vikunnar:

„Í sumum verksmiðjum, eins og t.d. álverunum, eru kolaskaut. Og það telst ekki orkunotkun á kolum. Af því að hugmyndin þar, og reyndar í flestum verksmiðjum sem nota kol, er að nota kolefnið í kolunum. Þá ertu sem sagt með einhvern málm, ál eða járngrýti eða kísil sem er með súrefni, það getur verið súrál svokallað, og þú vilt hreinsa súrefnið úr málminum… Það er því íslenska orkan, hreina orkan okkar, vatnsaflið og jarðvarminn sem fer í það að keyra efnahvarfið áfram.“

Og hún hélt áfram:

„Í tilfellum þar sem raforkan er notuð til þess að keyra efnahvörfin, þar getum við séð strax í hendi okkar að það er mjög líklegt að þær verksmiðjur sem eru hér og nota kol í efnaferlunum séu umhverfisvænni heldur en samskonar verksmiðjur í landi þar sem raforka er framleidd með kolum.“

 

Mest losun af orkuvinnslu

Image result for stóriðjaHér gildir að horfa á heildarmyndina.
Engum blöðum er um það að fletta að loftslagsmál eru stærsti umhverfisvandi sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir. En þegar horft er á heildarlosun við álframleiðslu á heimsvísu munar
mest um losun frá orkuvinnslu. Þannig getur heildarlosun frá álveri sem knúið er af raforku frá kolaorkuveri numið allt að 17 tonnum á hvert framleitt tonn af áli. Á Íslandi er álframleiðsla hinsvegar knúin af vatnsafli og jarðvarma og því er þetta hlutfall ekki nema um 1,64 tonn eða tífalt minna. Það munar um annað eins.

Eins og alkunna er, þá hefur vöxtur álframleiðslu verið örastur í Kína á liðnum árum. Nú er svo komið að Kína framleiðir yfir 30 milljónir tonna eða yfir helming af öllu frumframleiddu áli í heiminum. Og það er áhyggjuefni að um 90% álframleiðslu í Kína eru knúin með kolaorku.

 

Iðnaður í Evrópu axlar ábyrgð

Það er því mikilvægt fordæmi, að ríki Evrópu og þar með talið Ísland hafi tekið frumkvæði í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að koma á samevrópsku kvótakerfi losunarheimilda fyrir atvinnulífið. Undir það heyrir iðnaður, þar með talið íslensk stóriðja, ásamt flugi og orkuverum, en samanlagt bera þessar greinar ábyrgð á um helmingi allrar losunar í Evrópu.

ETS-kerfið er nú þegar farið að virka og útlit er fyrir að markmið náist um stórfelldan samdrátt í losun. Árið 2020 verður losun frá þessum greinum atvinnulífsins 21% minni er árið 2005 og árið 2030 er gert ráð fyrir að hún verði 43% minni. Þetta er sameiginlegur pottur innan Evrópu, enda er loftslagsvandinn þvert á landamæri.

Evrópskur áliðnaður hefur raunar þegar dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50% síðan 1990 og skuldbundið sig til að vinna enn frekar að því að koma á kolefnislágu hagkerfi innan ESB. Enn betri árangur hefur náðst hér á landi, en þegar árið 2012 hafði verið dregið úr losun um 75% á hvert framleitt tonn frá 1990.

 

Hnattrænt verkefni

Loftslagsmál eru hnattrænn vandi og til þess að ná árangri verður að koma upp kvótakerfi með losunarkvótum á hnattræna vísu. Annars skapast hætta á að orkuiðnaður flytjist frá löndum sem íþyngja iðnaðinum með kolefnisgjöldum til landa sem axla enga ábyrgð og horfa ekkert til losunar við framleiðsluna.

Þá værum við að gera illt verra og bregðast komandi kynslóðum. Þessi hætta hefur verið nefnd „kolefnisleki“ og er eðlilegt að stjórnvöld í Evrópu hafi hana til hliðsjónar við ákvörðun gjalda á sinn iðnað.

Þess vegna er mikilvægt að tekið verði á loftslagsmálum með hnattrænum hætti og ber að fagna því að þjóðir heimsins þokuðust í þá átt með Parísarsamkomulaginu. Raunar stendur barátta umhverfisverndarsamtaka í Evrópu til þess að koma fleiri greinum undir ETS – því góð reynsla er af því kerfi losunarkvóta sem komið hefur verið upp í Evrópu.

Lagt hefur verið upp með að þeir fjármunir sem aflast með þessum hætti renni til ríkjanna sjálfra og að þeim verði varið til þróunarverkefna sem draga enn frekar úr losun. Áhugavert væri að vita hvað verður um þá fjármuni sem renna í gegnum þetta kerfi til íslenskra stjórnvalda og munu gera á næstu árum og áratugum – hvort þeir skila sér í verkefni tengd loftslagsmálum.

 

Notkun áls kolefnisjafnar framleiðsluna

Eftir stendur að það fylgir losun álframleiðslu, en hún er hvergi minni en hér á landi. Það jákvæða er að ál er léttur og sterkur málmur, sem hægt er að endurvinna endalaust. Ál er því hluti af lausninni í loftslagsmálum. Bílaframleiðendur nota ál í sífellt auknum mæli til að létta bifreiðar og koma þannig til móts við kröfur stjórnvalda og neytenda um minni losun. Ef einungis er litið til þess hluta áls sem framleitt er á Íslandi og fer í samgöngutæki í Evrópu, þá dugar það til að kolefnisjafna alla framleiðslu á Íslandi.

Og er þá ekki horft til endurvinnslu álsins, en yfir 90% af öllu áli sem notað er til bílaframleiðslu er endurunnið og notað í nýjar bifreiðar þar sem það dregur aftur úr losuninni. Og svo aftur og aftur. Þá nýtist ál til margra hluta, svo sem að auka endingartíma matvæla og einangra byggingar sem dregur úr orkunotkun þeirra.

Það segir sína sögu að um 75% af öllu áli sem framleitt hefur verið er enn í notkun. Það mun nýtast komandi kynslóðum við að draga úr losun.

 

 

 Skoðun
 

Bjarni Jonsson ·

Works at Retired
Mér finnst gæta ónákvæmni í upplýsingum yfirvalda um kolefnisnotkun iðnaðarins og nefnd tala vera allt of lág, þar sem áliðnaðurinn einn og sér notar tæplega 400 kt/ár af kolaskautum eða um 0,45 t/t Al. Það er einnig ranglega með farið, að kolin séu ekki orkugjafi. Við brunann gefa þau frá sér hita, sem annars yrði að koma frá rafstrauminum, sem um kerin fara, og þá ykist raforkunotkunin. Þetta er ein af skýringunum á því, að eðalskaut hafa enn ekki rutt sér til rúms í áliðnaðinum. Þegar þau koma, mun áliðnaðurinn skila súrefni út í andrúmsloftið í stað koltvíildis. Á meðan raforkuvinnslan er jafnmengandi og nú í heiminum og mörg álver erlendis losa frá sér sterkar gróðurhúsalofttegundir, eru áhöld um umhverfisvænleika áliðnaðarins. Um umhverfisvænleika áliðnaðarins á Íslandi þarf hins vegar enginn að fara í grafgötur.

Albert Svan Pírati ·

Á Íslandi hefur heildarlosun gróðurhúsalofttegunda aukist um 26% frá árinu 1990 og þar munar mest um 107% aukningu í losun frá málmbræðslum (tölur af vef Hagstofunnar). Þannig að til að uppfylla Parísarsamning um 40% minnkun útblásturs ætti að vinda ofan af málbræðslum hér. Tölurnar hér í greininni um 50% og 75% minni losun eru afvegaleiðandi þar sem annarsvegar er eingöngu talað um losun frá álbræðslum í Evrópu og hinsvegar losun per framleiðslutonn á Íslandi.
Vissulega virðist umhverfisvænna að nota rafmagn frá vatnsafli fremur en kolabrennslu. En hver eru umhverfisáhrif þess að sigla með málmgrýti yfir hafið og síðan aftur til baka? Útblástur vegna skipaflutninga er ekki reiknaður inn í dæmið, ekki heldur losun frá uppistöðulónum. Þannig að maður setur fyrirvara á fullyrðingar að málmbræðslur séu umhverfisvænni bara af því þær séu byggðar á Fróni.
Það er rétt að losun af áliðnaði er meiri en áður, enda hefur framleiðslan aukist mikið á liðnum árum. En losun á hvert tonn hefur dregist verulega saman og það hlýtur að vera sá mælikvarði sem mestu skiptir.
Íslenskur áliðnaður heyrir ásamt flugi og orkuverum undir ETS, viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir. Það er pottur losunarheimilda sem áætlað er að skreppi saman um 43% frá árinu 2005 til ársins 2030.
Það er því ljóst að áliðnaðurinn axlar sínar byrðar. Barátta umhverfisverndarsamtaka hefur raunar staðið til þess að koma fleiri atvinnugreinum undir ETS-kerfið, því það er skilvirk lausn sem er líkleg til að skila árangri. Einnig vilja þau stuðla að því að það nái til fleiri landa.
Orkuvinnslan losar langsamlega mest í framleiðslu álsins. Þess vegna er losunin margfalt meiri af koladrifinni álframleiðslu en álframleiðslu sem knúin er með vatnsafli.
Þegar horft er til notkunar álsins, þá léttir það bílaflotann og dregur úr losun. Það hefur komið fram í máli Þrastar Guðmundssonar PHD og stundakennara við HR að ál sem framleitt er hér á landi og fer til bílaframleiðslu kolefnisjafnar alla þá losun sem verður við framleiðslu álsins hér á landi.
Er þá ekki horft til endurvinnslu álsins, sem krefst einungis um 5% af upprunalegu orkunni. Ef hún er tekin með í reikninginn er ljóst að notkun álsins kolefnisjafnar frumframleiðslu þess margfalt. Þegar ál hefur einu sinni verið framleitt, þá nýtist það mörgum kynslóðum.
Líkar þetta · Svara · 19. janúar 2017 13:22

Fleira áhugavert: