Sólstormar ógna veitukerfum

Heimild:  

 

Í nýrri skýrslu sem dönsku almannavarnirnar kynntu í vikunni kemur fram að sólstormar séu ein af stærstu ógnunum sem steðja að Danmörku. Auk sólstorma eru fellibylir, hryðjuverk, farsóttir og flóð talin vera meðal þess sem Danmörku stafar einna mest hætta af.

Sólstormar eru nýir á listanum en þeir verða til þegar öflugar sprengingar verða á sólinni en þær senda sólstorma út í geiminn og þar með stundum í átt til Jarðarinnar. Sólstormar geta gert gervihnetti óvirka, lamað raforkukerfi og haft mikil áhrif á flugumferð og fjarskipti.

2015 lagðist allt flug yfir Svíþjóð af í einn dag af völdum sólstorms og í Malmö varð eitt sinn rafmagnslaust af völdum sólstorms. Álíka atburðir geta átt sér stað í Danmörku eftir því sem segir í skýrslunni en Jótlandspósturinn fjallaði um hana.

Nútímasamfélög verða sífellt viðkvæmari fyrir truflunum á fjarskiptum og raforkudreifingu enda gegna fjarskipti og rafmagn stóru hlutverki í lífi flestra. Ef sólstormur eyðileggur gervihnetti getur gps-kerfið orðið óvirkt og tölvukerfi geta einnig orðið fyrir áhrifum af sólstormum.

Fleira áhugavert: