Hvalárvirkjun – Áformar að reisa virkjun við Hvalá í Ófeigsfirði

Heimild:  verkís

 

hvalrarvirkjun

Smella á mynd til að stækka

Undanfarið ár hefur Verkís unnið að mati á umhverfisáhrifum fyrir Vesturverk ehf. sem áformar að reisa virkjun við Hvalá í Ófeigsfirði.

Gerð verða þrjú miðlunarlón á Ófeigsfjarðarheiði og Hvalá, Rjúkandaá og Eyvindarfjarðará leiddar í aðrennslisgöngum í stöðvarhús sem byggt verður neðanjarðar. Frárennslisgöng opnast rétt ofan ósa Hvalár. Heildarfall verður um 315 metrar en heildarorkugeta Hvalárvirkjunar er áætluð um 320 GW h/ári og af virkjunarinnar um 55 MW.

Verkefni Verkís hafa snúið að því að vinna matsáætlun þar sem fyrirhugaðri framkvæmd er lýst og áhersluþættir matsvinnunnar tilgreindir, safna gögnum um helstu umhverfisþætti á svæðinu og standa fyrir rannsóknum. Í frummatsskýrslu eru áhrif virkjunarinnar metin og er hún send til umsagnaraðila auk þess sem almenningi og samtökum gefst kostur á að gera athugasemdir. Að lokum er skrifuð matsskýrsla þar sem greint er frá niðurstöðum og athugasemdum umsagnaraðila er svarað, matsskýrslan er síðan send til Skipulagsstofnunar sem gefur út álit sitt á henni.

Helstu áhrif framkvæmda felast í byggingu stöðvarhúss, stíflna, myndun uppistöðulóna, gerð vatnsvega og gerð aðkomuvega að mannvirkjum. Umhverfisþættir sem teknir voru til skoðunar voru jarðmyndanir, vatnafar gróður, fuglar, vatnalíf, fornleifar, hljóðvist, ásýnd lands, landslag, samfélag og landnotkun. Helstu mótvægisaðgerðir vegna Hvalárvirkjunar eru að fella mannvirki að landi og draga úr sýnileika þeirra og áhrifum á landslag.  Heildarniðurstaða mats á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar er að áhrif framkvæmda séu á bilinu óveruleg til talsvert neikvæð. Framkvæmdir eru ekki taldar hafa umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Ásamt umhverfismati framkvæmda er unnið að skipulagsbreytingum í Árneshreppi fyrir þann hluta skipulagsins sem snýr að Hvalárvirkjun og er sú vinna nýhafin. Í þeirri vinnu felast m.a. breytingar á núgildandi aðalskipulagi Árneshrepps sem samþykkt var 28. janúar 2014 og tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir virkjunarsvæðið. Í tengslum við skipulagsvinnuna verður unnið umhverfismat áætlana sem birt verður í svokallaðri umhverfisskýrslu fyrir hvort skipulag um sig.

Fleira áhugavert: