Landsvirkjun – Arðgreiðslur 10-20 milljarða á ári?

Heimild:  visir

 

 

Febrúar 2016

Landsvirkjun sér fram á að arðgreiðslur fyrirtækisins til eiganda síns gætu hækkað í tíu til tuttugu milljarða króna á ári á næstu tveimur til þremur árum. Afkoman er það góð að fyrirtækið reisir bæði Þeistareykjavirkjun og stækkar Búrfellsvirkjun án þess að auka skuldir.

Landsvirkjun hefur aldrei selt jafnmikið af raforku og í fyrra, sem vó upp lágt álverð. Niðurstaðan sem forstjórinn Hörður Arnarson kynnti fréttamönnum og fulltrúum greiningarfyrirtækja í dag er sú að ellefu milljarða króna hagnaður sé góð afkoma í krefjandi umhverfi.

landsvirkjun„Við höfum á síðustu rúmum fimm árum verið að lækka skuldir um yfir hundrað milljarða á sama tíma og við höfum verið að fjárfesta líka í nýjum virkjunum og viðhaldið okkar virkjunum mjög vel,“ segir Hörður.

Í hálfrar aldar sögu Landsvirkjunar hefur staða fyrirtækisins aldrei verið jafn sterk. Hreinar eignir umfram skuldir nema um 245 milljörðum króna. Sterkt eiginfjárhlutfall endurspeglast í vaxandi trausti sem fyrirtækið nýtur á erlendum lánamörkuðum, segir forstjórinn.

Þá stefnir í að Landsvirkjun verði með tvær virkjanir í smíðum á sama tíma, sem ekki hefur áður gerst, Þeistareykjavirkjun og Búrfellsvirkjun 2. Hörður segir Landsvirkjun gera ráð fyrir að byggja þær báðar án þess að skuldir aukist, með framlögum úr rekstri, og jafnvel þannig að skuldir lækki. Jafnframt sér fyrirtækið fram á að geta stóraukið arðgreiðslur.

„Miðað við varfærnar forsendur þá teljum við að eftir 2-3 ár gætum við aukið arðgreiðslurnar. Við höfum verið að borga undanfarin ár um einn og hálfan milljarð, sem er ekki mikið fyrir fyrirtæki eins og Landsvirkjun. En okkar mat er að þetta gæti farið upp í 10-20 milljarða á ári,“ segir forstjóri Landsvirkjunar.

Fleira áhugavert: