Óraunhæf prófverkefni – „Hvað hét amma húsvarðarins?“

Heimild:  mbl

 

Maí 1997

Örnólfur Thorlacius

Örnólfur Thorlacius

Talsvert hefur runnið bæði af bleki og tárum vegna samræmds prófs í stærðfræði sem í ár var lagt fyrir nemendur tíunda bekkjar grunnskóla. Gagnrýni hefur einkum beinst að lengd prófsins. Sé ég ekki ástæðu til að lengja þá umræðu en geri í þess stað stutta athugasemd við efni prófsins.

godi datinnÍ frægri sögu eftir Jaroslev Haek situr góði dátinn Svejk fyrir svörum hjá lærðum sérfræðingum sem kanna eiga vitsmunaþroska hans. Í stað þess að svara lýsir hann hæð og öðrum sérkennum á stórhýsi og gegnspyr að lokum: – Hvað hét amma húsvarðarins?“

Mér datt þessi saga í hug þegar ég las eitt verkefnið á prófinu (nr. 44), sem fjallar um endurnýjun á hitaveitulögn. Höfundar prófsins hafa á prenti reynt að firra sig gagnrýni sem fram hefur komið á þessu verkefni með því fyrirheiti að tekið verði við yfirferð úrlausna tillit til loðinna fyrirmæla um lengd röra, hvort átt hafi verið við eitt eða tvö. En það virðist mér aukaatriði.
Í upphafi verkefnisins er tilgreind sú forsenda, sem eðlilegt er að við sé miðað þegar vatnslögn er hitaveiutlognendurnýjuð, að nýja rörið eigi að geta flutt jafnmikið vatn og tvö eldri rör sem fyrir voru (væntanlega á jafnlöngum tíma). Síðan kemur fram að nýja rörið sé 70 metra langt en þau sem fyrir voru 100 metrar (og 0,3 metrar að þvermáli). Ekki vildi ég ráða starfsmenn Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála eða stærðfræðinga á hennar vegum til að hanna endurnýjun á hitaveitulögn að mínu húsi. Skyldi hveravatnið eiga að renna fyrstu eða síðustu 30 metrana eftir opnum skurði?

laeraÞar með er vitleysan ekki upp talin. Setjum svo að forsendur um lengd röranna séu breyttar, að hitaveitan noti til dæmis hluta tekna af nýrri gjaldskrárhækkun til að leggja lykkju á aðalæð svo stytta megi heimæð um þrjátíu metra.
En vandinn sem nemendum er að lokum gert að leysa er hvert þvermál nýja rörsins þurfi að vera til þess að það geti rúmað jafnmikið og eldri rörin. Hvað varð af upphaflegu forsendunni um óbreytt rennsli?

Stofnun sem kennir sig við rannsóknir í uppeldismálum gerir okkur, sem reynt höfum að verja nauðsyn þess að verðandi kennurum sé gert að leggja stund á fræði þeirra, engan greiða með því að láta svona rugl frá sér. Og hvað með þá staðhæfingu að stærðfræðin efli rökhyggju iðkenda sinna?

Fleira áhugavert: