Orkuskortur yfirvofandi víða um land

Heimild:  ruv

 

rafmagnVirkjanir og dreifikerfi anna ekki eftirspurn eftir raforku víða á landsbyggðinni. Að óbreyttu mun orkuskortur hamla bæði atvinnuuppbyggingu og orkuskiptum svo sem rafbílavæðingu. Þetta segir verkefnisstjóri hjá Orkustofnun sem reynir nú að fá sveitarfélög til að koma af stað orkuvinnslu með smávirkjunum.

 

Byggðalínan komin að stöðugleikamörkum

Orkustofnun reynir nú að vekja sveitarfélög landsins til meðvitundar um yfirvofandi orkuskort. „Staðan í raforkumálum er sú að flutningskerfið okkar byggðalínan, hringtengingin um landið sem er nú orðin áratugagömul, hún er komin að stöðugleikamörkum og getur ekki afhent mikla orku eða tekið við viðbótar nýrri orku. Það stefnir í orkuskort um landið ef menn vilja fara út í orkuskipti eða byggja atvinnustarfsemi upp og þá erum við ekki að tala um stóriðju,“ segir Erla Björk Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri skipulags raforkuvinnslu hjá Orkustofnun. Hún bendir á að uppsett afl í landinu sé um 2750 megawött en byggðalínan geti aðeins flutt um 100 megavött milli landshluta. Mjög erfitt reynist að byggja kerfið upp. Fáir virkjanakostir séu í nýtingarflokki rammaáætlunar og ljóst að sú orka nýtist ekki alls staðar. Fram kemur í gögnum sem Erla kynnti sveitastjórnarmönnum á Austurlandi fyrir skemmstu að litlir möguleikar séu til að auka álag á afhendingarstöðum nema á Suðvesturhorni landsins og á Norðvesturlandi.

 

Sveitarfélög verði að láta sig málið varða strax

Erla telur að sveitarstjórnarmenn verði að átta sig á hlutverki sínu í því að tryggja raforku. „Það er búið að fullnýta allra hagkvæmustu kostina og það er ekki margt mjög bitastætt sem kemur út úr vinnu verkefnisstjórar. Það eru ekki margir stórir hagkvæmir kostir sem komast í nýtingarflokk. Þannig að raforkuverð á nú sennilega ekkert annað fyrir sér en að hækka þegar eftirspurnin eykst og framboðið er mjög takmarkað,“ segir Erla.

 

Hvetur landeigendur til að láta kanna kost á smávirkjunum

Þetta geri smærri virkjanakosti hagkvæma og langeigendur geti legið á talsverðum verðmætum í ónýttum virkjanakostum. Hún hvetur þá til að hafa samband við Orkustofnun og fá ráðleggingar. Sveitastjórnmenn verði líka að hefja undirbúning og huga að flutningi orkunnar. „Það er ekki feitan gölt að flá að byggja upp raforkuvinnslu ef ekki er farið að huga að því. Það fer náttúrulega eftir því hvort að sveitarfélögin vilja byggja upp atvinnustarfsemi eða hvort að menn eru sáttir við að það sé bara status quo. Það er kannski hægt að lifa með ástandið eins og það er ef menn ætla ekki í neina verulega uppbyggingu og orkuskipti. Þetta er ein af grunnstoðum samfélagsins að hafa aðgang að orku. Það er enginn stóri bróðir sem mun tryggja að það verði ekki orkuskortur út um land,“ segir Erla Björk Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri skipulags raforkuvinnslu hjá Orkustofnun.

Fleira áhugavert: