Borholan RN-15/IDDP-2 á Reykjanesi – Orðin dýpsta borhola á Íslandi

Heimild:  HS Orka

 

dypsta-borholaMikilvægum áfanga náð í íslenska djúpborunarverkefninu IDDP. RN-15/IDDP-2 er nú dýpsta borhola á Íslandi.

Borholan RN-15/IDDP-2 á Reykjanesi er nú orðin rúmlega 3.600 m djúp og þar með fyrir nokkru orðin dýpsta borhola á Íslandi.  Holan er staðsett á vinnslusvæði Reykjanesvirkjunar og er stefnuboruð.

Holan var fóðruð með stálröri 24 cm í þvermál. Frá yfirborði nær fóðringin niður á 2.940 m dýpi og var hún steypt föst í einni aðgerð. Eftir steypingu fóðringarinnar var borun haldið áfram með 8 ½ tommu (um 22 cm) borkrónu.

Við borun tapaðist skolvökvi út í bergið, en við því hafði verið búist og er það almennt jákvætt merki við borun um gæði jarðhitasvæða.  Þar sem um rannsóknarholu er að ræða og áform um að bora mun dýpra, var að nokkru leyti steypt í þessa leka.

Gerðar voru tvær tilraunir til að ná borkjörnum úr holunni.

Við dýpkun holunar frá fóðringarenda hefur að mestu verið borað blint (þ.e. að skolvökvi berst ekki til yfirborðs) og hefur það gengið vel og áfallalaust. Þegar dýpt holunnar (lóðrétt frá yfirborði reiknað) náði 3.500 m varð holan formlega IDDP-2 djúpborunarhola. Framhald verksins verðu með þeim hætti að gerðar verða umfangsmiklar jarðeðlisfræðimælingar í holunni og þess verður freistað að ná borkjörnum úr djúpberginu. Sett markmið er að bora niður á allt að 5.000 m dýpi þar sem búast má við hitastigi sem nemur 400 – 500 °C.

IDDP djúpborunarverkefnið á Reykjanesi sem er leitt af HS Orku er umfangsmikið alþjóðlegt samvinnuverkefni. Að verkefninu standa HS Orka, Statoil í Noregi, Landvirkjun, Orka Náttúrunnar, Orkustofnun, innlendir og erlendir háskólar og rannsóknarstofnanir.

Íslenska djúpborunarverkefnið var stofnað árið 2000 og voru stofnendur þess HS Orka, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Orkustofnun.

Fleira áhugavert: