Skipulagður áróður gegn aukinni arðsemi Landsvirkjunar og OR?

Heimild:  mbl

 

September 2015

ketill sigurjónson 1

Ketill Sigurjónsson Lögfræðingur / höfundur Orkubloggsins

Undanfarið hefur mátt sjá ýmis skrif og ummæli sem endurspegla áhyggjur eða ótta álfyrirtækjanna hér. Áhyggjur af minnkandi hagnaði fyrirtækjanna því Íslandi kunni að opnast tækifæri til að fá hærra verð fyrir raforkuna.

Til að sporna gegn þessu tækifæri Íslands hefur m.a. Samál (Samtök álfyrirtækja á Íslandi) verið virkjað til að breiða út villandi upplýsingar. Allt virðist þetta ganga út á að villa almenningi sýn og tryggja að álfyrirtækin hér fái sem minnsta samkeppni um raforkuna.

Umræddur málflutningur beinist einkum að tveimur atriðum. Annars vegar því að gera lítið úr þeirri hugmynd að sæstrengur verði lagður milli Íslands og Bretlands. Og hins vegar því að reynt er að láta líta svo út að álverin hér séu að greiða nokkuð hátt verð fyrir raforkuna.

 

Óttinn við sæstreng 

Nýverið var haft eftir forstjóra álvers Alcoa á Reyðarfirði að umræðan um sæstreng og áhersla á útflutning á umframorku sé „ekki trúverðug þegar við upplifum raforkuskort á hverju ári“. Þetta er athyglisverð afstaða hjá álversforstjóranum.

Í fyrsta lagi er ekki um að ræða orkuskort hér. Ísland er stærsti raforkuframleiðandi heims m.v. fólksfjölda (per capita) og tal um orkuskort er út í hött. S.k. orkuskerðingar sem álfyrirtækin hafi orðið fyrir eru eðlilegur hluti af raforkusamningum fyrirtækjanna við orkufyrirtækin. Ef álfyrirtækin hefðu viljað tryggja sér meiri orku hefðu þau einfaldlega átt að semja um kaup á meiri tryggri orku.

Vandinn sem forstjóri Alcoa víkur þarna að lýsir sér aftur á móti í því að miðað við uppbyggingu flutningskerfis raforku hafi verið farið heldur geyst í stóriðjuframkvæmdir hér. Og/eða átt að huga betur að uppbyggingu flutningskerfisins samhliða virkjana- og stóriðjuframkvæmdum.

Í öðru lagi er sérkennilegt hvernig umræddar orkuskerðingar eru af hálfu forstjóra Fjarðaáls settar í samhengi við sæstrengshugmyndina. Þessar skerðingar eru á engan hátt óeðlilegar og þær breyta engu um það að hér rennur oft vatn á yfirfalli virkjana. Og þar fer umframorka til spillis. Það er kjarni málsins.

Þar að auki er sæstrengur þess eðlis að hann myndi gera orkufyrirtækjunum auðveldara að efna raforkusamninga sína – í því ólíklega ástandi að þau myndi lenda í vandræðum með að framleiða nóg í samræmi við sölusamninga. Sæstrengur myndi sem sagt bæði geta bætt orkunýtingu í íslenska raforkukerfinu og aukið orkuöryggi.

Þarna virðist vera um að ræða tilraun af hálfu forstjóra Fjarðaáls til að tala niður sæstrengshugmyndina. Enda nýtur stóriðjan hér góðs af því að Ísland sé aflokað raforkukerfi, sem situr uppi með strandaða orku. Það ástand tryggir að miklu minni og miklu einhæfari eftirspurn er eftir orkunni hér en alla væri – sem er til þess fallið að styrkja samningsstöðu álfyrirtækjanna gagnvart raforkuframleiðendunum hér.

Í hnotskurn þá óttast álfyrirtækin ekkert meira en þá auknu eftirspurn og stærri kaupendahóp sem sæstrengur myndi skapa um íslenska orku. Áliðnaðurinn skelfist þá tilhugsun að Íslandi bjóðist tækifæri til að snarauka arðsemi sína af raforkunni.

 

alverÓttinn við að botnverð til álvera heyri sögunni til

Öllum sem fylgjast með skrifum mínum ætti að vera kunnugt um hvernig Ágúst Hafberg, framkvæmdastjóri hjá Norðuráli, og Pétur Blöndal hjá Samáli, hafa reynt að villa um fyrir almenningi um raforkuverð til álvera á Íslandi. Sambærilegur málflutningur er einnig mjög áberandi hjá þeim sem standa að Fésbókarsíðunum Auðlindir okkar og Atvinna og iðnaður.

Þessi málflutningur gengur mjög út á það að slá ryki í augu fólks; að reyna að sannfæra fólk um þá blekkingu að raforkuverð hér til álveranna sé nokkuð hátt í alþjóðlegu samhengi. Og að Landsvirkjun ætti jafnvel að lækka orkuverð sitt sökum þess að orkuverð hafi verið að lækka í mörgum nágrannalöndum okkar (sem er vegna efnahagsþrenginga og tímabundinnar offramleiðslu á orku).

Í þessum ruglmálflutningi áróðursmeistara álfyrirtækjanna er líka athyglisvert að þar er í hvívetna forðast að nefna hvert raforkuverðið er til álvera Century Aluminum (Norðuráls) og Alcoa (Fjarðaáls). Enda njóta þessi tvö álfyrirtæki raforkuverðs sem er algert botnverð og er t.a.m. langt undir meðalverði á raforku í nýlegum samningum við álver í Kanada. Og langt undir meðalverði raforku til álvera á Íslandi (vegna þess að raforkuverðið til álversins í Straumsvík er miklu hærra en til hinna álveranna tveggja).

 

Almenningur á Íslandi haldi vöku sinni

Mikilvægt er að almenningur á Íslandi hugleiði hver það er sem hagnast mest á því að raforkuverð á Íslandi sé mjög lágt. Það eru álfyrirtækin. Þau fá hátt í 3/4 allrar raforkunnar sem er framleidd hér. Ef og þegar raforkuverðið til þeirra hækkar þá mun það skapa bæði Landsvirkjun og ON/OR (sem bæði eru í opinberri eigu og þar með í eigu almennings) miklar aukatekjur og góðan hagnað. Þar með munu orkuauðlindirnar okkar loks fara að skila þjóðinni meiri og sanngjarnari arði.

Þær tekjur og sá hagnaður, sem í reynd er auðlindaarðurinn af nýtingu orkuauðlindanna hér, rennur nú fyrst og fremst til erlendu álfyrirtækjanna sem eiga álverin hér. Og þau kæra sig alls ekki um að missa neitt af þeim fjármunum til íslensks almennings. Og vegna þess að nú styttist í að stór raforkusamningur Century Aluminum (Norðuráls) við Landsvirkjun rennur út (og fljótlega einnig orkusamningur Century við ON/OR) hefur nú verið efnt til áróðursherferðar um að raforkuverð hér til álvera sé nokkuð hátt. Og að engin ástæða sé til að hækka það. Sem er algjör firra, því verðið hér til álveranna og þá einkum og sér í lagi til Norðuráls er í reynd mjög lágt í alþjóðlegu samhengi.

Þetta vita vafalítið stjórnendur Landsvirkjunar svo og fulltrúar eigandans, þ.e. fjármálaráðherra og stjórn Landsvirkjunar. Því fólki getum við vonandi treyst; treyst til þess að tryggja að Century Aluminum (Norðurál) fái ekki nýjan orkusamning á botnverði. Heldur einungis á verði sem er a.m.k. sambærilegt eða nálægt því verði sem álver greiða almennt í Bandaríkjunum og Evrópu og svipað því verði sem álverið í Straumsvík greiðir.

Það merkir að orkuverðið til Norðuráls verði að lágmarki um 35 USD/MWst að núvirði eða jafnvel nokkru hærra. Þetta markmið er Íslandi ákaflega mikilvægt. En því miður gefst líklega ekki tækifæri til að hækka raforkuverðið til Alcoa (Fjarðaáls) fyrr en raforkusamningur þar rennur út árið 2048. Það er mál framtíðarinnar; nú er mikilvægt að einbeita sér að því að hækka raforkuverðið vegna Norðuráls. Svo og vegna járnblendiverksmiðju Elkem, en einnig þar er raforkusamningur að renna út.                     

Fleira áhugavert: