Vatnstjón og orsakir þess

Heimild:  mbl

 

Ágúst 2002
vatnstjon-aFull ástæða er til að ætla, segir Jón Ólafsson, að niðurstöður rannsóknarverkefnis vátryggingafélaganna og Rb á vatnstjóni eigi eftir að verða áhugaverðar.
Skemmdir á húseignum af völdum vatns eru meðal kostnaðarsamasta tjóns, sem kemur til kasta vátryggingafélaga. Fjöldi tilvika skiptir þúsundum á ári hverju. Óþægindi og kostnaður húseigenda vegna vatnstjóns er oft verulegur. Því er eðlilegt að þeir aðilar, sem láta sig þessi mál varða, leiti leiða til að fækka þessum tjónstilfellum. Fyrri kannanir á orsökum vatnstjóns sýna að oftast verður það af ástæðum sem hæglega má fyrirbyggja. Hér er átt við tjón t.d. af völdum tæringar lagna, stíflaðra niðurfalla, ónýtra slangna og lélegra vatnslása og ýmislegt tjón, sem stafar af aðgæsluleysi eða mistökum eigenda/notenda.

Tæring lagna

Innri tæring lagna er mikið vandamál í hita- og neysluvatnslögnum. Það er vitað að heitt og kalt vatn er afar mismunandi í hinum ýmsu veitum landsmanna. Er tæringargildi vatns því misjafnt eftir hitastigi og efnisflokkum lagna. Rannsóknir hafa verið gerðar til að fá fram hvaða tegundir efna henta best í hita- og neysluvatnskerfum á hverju landssvæði. Hafa þær verið settar fram á aðgengilegan hátt á sérstakri heimasíðu Lagnavals. Standa væntingar til að tilfellum vatnstjóns vegna innri tæringar lagna fækki í framtíðinni, þegar hönnuðir, verktakar og efnissalar hafa almennt tileinkað sér þessar niðurstöður.

vatnstjonRannsókn á vatnstjóni

Samband íslenskra tryggingafélaga og aðildarfélög þess hófu sl. vor verkefni í samvinnu við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins (Rb) þar sem ítarlega er skráð vatnstjón og orsakir þess. Er markmið verkefnisins að fá fram núverandi stöðu þessara mála, greina orsakir tjóns og kostnað við það. Verkefnið er unnið að tilhlutan Vatnstjónaráðs, en þar eiga aðild fulltrúar stofnana og samtaka er láta sig skipta vatns- og frárennslislagnir. Er þess vænst að á haustmánuðum komi fyrstu niðurstöður, sem nýta má sem grunn að fræðslu- og kynningarefni til hönnuða og byggingaraðila, svo og til alls almennings.

Hönnun og frágangi ábótavant

Fyrri niðurstöður sambærilegra kannana sýna verulega brotalöm í hönnun og frágangi lagna. Þar er m.a. til að taka þau vinnubrögð sem viðgangast við hönnun húsa, að horfa ekki til skemmstu mögulegra vegalengda með lagnir að og frá votrýmum. Jafnframt má nefna þá áráttu að loka inni með steypu lagnir og vatnslása, sem jafnvel raki leikur um. Þannig skemma ryð og tæring lagnirnar utan frá mun fyrr en ella, væru þær í þurrum aðgengilegum stokkum. Þá er ónefnt allt það tjón er verður vegna lélegs viðhalds lagna og mannlegra mistaka.

Fækkar vatnstjónstilfellum?

Full ástæða er til að ætla, að niðurstöður rannsóknarverkefnis vátryggingafélagnna og Rb verði áhugaverðar. Ef vel tekst til gætu þær orðið upphafið að skipulögðu og víðtæku átaki til að uppræta vatnstjón til framtíðar.

Fleira áhugavert: