Vindmyllugarður Þykkvabæ

Heimild:  visir

 

 

Október 2016

Gagnrýna vinnubrögð við vindorkugarð

Íbúar í Þykkvabænum gagnrýna harðlega hugmyndir fyrirtækisins Biokraft um uppbyggingu vindmyllugarðs á svæðinu. Um er að ræða 13 vindmyllur sem allar verða 150 metrar á hæð, tvöföld hæð Hallgrímskirkjuturns. Íbúi segir forsvarsmann fyrirtækisins hafa reynt að fá sig á band fyrirtækisins með landaskiptum og lægra rafmagnsverði.

„Hann gaf mér vel undir fótinn með að við gætum haft hag af því að hafa landaskipti og bætti því við að ég myndi hafa mikinn hag af því. Einnig bauð hann mér miklu lægra rafmagnsverð, yrði vindmyllugarðurinn að veruleika,“ segir Jón Þórarinn Magnússon, íbúi á Bala í Þykkvabæ. Hann segist hafa gagnrýnt áformin á opnum fundi með íbúum þar sem hann hafi átt land sem þurfti að kaupa. „Steingrímur sagði undir rós að það gæti kannski verið mér í hag og ég haft kláran ávinning umfram aðra ef ég hætti að gagnrýna uppsetninguna.“

Biokraft hefur sent tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar. Engin lög eru til um vindorkubú sem þessi og þurfa framkvæmdirnar ekki að fara í gegnum umfjöllun í rammaáætlun. Það er álit Orkustofnunar að vindorka falli ekki undir lög um verndar- og orkunýtingaráætlun. Undir þau lög falla aðeins jarðhiti og fallvötn.

Íbúar í Þykkvabænum hafa mótmælt harðlega áformum fyrirtækisins. Hafa íbúar safnað undirskriftum og haldið fundi um vindorkugarðinn.

Gyða Árný Helgadóttir, íbúi í Þykkvabæ, segir fyrirhugaðar framkvæmdir rýra lífsgæði íbúanna sem og lækka verð fasteigna þeirra. „Það er of mikið í húfi hér en ávinningur sveitarfélagsins er ekki mikill. Það er enginn fjöldi sem mun vinna við þessar vindmyllur. Einnig er bæði hljóð- og sjónmengun af þessu. Hér eru mikil víðerni og langt í næstu fjallgarða og því munu 150 metra háar vindmyllur breyta ásýnd þessa ferðamannasvæðis gríðarlega,“ segir Gyða Árný.

Fleira áhugavert: