Er orkusagan að endurtaka sig?

Heimild:  mbl

 

September 2015

Þorsteinn Þorsteinsson

Þorsteinn Þorsteinsson

Er orkusagan að endurtaka sig?

Við Íslendingar gleymum því stundum að orkugjarfar geta úrelst. Sú var tíðin að hvallýsi var mikilvægur ljósgjafi í Evrópu, sbr. lýsi – ljós, og íslenskur grútur var aðalorkugjafi til þess hér á landi fram  á síðustu öld. Hvalalýsi var einnig notað til að smyrja vélar, í smjörlíkisframleiðslu, sápugerð, snyrtivöru- og kertaframleiðslu. Svipaða sögu er að segja af sérstakri ólífuolíu, sem íbúar Pugliahéraðs á Ítalíu framleiddu til að lýsa stræti Parísar og Lundúna, en olían sú þykir ekki eftirsóknarverð í dag.

Eftirspurnin eftir búrhvalslýsi var orðin það mikil um miðja 19. öld að hún leiddi til ofveiði á búrhval og var hann því líklegast í útrýmingarhættu á þeim tíma. Búrhvalurinn var þó ekki friðaður fyrr en árið 1983. Íslendingar veiddu búrhval fram að þeim tíma, reyndar einungis karldýr þar sem kvendýrin leita ekki hingað á norðurslóðir. Greinarhöfundur var háseti á Hval 7 á þessu tíma en það var einmitt á því skipi sem síðasti búrhvalinn var skutlaður við Íslandsstrendur.

Það sem kannski kom búrhvalnum til bjargar á 19. öld var að Bandaríkjamaðurinn George Bissel (1821-1884) hóf að vinna olíu sem síðan leysti hvalalýsið alveg af. Bissel stofnaði árið 1854 olíufélagið Pennsylvania Rock Oil Company með viðskiptafélaga sínum Jonathan Greenleaf Eveleth (1821-1861). Svarta gullið átti eftir að færa Bissell mikinn auð og sú bortækni sem Bissell notaðist við lagði svo grunninn að nýjum iðnaði. Þessa tækni mátti rekja til samlanda hans, Edwin Drake (1819-1880), sem Bissel hafði ráðið til sín. Segja má að olíuöldin hafi gengið í garð fyrir alvöru árið 1861.

Með aukinni umhverfisvitund hafa þær raddir fengið æ sterkari hljómgrunn að finna þurfi nýja og umhverfisvænni orkugjafa en mengandi olíu og kol sem enn eru helstu orkugjafar heimsbyggðarinnar. Áhyggjur af hnattrænni hlýnun hafa svo ýtt mjög undir leit manna að nýjum og umhverfsvænni orkugjöfum. Við Íslendingar búum hins vegar svo vel að geta nýtt og okkur þá grænu orku sem felst í vatnsaflinu og jarðvarma.

Kjarnorkan hefur lengi verið sá orkugjafi sem menn hafa helst horft á til að leysa af jarðefnaeldsneyti. Ýmis vandamál hafa þó verið tengd kjarnorkunni. Í því sambandi má nefna hættuna á umhverfisslysum en skemmst er að minnast slyssins í Fukushyma í Japan árið 2011 sem enn er hart deilt um þar í landi. Chernobyl slysið var kannski nær okkur Íslendingum en það hafði hörmulegar afleiðingar í för með sér, bæði fyrir umhverfi og lífríki, en áhrifin mældust alla leið til Norður-Skandínavíu. Stærsta vandamálið hefur þó ekki verið fólgið í slysahættuni heldur þeim geislavirka útgangi sem fellur til við vinnsluna.

Nýjar lausnir
Nú virðast nýjar lausnir vera innan seilingar. Ein þeirra er að hagnýta umhverfisvæna kjarnorku með þóríum sem hugsanlega getur umbylt orkubúskap heimsins til lengri tíma litið. Forsagan er sú að bandaríski herinn framkvæmdi tilraunir á 7. áratugnum með kjarnaofna sem knúnir voru þóríum sem uppleyst var í saltlausn (MRS=Molten Salt Reactor). Nokkur fyrirtæki, í Bandaríkjunum, Kanada og víðar, hafa svo undanfarin ár tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið með þessar tilraunir og eru um þessar mundir að þróa slíka kjarnaofna af krafti.

Í nýlegri grein Kjartans Garðarssonar, vélaverkfræðings, sem birt var í Morgunblaðinu kom m.a. eftirfarandi upplýsingar fram:

„Það sem er sérstakt við þessa kjarnaofna er að þeir geta notað þóríum, úran og plútón sem eldsneyti og breyta allt að 99% orkunnar í varma í stað 2-3% nýtingar eins og hún er í dag. Og það þarf ekki að auðga úranið. Það þýðir að þessir kjarnaofnar eru allt að 100 sinnum betri en þeir sem notaðir eru í dag og margfalt umhverfisvænni. Úrganginn frá þeim þarf einungis að geyma í fáeina áratugi í stað tugþúsunda ára. Og það sem meira er: Úrganginn frá núverandi kjarnaofnum ásamt kjarnorkuvopnum má vel nýta sem eldsneyti. Það er stórt, vistvænt framfaraskref út af fyrir sig.“

Kjartan heldur því einnig fram í fyrrnefndri grein að þessi fyrirtæki muni í náinni framtíð fjöldaframleiða þessa kjarnaofna og að dagleg afköst hvers fyrirtækis fyrir sig verði um 50 MW. Hvað orkuverðið varðar telur Kjartan að það verði undir 10 USD/MW til lengri tíma litið. Einnig telur Kjaran að þessi nýju orkuver verði staðsett sem næst notandanum sem þýðir að engin þörf verði fyrir háspennulínur og þar af leiðir að dýr mannvirki, sem flytja rafmagn, munu heyra sögunni til.

Hvert stefnir orkubúskapurinn?
Internetið var á sínum tíma fundið upp fyrir tilstuðlan bandaríska hersins. Sama gildir um fyrrnefnda kjarnaofna sem knúnir eru þóríum. Skyldi síðastnefnda uppfinningin verða jafn byltingarkennd og sú fyrri? Vissulega hljómar þetta áhugavert og spennandi. Spurningin er því hvort sagan sé að endurtaka sig frá því þegar olían leysti búrhvalslýsið af hólmi á sínum tíma. Munu umhverfisvænir kjarnaofnar leysa af þá hefðbundnu orkugjafa sem eru til staðar í dag? Ef sú reynist raunin, hvaða þýðingu mun þessi breyting þá hafa fyrir orkubúskapinn á heimsvísu og ef við lítum okkur nær:  Hvaða þýðingu mun þetta hafa fyrir Íslendinga?

 

———————————————————————————————-

Viðbrögð við grein..

ketill sigurjónson 1

Ketill sigurjónson – Orkubloggið

Ketill sigurjónson

Sú gerð kjarnaofna eða kjarnorkuvera sem fjallað er um í þessari grein hefur verið á tilraunastigi í um hálfa öld – og er ennþá á tilraunastigi. Eins og staðan er í dag er allsendis óvíst að unnt verði að koma þessum hugmyndum í framkvæmd. Bjartsýnustu spár helstu frumkvöðla á þessu sviði virðast gera ráð fyrir því að þarna megi í fyrsta lagi vænta alvöru árangurs um eða eftir 2030. Og ef það gangi eftir er talið líklegast að það verði þá kjarnaofnar sem noti úran; ennþá lengra sé í að fyrir hendi verði hagkvæm tækni sem bjóði upp á að nota þórín (þóríum). Þarna er þó margt óvíst og best að fullyrða sem minnst og hafa mikinn fyrirvara á öllu sem sagt er.
Svo virðist sem kostnaðurinn við þessa tækni yrði talsvert meiri en sumir eru að giska á. Þannig miðar fyrirtækið Transatomic Power við að kostnaðurinn pr. einingu af afli (t.d. MW) yrði (einungis) um helmingi minni en gerist í kjarnorkutækni dagsins í dag. Það væri engu að síður vissulega mjög stórt skref, auk þess sem til framtíðar yrði um umhverfisvænni kost að ræða. Þetta eru því geysilega áhugaverðar rannsóknir.
En ennþá er sem sagt of snemmt að gera sér miklar væntingar um árangur. Og litlar líkur virðast vera á því að þessi tækni myndi ógna ódýrum orkugjöfum, eins og vatnsafli. Um það er þó auðvitað ekkert hægt að fullyrða, enda kann framtíðin að renna upp með miklum, ófyrirsjáanlegum og ótrúlegum tækniframförum. Fyrir áhugasama um þessa tækni, myndi ég t.d. benda á nýlega og afar skýra og auðlesna skýrslu umrædds Transatomic Power; Technical White Paper (frá mars 2014)

Fleira áhugavert: