80 virkjunarkostir – Norðlingaölduveita hagkvæmust

Heimild: orkustofnun10pressan

 

80-virkjanakostir

2.okt 2016

Verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur lagt fram lokaskýrslu 3ja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar. Í skýrslunni er gerð tillaga um flokkun 25 virkjunarkosta og svæða. Umhverfisráðherra mun meta hvort lögð verði fram fyrir þinglok hvort þingsályktunartillaga verði lögð fram.

Verkefnisstjórn leggur til að eftirfarandi kostir fari í orkunýtingarflokk:  Skrokkölduvirkjun á vatnasvæði Þjórsár, Holtavirkjun í neðri Þjórsá, Urriðafossvirkjun í Þjórsá, Austurengjar í Krísuvík, Hverahlíð II og Þverárdalur á Hengilssvæði, Austurgilsvirkjun á Langadalsströnd á Vestfjörðum og Blöndulundur. Í verndarflokk fari fjögur svæði með eftirtöldum virkjunarkostum:  Héraðsvötn (Villinganesvirkjun, Skatastaðavirkjanir C og D), Skjálfandafljót (Fljótshnúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjanir A, B og C), Skaftá (Búlandsvirkjun í Skaftárdal án Skaftárveitu) og Þjórsá vestur (Kjalölduveita). Í biðflokk fari tveir virkjunarkostir í Hólmsá austan Torfajökuls (við Atley og án miðlunar), Búðartunguvirkjun í Hvítá í Árnessýslu, Hagavatnsvirkjun sunnan Eystri-Hagafellsjökuls, Stóra-Laxá á Suðurlandi, Trölladyngja á Reykjanesskaga, Innstidalur á Hengilssvæði, Hágönguvirkjun við Hágöngulón við Köldukvísl, Fremrinámar milli Mývatns og Herðubreiðarfjalla og Búrfellslundur. Tveir fulltrúar lögðu fram sérálit um að virkjunarkostir í Hólmsá viðAtley yrðu færðir úr biðflokki í nýtingarflokk.

 

urridafossOrkustofnun lagði fram 80 virkjunarkosti

Skýrsla Orkustofnunar er unnin í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011, sem tóku að fullu gildi 14. janúar 2013. Markmið laganna er að tryggja að nýting landsvæða, þar sem er að finna virkjunarkosti, byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati, þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þessi áætlun hefur að jafnaði verið kölluð rammaáætlun og er þeirri venju viðhaldið í skýrslunni. Þriðji áfangi rammaáætlunar er fyrsti áfanginn sem unninn er samkvæmt gildandi lögum og reglugerð, af þeim ástæðum gilda aðrar forsendur fyrir flokkun virkjunarkosta en voru fyrir hendi í tveimur fyrri áföngum. Fyrri áfangar voru unnir samkvæmt fyrirmælum ráðherra og náðu í mörgum tilfellum langt inn í ferli umhverfismats framkvæmda en núverandi löggjöf er á grunni umhverfismats áætlana. Litið er til þess að verkefnisstjórnin geti fjallað um sem flest svæði þar sem orkunýtingarmöguleikar eru fyrir hendi, til þess að verkefnisstjórnin hafi sem mestan sveigjanleika í sinni áætlanagerð.

Lagðir eru fram af Orkustofnun 48 virkjunarkostir í vatnsafli og 32 virkjunarkostir í jarðvarma, eða samtals 80 virkjunarkostur. Auk þess var Landsvirkjun gefinn kostur á að leggja fram tvo virkjunarkosti í vindi, og lögðu til Hafið og Blöndu, þrátt fyrir að Orkustofnun hafði komist að þeirri niðurstöðu að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun ná ekki yfir slíka virkjunarkosti. Vindorka hefur til þessa ekki verið virkjuð í stórum stíl á Íslandi, en tækninni hefur fleygt mjög fram á síðari árum. Nýting vindorku í nágrannalöndum hefur farið ört vaxandi og þykir Orkustofnun tímabært að litið verði til nýtingar á þessari tækni til raforkuframleiðslu á Íslandi. Gera má ráð fyrir að vindorkuver verði stöðugt fýsilegri kostur, til lengri tíma litið, einnig hér á landi, þó hann komi ekki til umfjöllunar verkefnastjórnar að þessu sinni, vegna skorts á lagaheimild, Það er skoðun Orkustofnunar að engin lagaleg hindrun sé í vegi fyrir því að vindorkuver séu reist og rekin í kjölfar viðeigandi stjórnsýslulegrar umfjöllunar, þrátt fyrir það að þau fari ekki í gegnum ferli rammaáætlunar.

Báðum vindorkuverum Landsvirkjunar á Hafinu fyrir ofan Búrfell og við Blönduvirkjun er raðað í kostnaðarflokk 4. Þetta er áhugaverð staðreynd þar sem með þessu er vindorku raðað í lægri kostnaðarflokk en sjö virkjunarkostum í jarðvarma og 27 virkjunarkostum í vatnsafli.


Virkjunarkostirnir vítt og breitt um landið

Minnstu virkjunarkostir í vatnsafli eru 14 MW en sá stærsti er 156 MW en virkjunarkostir í jarðvarma eru 10 MW og upp í 150 MW. Í þriðja áfanga rammaáætlunar er samanlagt afl virkjunarkosta í jarðvarma 2.450 MW og gætu þeir skilað um það bil 19,9 TWh. Þessir virkjunarkostir eru eðli málsins samkvæmt allir staðsettir á eða við gosbeltið. Ekki er hægt að leggja saman uppsett afl allra virkjunarkosta í vatnsafli, þar sem sumir virkjunarkostirnir útiloka hvor annan. Virkjanlegt vatnsafl þeirra virkjunarkosta sem um ræðir er því á bilinu 2.142 MW til 2.211 MW eftir því hvaða útfærsla verður fyrir valinu. Á sama hátt verður möguleg orkuvinnslugeta þessara virkjunarkosta á bilinu 15 til 15,4 TWh. Virkjunarkostir í vatnsafli eru flestir á Suðurlandi, eða 27, á Norðurlandi 13 en á Vesturlandi, Vestfjörðum og Austurlandi eru tveir til þrír virkjunarkostir í vatnsafli í hverjum þessara landshluta. Flestir virkjunarkostirnir eru minni en 50 MW, samtals 26 virkjunarkostir, 14 eru af stærðinni 50 MW til 100 MW og 8 eru um eða yfir 100 MW. Virkjunarkostir í jarðvarma eru flestir á gosbeltinu og fyrirfinnast því ekki á Vesturlandi, Vestfjörðum eða Austurlandi. Flestir virkjunarkostir í jarðvarma eru á Suðvesturlandi, eða 13 talsins, 8 eru á hálendinu, 7 á Suðurlandi og 4 á Norðurlandi. Af virkjunarkostum í jarðvarma eru 8 minni en 50 MW, 15 virkjunarkostir eru af stærðinni 50 MW til 100 MW og 9 eru um eða yfir 100 MW.

 

nordlingaolduvirkjunNorðlingaölduveita hagkvæmust

Hagkvæmasti virkjunarkosturinn sem lagður er fram er Norðlingaölduveita, sem er eini virkjunarkosturinn í kostnaðarflokki 1. Virkjunarkostir í vatnsafli raða sér á kostnaðarflokka 1 til 6, þar af eru10 kostir í flokkum 1 til 3 en flestir eru í flokki 5, eða tæpur helmingur. Virkjunarkostir í jarðvarma raða sér í kostnaðarflokka 3 til 5.

 

Virkjunarkostir meiri en rafkorkunotkun ársins 2014

Virkjunarkostir í vatnsafli og jarðvarma gefa kost á orkuvinnslugetu upp á allt að 35,7 TWh á ári sem er talsvert meira en raforkunotkun ársins 2014 sem var 18,1 TWh. Verkefnisstjórn þriðja áfanga rammaáætlunar hefur því úr ýmsu að moða til að vinna áætlun um vernd og nýtingu virkjunarkosta samkvæmt matsáætlun sem tekur tillit til allra þeirra sjónarmiða sem horfa þarf til við gerð slíkrar áætlunar.

Verkefnisstjórn rammaáætlunar leitaði samráðs við hagsmunaaðila, stofnanir hins opinbera, almenning, hverjir svo sem það voru, og frjáls félagasamtök á ýmsum stigum vinnunnar við rammaáætlun, eins og mælt er fyrir um í lögunum. Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar 2013 – 2017 var skipuð af Svandísi Svavarsdóttur, þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, í mars 2013. Það vekur óneitanlega talsverða athygli hversu margir umhvers-  og náttúrusinnar voru skipaðir enda var Svandísi Svavarsdóttur umhugað að virkjanir yrðu sem fæstar, og helst hvergi velt við steini nema í nauðir ræki. Minna má á að Stefán Gíslason kallar sjálfan sig umhverfisnörd og Þóra Ellen Þórhallsdóttir barðist hatrammlega gegn öllum virkjanaframkvæmdum í Þjórsárverum fyrir nokkrum árum. Það að virkjunarkostir á Norðurlandi í Héraðsvötnum í Skagafirði og Skjálfandafljóti í Þingeyjarsýslu fari í verndarflokk hefur vakið athygli og heimamenn þar alls ekki allir sáttir. Ennfremur vekur athygli að virkjunarkostur við Bakkahlaup í Öxarfirði skuli alls ekki vera nefndur sem og Bjarnarflag eða Krafla II sem allt eru virkjanakostir í jarðvarma.
Í verkefnisstjórninni sitja:

  • rammaatlunStefán Gíslason Strandamaður, umhverfisstjórnunarfræðingur, formaður, skipaður án tilnefningar
  • Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í grasafræði við HÍ, skipuð án tilnefningar
  • Helga Barðadóttir, sérfræðingur á sviði orkumála, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
  • Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður, tilnefndur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
  • Hildur Jónsdóttir, sérfræðingur, tilnefnd af forsætisráðuneyti
  • Elín R. Líndal, sveitarstjórnarfulltrúi á Hvammstanga, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.


Skortur á skilningi samspils orkumála og loftlagsmála

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, sagði á vorfundi Landsnets að tillögur verkefnastjórnar rammaáætlunar í þriðja áfanga væru dæmi um skort á skilningi á samspili orkumála og loftslagsmála. Iðnaðarráðherra sagði tillögurnar byggðar á niðurstöðum tveggja faghópa af fjórum, þ.e. þeim sem fjalla um náttúruverðmæti, menningarminjar og ferðaþjónustu og hlunninda en ekki þeim faghópum sem fjalla samfélagsleg og efnahagsleg áhrif.  ,,Í verndar- og orkunýtingaráætlun skal í samræmi við markmið laga lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar,“ sagði iðnaðarráðherra sem sagði það oft gleymast í umræðunni að endurnýjanleg orka á Íslandi skilar einmitt miklum ávinningi til umhverfis- og loftslagsmála. ,,Sparnaður í losun gróðurhúsalofttegunda er hins vegar ekki tekinn með þegar mat er lagt á ávinning virkjanakosta á Íslandi.“

 

Þröng sýni verndunar

Í lok júlímánaðar lagði svo Orkustofnun fram rýni á drögum að skýrslu verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar frá 11. maí 2016 þar sem segir m.a. að það sé mat Orkustofnunar að drög að skýrslu verkefnisstjórnar séu ekki fullnægjandi og setji ráðuneyti og Alþingi í erfiða stöðu við framhald verksins. Greiningarvinna sé ófullnægjandi, matið byggi á of þröngu sjónarhorni, skortur sé á samræmi í einkunnagjöf milli áfanga og niðurstöður flokkunar séu eru ekki nægilega rökstuddar. Helstu niðurstöður Orkustofnunar eru, að í lokaskýrslu verkefnisstjórnar þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar hefur komið í ljós að forsendur flokkunar sem lýst er í skýrslunni byggja á veikum grunni og lýsa þröngri sýn verndunar. Síðan segir: ,,Vinna verkefnisstjórnar uppfyllir ekki markmið laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun nema að litlu leyti. Gætt er óhóflega mikillar varfærni við flokkun virkjunarkosta í nýtingarflokk, virkjunarkostir eru flokkaðir í biðflokk án þess að forsendur um skort á gögnum séu til staðar og í mörgum tilvikum eru atriði sem eðlilega væru tekin fyrir á stigi umhverfismats framkvæmda tilgreind sem ástæða fyrir því að virkjanir flokkast ekki í nýtingarflokk.“

Fleira áhugavert: