Heitavatnsborun í Fljótum – 30 l/s og hitinn er allt að 110°C

Heimild:   ísor

 

Júlí 2016

borad-fljotum-bNýlega var lokið borun á nýrri holu fyrir Skagafjarðarveitur, LH-4 við Langhús, og tókst vel til. Úr holunni fæst afar mikið af sjóðandi vatni og er það sjálfrennandi. Það verður notað í hitaveitu um Fljótin sem Skagafjarðarveitur eru nú að leggja. ÍSOR kemur að ráðgjöf varðandi jarðhitann en borverktaki við Langhús var VKC ehf.

Vatnsmagnið úr nýju holunni reyndist miklu meiri en væntingar voru til og hitinn hærri. Vonast var eftir 4 L/s og vatnshita um 100°C en upp komu meira en 30 L/s og hitinn er allt að 110°C. Óalgengt er að fá svo heitt vatn úr grunnum borholum á lág­hitasvæðum hérlendis.

Fyrri boranir

Þarna hét áður Dælislaug og var fyrst borað við hana árið 1997. Þá náðist samband við sprungu, sem gaf sjóðandi vatn á innan við 80 m dýpi. Aftur var borað þarna á aðventu 2014 og þá niður á um 200 m dýpi. Þá fékkst meira vatn og nóg til að Skagafjarðar­veitur byrjuðu á hitaveitulögn um Fljót. Nokkuð vantaði þó á að nægu vatnsmagni hefði verið náð en fyrri áfangi veitulagnarinnar um Austur-Fljót og Stíflu var gerður sumarið 2015. Jafnframt var boruð ný hola sem lukkaðist ekki. Ljóst var að vatns­gefandi sprungu hallaði ögn til austurs og var ný hola staðsett með tilliti til þess.

Nýja holan

borad-fljotum-aBorun fjórðu Langhúsaholunnar hófst síðla árs 2015 og var þá 200 mm víð fóðring steypt niður á tæplega 50 m dýpi. Áfram var svo borað með lofthamarskrónu og náðist að komast niður á um 100 m dýpi. Þá hafði náðst lítilsháttar samband við sprungutengdan jarðhita og var smá leki upp úr holunni þá um veturinn.
Áfram var svo borað núna í sumar og með hjólakrónu og vatnsskolun. Skolvatnshiti hækkaði þegar komið var í 140 m dýpi þá var sjálfrennsli 5 L/s í stuttu stoppi. Ljóst var að ásættanlegur árangur hafði orðið en jafnframt að það yrði að bora dýpra til að ná niður fyrir innrennslisæðina og tryggja að hún kafnaði ekki ef holan félli saman. Áfram var borað í 170 m en þá var holan farin að gjósa í borun og ljóst að í óefni var komið því ekki var nægt vatn til kælingar.

Holunni lokað

borad-fljotum-cHarðsótt var að ná borstrengnum upp enda var rennslið upp með stangalengjunni 20–30 L/s og vatnið sjóðandi. Strókurinn upp úr holunni var eftir því geysilegur. Ekki var síður frækilegt að setja stýringar á holutoppinn og lempa holuloka niður á flans á holutoppnum. Það var ekki síður fagmannlega gert í sjóðandi vatnsflaumi og það undir töluverðum þrýstingi. Þetta gerðu veitumenn og borarar saman og stóðu vel að verki.

Afkastamæling

Gerð var stutt þrepapróf eftir að tekist hafði að hemja holuna til að fá mat á afkastagetunni. Niðurstaðan var að rennslið gæti orðið ríflega 35 L/s við fullopmun. Vatnshiti 106-111°C og lokunarþrýstingur 5½ bar. Frekari úrvinnsla stendur yfir en þarna er greinilega um afar aflmikla holu að ræða. Holan er háþrýst og þess má því vænta að afköstin réni með tímanum en varla þó til skaða þar sem hér er miklu meira vatnsmagn en hitaveitan þarna þarf.

Fleira áhugavert: