Blöskraði slys á börnum í nuddpottum

Heimild: mbl

 

júlí 1995

heitir-pottarHUGMYNDASAMKEPPNIN Snjallræði gat ekki komið á betri tíma fyrir Einar Gunnlaugsson, tækniteiknara, árið 1992. Einari hafði blöskrað hve mörg börn höfðu slasast í heitum pottum og velti því fyrir sér hvernig hægt væri að fækka slysum með betri öryggisbúnaði. Hann útfærði hugmyndina nánar og sendi hana í samkeppnina með þeim afleiðingum að útbúnaðurinn hefur verið þróaður og er kominn á markað hér á landi. Öryggisbúnaðurinn er auðveldur í notkun og hæfir öllum nuddpottum. Þó má gera ráð fyrir að fyrir sumar gerðir potta þurfi að aðlaga búnaðinn. Í miðjan botn pottsins er komið fyrir nýju niðurfalli. Ofan á niðurfallið er svo fest fjölnota súla með hringlaga borðplötu sem í eru fimm göt sem hugsuð eru fyrir börn til að grípa í svo að þau falli ekki inn í miðju pottsins. Götin má líka nota til að geyma í drykkjarglös.

Einar byrjaði á því að kynna sér orsakir slysa á ungum börnum í nuddpottum og komst að því að öryggisbúnaði var víða ábótavant. „Ég komst fljótlega að því að lokin á pottunum voru oft alls ekki nógu góð. Þau voru svo þung og fyrirferðarmikil að fleiri en eina manneskju þurfti til að loka. Afleiðingin varð sú að lokin voru sjaldan notuð og potturinn stóð opinn. Opnir pottar geta auðvitað verið stórhættulegir fyrir lítil börn. Ekki síst þegar lauf, pappír og plastpokar stífla niðurfallið og rigningarvatn safnast fyrir í botninum.

Ég komst ekki aðeins að því að lokin væru gölluð heldur eru niðurföllin, sem eru af sömu gerð og niðurföll í handlaugum og baðkerum, stórhættuleg. Þegar tappinn er tekinn úr niðurfallinu vill myndast mikið sog og lítil börn geta hreinlega sogast föst við niðurfallið. Ef hár fer í niðurfallið vöndlast endarnir saman neðan við niðurfallið vegna sogsins og barnið getur ekki losað sig. Ekki þarf að spyrja að því að þegar svona fer geta afleiðingarnar verið skelfilegar.

Svo verða pottarnir auðvitað slysagildra þegar brúnirnar eru látnar hvíla á göngupöllum, t.d. veröndum í kringum sumarbústaði, svo þær virka eins og þröskuldur og um þennan þröskuld falla börnin niður í pottana.“

– Hvaða ferill fór af stað þegar þú skilaðir inn tillögunni í Snjallræði?

„Ég skilaði tillögunni inn í samkeppnina á miðju ári 1992. Alls var 250 tillögum skilað inn og til að byrja með valdi dómnefnd átta tillögur til áframhaldandi þróunar. Hugmyndunum var svo fækkað niður í fjórar og mín var ein af fyrstu framleiðsluhæfu afurðunum til að fara á markað á vegum Snjallræðisverkefnisins. Engu að síður hefur þróunin tekið sinn tíma. Ég hef unnið að því í öllum mínum frítíma í þrjú ár. Hugmyndin hefði heldur aldrei orðið að veruleika ef ekki hefði verið fyrir stuðning frá aðstandendum hugmyndasamkeppninnar Snjallræðis, Iðnlánasjóðs, Iðnþróunarsjóðs, iðnaðarráðuneytis og Iðntæknistofnunar Íslands. Ekki má gleyma því að hugmynd, hönnun og þróun afurðar er einskis virði ef ekki koma til fyrirtæki eins og Byko til að ná lokatakmarkinu, þ.e. selja vöruna og skapa ný störf í landinu.“

– Hvernig lýsir þú svo öryggisbúnaðinum?

„Það er nú kannski ekki auðvelt að lýsa búnaðinum svona á prenti en í meginatriðum felur hann í sér nýja gerð af niðurfalli fyrir potta. Tvö göt sitt hvoru meginn í niðurfallinu koma í veg fyrir að börn sogist að niðurfallinu og ekki ætti, miðað við prófanir, að vera hætta á að hár flæktist í því. Frárennslinu frá pottinum er stjórnað með loka sem komið er fyrir á frárennslislögninni en ekki með tappa og því er hægt að loka pottinum og hleypa svo úr honum. Við niðurfallið er fest súla með hringlaga plötu efst, sem í eru fimm göt, og er gert ráð fyrir að minnstu börnin geti fengið öryggisgrip í þessum götum. Ég stefni svo að því að í framtíðinni verði hægt að fá ýmsa fylgihluti fyrir pottana og þ. á m. verði hitaskynjari sem komið verður fyrir í fjölnota súlunni og gefur frá sér hljóð- og ljósmerki, jafnvel inni í húsi, þegar hitastig vatnsins nálgast hættumörk.

Nýi öryggisbúnaðurinn er með nýja tegund af loki. Súla sem er áföst við tjaldlokið er tengd við fjölnota súlu pottsins á auðveldan hátt og tjaldað yfir pottinn með léttu og sterku efni. Á eftir er tjaldlokið strengt yfir brúnir pottsins. Öfugt við margar eldri gerðir loka er auðvelt fyrir einn mann að loka pottinum, við höfum stundum sagt að lokin séu „ömmutæk“. Þau verður hægt að fá í mörgum litum fyrir allflestar gerðir potta.

Að lokum mæli ég svo með að pottarnir séu í minnst 50 sm hæð frá göngufletinum umhverfis til að komið sé í veg fyrir að börn, allt upp í 8 ára, falli í pottana þegar þau eru að leik.“

Fleira áhugavert: