Nokkur orð um vatn

Heimild:   tm

 

vatn

Vatn er ótrúlega mikilvægt efni. Það er forsenda og undirstaða alls lífs á jörðinni og án þess væri einfaldlega ekkert líf.

Meðal þess sem vatnið gerir í mannslíkamanum er að flytja næringu og úrgang réttar leiðir, smyrja liðamót og liðka vefi. Það segir sitt um mikilvægi vatnsins að maðurinn þolir við í aðeins örfáa daga án vatns en mun lengur án matar. Vatnsskortur hefur sem sagt mjög fljótlega slæm áhrif á alla starfsemi líkamans.

Þorsti og þurrkur í munni og öndunarfærum eru skýrustu merkin um að við þurfum að drekka vatn en önnur einkenni eru, eða geta verið, þreyta og slen, lítil þvaglát, þurr húð, svimi, höfuðverkur, hungurtilfinning, meltingartruflanir, lágur blóðþrýstingur, hraður hjartsláttur, hægðavandamál og sokkin augu.

Á degi hverjum tapar líkaminn tveimur til þremur lítrum af vatni með þvagi, svita og öðrum hætti. Nauðsynlegt er að bæta það upp og helst áður en nokkur einkenni um vatnsskort eða ofþornun koma fram. Ágætt viðmið er að drekka sex til átta vatnsglös á dag. Blávatnið er best, mikið sódavatn getur farið illa með tennurnar.

Aðeins um vatnsnotkun. Talið er að meðal Íslendingur noti á bilinu 150-200 lítra af vatni á dag. Til samanburðar má nefna að venjulegt baðkar tekur u.þ.b. 100 lítra. Skipting er sirka svona:

  • 10 lítrar drykkur og matur.
  • 20-30 lítrar þvottavél.
  • 30-40 lítrar klósett.
  • 30-40 lítrar uppvask.
  • 60-70 lítrar sturta/bað.

Svo minnum við á að vatn getur valdið miklu tjóni. Því er mikilvægt að skrúfa alltaf vel fyrir alla krana, yfirfara leiðslur og lagnir, hreinsa niðurföll og þakrennur og gæta að því að ekki leki með þaki, gluggum eða hurðum.

Fleira áhugavert: