Orkumálum Breta – Snúa þeir sér að vistvænni kjarnorku?

Heimild:   visir

 

Þorvarður Goði Valdimarsson

Þorvarður Goði Valdimarsson

Iðnbyltingin í Bretlandi hófst á ofanverðri 18. öld. Þróaðar voru gufuvélar, drifnar af kolum sem brennd voru til þess að hita vatn. Í kjölfarið breyttist heimurinn. Enn þann dag í dag framleiða Bretar orku með jarðefna- og kolaorkuverum sínum, en standa frammi fyrir miklum áskorunum í orkumálum. Áhyggjur af loftslagsbreytingum af mannavöldum og kröfur um verulega lækkun á losun koltvísýrings út í andrúmsloftið koma fram í hugarfarsbreytingu og miklum viðsnúningi á undanförum árum þar í landi í átt að vistvænni orkuframleiðslu.

Helsta áþreifanlega breytingin enn sem komið er birtist í örri tækniþróun í vind- og sólarorkuframleiðslu. Nú þegar hafa verið reistir heimsins stærstu vindorkugarðar undan ströndum Bretlandseyja. Samkvæmt Financial Times, 3. maí 2016 (‘Britain Energy Conversion’) hefur breska ríkið dælt um 10 milljörðum punda í styrki til uppbyggingar á þessari vistvænu orkuframleiðslu. Þannig uppfyllti orkuframleiðsla vindrafala og annarra vistvænna orkugjafa um 25% af orkuþörf Breta í fyrra. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem vistvænir orkugjafar framleiða meira en kolaorkugjafar í Bretlandi. Kúvendingin er í stíl við hina þýsku „Energiewende“, en þar eru um 33% af raforku framleidd með vistvænum orkugjöfum.

bretlandBretland er nú orðið þriðji stærsti markaðurinn í heimi fyrir stór sólarorkubú, á eftir Kína og Bandaríkjunum. Verkfræðingurinn og frumkvöðullinn Philip Wolfe, sem barðist fyrir niðurgreiðslum til þróunarvinnu endurnýjanlegra orkugjafa, segir að sem þjóð þá hafi Bretar tekið því fegins hendi, en stjórnmálaleiðtogar stjórnist enn um sinn af háværum minnihluta andstæðinga þeirrar þróunar.

James Court, formaður samtaka um stefnumótun á sviði endurnýjanlegrar orkuframleiðslu, Renew­able Energy Association, segir mikinn árangur hafa náðst. Nú séu um 800.000 heimili og fyrirtæki með sólarorkusellur, til viðbótar við þá gríðarstóru vind- og sólarorkugarða sem hafa byggst upp á síðustu árum.

Dregið úr stuðningi
En böggull fylgir skammrifi. Ör vöxtur á framleiðslu framangreindra orkugjafa hefur leitt til þess að breska ríkið er byrjað að draga úr stuðningi við þróunarvinnu á þessu sviði. Niður­greiðslur hafa verið útfærðar með álagi á orkureikninga almennings. Orku- og umhverfismálaráðherra Bretlands, Amber Rudd, rökstyður lækkun á niðurgreiðslum til vistvænnar orkuframleiðslu einmitt með því að vernda þurfi fjölskyldurnar í landinu fyrir háum orkureikningum.

Þessi breytta stefna breskra stjórnvalda hefur þegar leitt til þess að nokkrum vistvænum orkufyrirtækjum hefur verið skipuð fjárhaldsstjórn og óttast er að fleiri hljóti svipuð örlög. Orkumálaráðherra segir þó að stefnan sé enn að styðja við þróunarstarf framleiðenda endurnýjanlegra orkugjafa. Slíkur iðnaður verði hins vegar að geta staðið undir sér í samkeppninni á markaðnum, án niðurgreiðslna frá ríkinu og almenningi.

Og Bretar hugsa lengra. Þegar þeir upplýstu á Parísarráðstefnunni að þeir myndu hætta að greiða sérstaklega niður umhverfisvæna orkugjafa aðra en vindorku af hafi, kváðust þeir snúa sér þess í stað að vistvænni kjarnorku. Væntanlega verður áherslan í fyrstu á kjarnakljúfa sem geta brennt kjarnaeldsneytinu þóríum og eru margfalt öruggari og hagkvæmari en nútíma kjarnorkuver. Ennþá meira spennandi er síðan umhverfisvæn orkuframleiðsla með köldum samruna. Þar er hvorki um að ræða mengandi útblástur af nokkru tagi, né geislavirkan úrgang og kostnaðurinn er meira að segja lágur. Gangi þessi tækni upp, er um að ræða einhver merkustu tíðindi í orkumálum jarðarbúa frá upphafi.

Fleira áhugavert: