Gólfhitakerfi – Kjörhiti fyrir iljarnar

Heimild:  mbl

 

Maí 2003

Gólfhitakerfi 3

Ekkert hitakerfi er í jafnmikilli sókn og gólfhiti. Þetta á einkum við um hin þróaðri lönd Evrópu og þau lönd þar sem íbúarnir hafa þörf fyrir góðan, jafnan og öruggan hitagjafa, sem ekki aðeins heldur á þeim hita heldur veitir þeim þægindi og vellíðan

En auðvitað eru margar kenningar á lofti um hvernig gólfhitakerfi eiga að vera, úr hvaða efni eigi að leggja kerfin, hvernig stilli- og stýritæki eigi að nota.

Auðvitað eru ekki til nein óyggjandi svör um þetta efni, það er ekki til neinn stórisannleikur í þessu frekar en öðru.

En eigi að síður, bregðum aðeins á leik. Í fullri alvöru þó og bregðum upp nokkrum spurningum og svörum um gólfhita.

Eru gólfhitakerfi dýrari eða ódýrari í stofnkostnaði en önnur hitakerfi t.d. ofnakerfi?

Ekkert algilt svar, það fer eftir því hvað rör eða annan búnað þú velur.

Með skynsamlegu vali getur gólfhitakerfið verið ódýrara í stofnkostnaði.

Verður ekki að nota pexplaströr í gólfhita?

Pexrör eru góður kostur eins og álplaströr, en því miður eru þessar rörategundir nokkuð dýrar. Það eru til aðrar ódýrari tegundir, sem eru þó fyllilega jafngóðar, eins og til dæmis „PEM“ rör sem einnig eru stundum merkt „PE-RT“.

Verður ekki alltaf að nota varmaskipti við gólfhitakerfi?

Það ætti að vera regla að nota ekki varmaskipti nema það sé óhjákvæmilegt vegna efnainnihalds heita vatnsins. Varmaskiptir eykur stórlega kostnað og skapar oftast fleiri vandamál en hann leysir.

Eru gólfhitakerfi sparneytnari en önnur hitakerfi?

Tæplega er hægt að lofa því, það er svo margt annað sem ákvarðar hvað hitakerfið er dýrt í rekstri svo sem einangrun hússins og hitavenjur íbúanna.

Er ekki óþægilegt eða jafnvel óhollt að búa við gólfhita, verður manni ekki alltof heitt á fótunum?

Enginn líkamshluti er jafnnæmur á hita og fæturnir, eða eigum við að segja iljarnar. Þetta er hægt að sannreyna í heita pottinum. Ef þér finnst næstum óbærilega heitt þar er ráð að setja fæturna upp á bakkann. Viðbrögðin eru ótrúleg, þú skynjar hitann ekki eins sterkt og áður.

Þess vegna eru of heit gólf jafnslæm og of köld en áður fyrr var gólfkuldi nánast heilsuspillandi.

Rétt hannað, rétt lagt og rétt stýrt gólfhitakerfi tryggir að yfirborð gólfsins fari ekki upp fyrir 28°C og aldrei niður fyrir stofuhita.

Gólfhitakerfi 2

Iljarnar eru hitanemi líkamans.

Kjörhiti fyrir iljarnar

Á því gólfi mun þér líða vel, þetta er kjörhiti fyrir þínar iljar.

Þetta var einmitt raunasaga gólfhitans áður fyrr, gólfin voru of heit, en svo er ekki lengur.

Skiptir máli á hvaða dýpi rörin eru í steypunni?

Vissulega skiptir það máli og af því steypa er nefnd þá má nefna að það er algengast að leggja gólfhita í steypt gólf. Rörin mega alls ekki liggja of djúpt, þess vegna er vænleg sú að ferð að einangra undir steyptu plötuna, steypa hana síðan ekki í fullri þykkt, leggja síðan gólfhitarörin og steypa síðan annað steypulag sem jafnframt er pússað sem endanlegt gólf.

Hins vegar má skjóta því hér inn að það er hægt að leggja gólfhita í fleiri gerðir af gólfum en steypt, einnig í timburgólf, en þá þarf að taka sérstakt tillit til gólfefnisins við hönnun kerfisins og lögn.

Er hægt að hafa sérstaka stillingu á hitanum í hverju herbergi eins og við ofnakerfi?

Það er auðvelt og til þess eru fleiri en ein aðferð.

Í fyrsta lagi að hafa mótorloka á tengigrindinni í hitaklefanum á hverri slöngu og tengja hann við hitastilli í viðkomandi herbergi, til þess þarf að sjálfsögðu rafleiðslur í hvert herbergi frá tengigrind.

Í öðru lagi er hægt að setja upp sérstaka stöð og stýra mótorlokunum frá hitastillum þráðlaust.

Í þriðja lagi er hægt að taka lykkju úr slöngu upp í vegg í hverju herbergi og setja á þá lykkju venjulegan framrásarloka eins og notaðir eru á ofnum. Þá er komin sérstýring á hita í hverju herbergi og ekki þarf neina raftengingu.

En hvernig geta gólfin verið með hámarkshita 28°C þegar vatnið, sem inn í kerfið rennur, er yfir 70°C heitt?

Það er sett dæla á kerfið sem blandar heita vatnið „niður“ og tryggir þannig að gólfin verði ekki of heit. Heppilegast er að nota svonefndar „álagsstýrðar“ dælur sem eru þeirrar náttúru að þær dæla alltaf því vatnsmagni sem þörf er fyrir. Ef ekki er þörf fyrir hita nema í einu herbergi dælir hún mjög hægt en eykur hraðann ef þörf er fyrir hita í fleirum.

Á þá ekki að vera stöðugur hiti á gólfunum?

Nei, ekki nema þegar þörf er á hita, en þó með einni undantekningu. Það má vera stöðugur hiti á gólfinu í baðinu sumar, vetur, vor og haust. Þess vegna er ráð að láta góða gamla jálkinn, retúrlokann, stýra hita þar. Hann er samur við sig, tekur ekkert tillit til árstíða, sólar, veðra eða vinda.

Þannig má það vera í baðherberginu.

En því miður, ekki rúm fyrir fleiri spurningar að sinni, en koma fleiri spurningar upp í hugann?

Ef svo er þá tökum við bara undir það annan pistil.

Fleira áhugavert: