Vatnstjón á íslenskum heimilum 1,5 milljarður á tveimur árum

Heimild:  visir

Október 2012

Vatnstjon

Fimm tilkynningar um vatnstjón bárust tryggingafélaginu VÍS að jafnaði á degi hverjum í fyrra samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu. Bætur vegna slíkra tjóna námu 760 milljónum króna á síðasta ári og 800 milljónum króna árið þar á undan. Tjón vegna vatns á íslenskum heimilum nema því samanlagt um einum og hálfum milljarði síðustu tvö ár.

Húseigendatrygging tekur á því tjóni sem verður á húseigninni sjálfri en innbústrygging ef skemmdir verða á innanstokksmunum. Nokkur tilfelli koma upp á hverju ári hjá VÍS þar sem íbúar í fjölbýli telja ranglega að húsfélagið sé með sameiginlega húseigendatryggingu fyrir allt húsið. Þetta þarf hver og einn að kanna í sínum ranni. Og þeir sem flytja úr fjölbýli í einbýli þurfa að huga sérstaklega að því að taka þessa tryggingu.

Ástæður vatnstjóna geta verið mjög margar. Mannleg mistök eins og að gleyma að skrúfa fyrir krana eiga sinn þátt í óhöppunum en oftar gefa lagnir sig vegna ytri og/eða innri tæringar eða að samskeyti gefa sig vegna óvandaðra vinnubragða.

Rétt viðbrögð við leka geta skipt sköpum. Nauðsynlegt er að vita hvar á að skrúfa fyrir vatnsinntakið á lagnagrindinni svo hægt sé að stöðva lekann strax ef vatn streymir stöðugt út. Jafnframt þarf að þurrka eins hratt og auðið er. Leki getur líka ágerst hægt og rólega. Þá skiptir miklu að þekkja möguleg einkenni eins og lykt, breytingu á málningu, bæði lit hennar og áferð og taka eftir lausum flísum.

Gott viðhald og eftirlit er besta forvörnin. Hreinsa þarf niðurföll, ganga vel frá affalli þvottavéla, fylgjast með samskeytum lagna í þvottahúsi, við vatnstengda ísskápa, vaska, nuddbaðkör og sturtur. Huga jafnframt að þéttingum við vaska, böð og sturtur. Hafa þvottavélar ekki í gangi þegar enginn er heima eða á nóttunni, skrúfa fyrir vatn að þvottavélum þegar þær eru ekki notkun og lofta vel húsnæðið.

Fleira áhugavert: