Brunaslys af heitu vatni

Heimild:  mbl

Júní 2007

vatnsbruni bÞað virðist þurfa mikinn fórnarkostnað til að Íslendingar vakni af dvala og doða þegar kemur að öryggismálum á ýmsum sviðum. Á þessum vettvangi, í Lagnafréttum Morgunblaðsins, hafa birst margir pistlar þar sem varað hefur verið við hættunni af of heitu kranavatni og það eru mörg ár síðan fyrst var skrifað hér um þetta efni.

En árangurinn hefur látið á sér standa, almenningur hefur ekki vaknað af dvalanum. Það er þó ekki aðeins almenningur sem hefur ekki rumskað, víða er pottur brotinn hjá stofnunum eins og nú kemur fram í Hátúni 10B. Þá kemur fram sú árátta landans að fara í lögguleik og finna „hinn seka“, þetta hljóti að vera einhverjum að kenna. Það vita allir að stofnanir, sem þjónusta eldra fólk og öryrkja, hafa verið í fjársvelti árum og áratugum saman svo það bætir ekki skaðann að finna einhvern sem hægt sé að kenna um slysið.

En skoðum aðeins af hverju slysin verða, hvers vegna brennir fólk sig á of heitu kranavatni. Það getur verið hættulegt að setjast upp í bíl og keyra um þjóðvegina. Þó dettur engum í hug að hægt sé að stöðva alla bíla og hætta að ferðast. Það hefur verið lenska að kenna ófullkomnu vegakerfi um umferðarslys en það hefur enginn látið lífið vegna lélegra vega. Þó hafa orðið mörg banaslys í umferðinni og öll orsakast þau af því að einhver fer ekki eftir settum reglum. Banaslys í umferðinni og önnur slys á þjóðvegum landsins verða vegna mistaka einstaklinga, annaðhvort vegna glæfraaksturs eða að bílarnir eru ekki í lagi, ýmsu í öryggisbúnaði hefur ekki verið haldið við og lagfært.
Hættan af heita vatninu er af svipuðum toga. Það vita allir að úr heita krananum getur komið 70-80°C heitt vatn en þá verða tækin, sem vatnið rennur um, að vera í lagi svo að ekki verði slys.

vatnsbruni cSlysið í Hátúni10B er áminning til allra, hvort sem þeir búa í sambýlum eða í heimahúsum. Eins og lélegir bílar eru hættulegastir í umferðinni eru það gömul handstýrð blöndunartæki sem eru hættulegasti orsakavaldur bruna af heitu vatni. Þessi tæki eru eins og tifandi tímasprengja. Þau eru slitin og úr sér gengin, ekki hefur verið litið á þau til viðhalds mörg hver svo árum eða áratugum skiptir.

Hver ber ábyrgðina á að svo er, hver á að sjá um að þessum mikilvægu tækjum sé haldið við eða þau endurnýjuð?
Svarið er einfalt, ábyrgðina ber húseigandinn, enginn annar en hann. Það er enginn „stóri bróðir“ sem kemur á gluggann og bendir ábyrgðarfullur og kallar dimmri röddu „gættu þín, ég fylgist með þér“ sem betur fer má segja, það á hver og einn að bera ábyrgð á sjálfum sér, húsi sínu og búnaði.

En hvað getur húseigandinn gert, getur hann gert eitthvað strax í dag til að fyrirbyggja brunaslys af heitu vatni?
Já, hann getur gripið til aðgerða strax í dag með því að fá sér hitastýrð blöndunartæki og setja þau upp við baðkerið og sturtuna og hent gömlu slitnu handstýrðu blöndunartækjunum, þetta er fyrsta skrefið. En það þarf líka að setja upp búnað til að lækka hitastigið í öllu heita neysluvatnskerfinu, ná hitanum niður í 60°C sem er að öllu leyti óhætt. En þó það sé gert er ekki verið að kasta peningum á glæ þó fjárfest sé í hitastýrðum blöndunartækjum strax í dag, þau eru einnig nauðsyn. Slík tæki eru nú fáanleg ekki aðeins fyrir baðker og sturtur heldur einnig fyrir önnur hreinlætistæki svo sem vaska og handlaugar.

vatnsbruni aNiðurstaðan er því þessi; fyrsta skrefið að fá sér sjálfvirk, hitastýrð blöndunartæki fyrir baðið og sturtuna; annað skref að fá sér hitastýrð blöndunartæki fyrir önnur hreinlætistæki þar sem þarf að nota heitt vatn; þriðja skrefið að fá sér búnað til að lækka hitastigið á kranavatninu við inntak.

En nú ein aðvörun. Gömul slitin blöndunartæki eru að sjálfsögðu í gömlum húsum. Þar þarf að fara varlega við val á búnaði til að ná niður hitanum á vatninu við inntak. Þar er lítill vandi að misstíga sig vegna þess að rangur búnaður getur skemmt lagnirnar fyrir heita kranavatnið.

Tökum Hátún 10B sem dæmi, hvaða búnað ætti að velja þar?

Þar má alls ekki velja þá leið að fá búnað sem hitar upp kalt vatn með varmaskiptum eða þeim tengigrindum sem ákveðnar lagnaverslanir reyna að selja hverjum sem er sem allsherjarlausn.

Lausnin í Hátúni 10B gæti verið sú að setja hitastýrð sjálfvirk blöndunartæki við hvert baðker og hverja sturtu í þeim íbúðum þar sem slíkan búnað vantar. Í öðru lagi að lækka hita kranavatnsins við inntak. Þar gæti verið góð leið að kæla heita vatnið með varmaskipti og köldu vatni. Vissulega tapast nokkur orka við það, en það mun ekki hafa skaðleg áhrif á lagnir. Í þetta gömlu húsi er næsta öruggt að neysluvatnslagnir eru úr galvaniseruðum stálrörum sem þola ekki upphitað kalt vatn.    

Fleira áhugavert: