Hellisheiðarvirkjun – Mengun brennisteinsvetnis mest í hægri austanátt og köldu lofti

Fréttatíminn

Mars 2015

HellisheidarvirkjunStyrkur brennisteinsvetnis frá jarðvarmavirkjuninni á Hellisheiði er hæstur í Reykjavík í austlægri átt, hægum vindi og köldu og stöðugu lofti. Ekki er vitað hvaða áhrif brennisteinsvetni hefur á heilsu fólks en Snjólaug Ólafsdóttir umhverfisverkfræðingur bendir á að gott væri að láta fólk vita í veðurfréttunum þegar búist er við háum styrk. 

Niðurstöður mínar sýna að styrkur brennisteinsvetnis á höfðurborgarsvæðinu er hæstur í austlægri átt, hægum vindi og köldu og stöðugu lofti. Styrkur getur farið yfir heilsuverndarmörk en í tíðarfarinu sem hefur verið í vetur er það ólíklegt,“ segir Snjólaug Ólafsdóttir, doktor í umhverfisverkfræði, en hún rannsakaði styrk og dreifingu brennisteinsvetnis í lofti allt að 35 km frá jarðvarmavirkjununum á Hengilsvæðinu í doktorsrannsókn sinni við Háskóla Íslands.

Meðaltal mengunar sjaldan yfir mörkum

Innan við 30 km frá Reykjavík eru tvær jarðvarmavirkjanir, Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun. Orkuframleiðsla á þessu svæði hefur aukist á síðastliðnum árum og hafa kvartanir vegna lyktaróþæginda aukist síðan Hellisheiðarvirkjun tók til starfa árið 2006. Árið 2010 setti umhverfisráðuneytið reglugerð um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti og heilsuverndarmörk voru sett fyrir 24-stunda hlaupandi meðaltal, 50 míkrógrömm á rúmetra. „Þegar jarðhitasvæði eru virkjuð eykst yfirleitt losun brennisteinsvetnis. Gasið sem þaðan kemur er eitrað í miklum styrk og lyktin getur valdið viðkvæmum óþægindum við lágan styrk. Mörkin eru sett fyrir 24 stunda meðaltal þannig að þó við fáum toppa í einn til tvo tíma, eins og gerist stundum, þá fer meðaltalið sjaldnar yfir mörkin.“ segir Snjólaug

Mengunin liggur í lægðum í logni

Snjólaug rannsakaði einnig dreifingu brennisteinsins í 35 km radíus frá upptökum. „Þar komu í ljós nýjar niðurstöður sem eru áhugaverðar. Við sáum að þegar andrúmsloftið er stöðugt þá getur gasið legið í lægðum, meðfram fjallshlíðum og ofan í dölum. Einnig sýndu niðurstöður að brennisteinsvetni leysist ekki auðveldlega upp í úrkomu sem þýðir að þegar rignir er ekki víst að styrkur þess minnki. Þetta er öfugt við brennisteinsdíoxíð sem kom frá Holuhrauni, sem leystist upp í úrkomu. Styrkur brennisteinsdíoxíðs frá Holuhrauni var þó margfalt meiri en það brennisteinsvetni sem við fáum frá jarðvarmavirkjunum.“
Snjólaug segir að veðurspár gætu nýst til að segja fyrir um hvort styrkur brennisteinsvetnis fari yfir heilsuverndarmörk á höfuðborgarsvæðinu. „Það væri þó óþarfi setja upplýsingar fram á hverjum degi en það væri gott að láta fólk vita ef búist væri við að styrkur yrði hár.“

Ekkert vitað um áhrif á heilsu

Ekki er vitað hvaða áhrif brennisteinsvetni hefur á heilsuna. „Í mjög miklum styrk er þetta eitrað gas en það er margfalt meira magn en það sem við erum að sjá í nágrenni virkjananna. Rannsóknir á langtímaáhrifum lágs styrks til lengri tíma hafa ekki enn sýnt afgerandi niðurstöður.“
Niðurdæling brennisteinsvetnis er þegar hafin hjá Orkuveitu Reykjavíkur og verið er að dæla niður um fjórðungi þess brennisteinsvetnis sem upp kemur við Hellisheiðarvirkjun. Auk þess verður settur upp háfur til að draga úr styrk við jörðu við þær veðurfarsaðstæður sem niðurstöður verkefnisins sýna að gefa hvað hæstan styrk.

Fleira áhugavert: