Gotthard göngin – Lengstu lestargöng í heimi opnuð

visir

gothamgongin

VÍSIR/GETTY

Gotthard-göngin í Sviss hafa verið í smíðum í 17 ár en verða opnuð við hátíðlega athöfn á morgun. Göngin verða lengstu lestargöng í heiminum.

Þjóðarleiðtogar Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Sviss munu fara jómfrúarferðina á morgun en blásið verður til mikillar veislu er göngin verða vígð, alls munu um 1200 gestir víðsvegar frá verða viðstaddir vígsluathöfnina.

Göngin eru um 57 kílómetrar að lengd og liggja 2,3 kílómetrum undir svissnesku Ölpunum. Göngin munu stytta ferðatímann á milli Zurich og Lugano um 45 mínútur. Göngin hafa verið í bígerð frá því á níunda áratug síðustu aldar og munu koma í stað eldri lestarganga sem gerð voru árið 1882 og liggja mun ofar í Ölpunum.

Hér má sjá hvernig göngin liggja. Smella má á myndina til að sjá stærri útgáfu.

Hér má sjá hvernig göngin liggja. Smella má á myndina til að sjá stærri útgáfu. MYND/THE GUARDIAN

 

Alls voru fjórir risaborar notaðir til þess að bora göngin, þar á meðal risaborinn TBM-1, en hann var einn þriggja risabora sem boruðu aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar, milli Hálslóns og Fljótsdals.

Gotthard-göngin eru þrem kílómetrum lengri en lengstu lestargöng heimsins í dag, Sekan-göngin sem tengja saman japönsku eyjarnar Honshu og Hokkaido. Gotthard-göngin eru einnig sjö kílómetrum lengri en Ermasundsgöngin á milli Frakklands og Bretlands.

Óvíst er þó hvort að Gotthard-göngin muni halda nafnbótinni lengstu lestargöng heimsins lengi því yfirvöld í Kína stefna á að bora 123 kílómetra löng jarðgöng á milli borganna Dalian og Yantai. Fyrst um sinn verða Gotthard-göngin þá ekki í fullri notkun en búist er við að svo verði snemma á næsta ári.

Heimild: Vísir

Fleira áhugavert: