Átökin um orkuauðlindir Íslands

Orkubloggið

Mars 2016

ketill sigurjónson 1

Ketill Sigurjónson

Undanfarið hafa staðið yfir viðræður milli Norðuráls (Century Aluminum) og Landsvirkjunar um mögulegan raforkusamning. Því núverandi samningur fyrirtækjanna, sem er vegna álversins á Grundartanga, rennur út árið 2019. Kannski eru fyrirtækin að ná saman – kannski ekki. Það vitum við ekki.

En dettur einhverjum í hug að talsmenn álveranna hér kynni raunveruleikann þegar þeir tjá sig um atriði sem snúa að raforkuverði eða öðrum samningum álveranna? Tilefni þessarar spurningar er sú óvenjulega og jafnvel fordæmalausa staða sem kom upp seint á nýliðnu ári í samskiptum erlendu stóriðjunnar hér við orkufyrirtækin.

Hordur-Arnarson-CEO-LandsvirkjunSú óvenjulega staða varð almenningi ljós þegar forstjóri Landsvirkjunar boðaði til fréttamannafundar í desember sem leið. Þar sem það kom m.a. fram að Norðurál hafi dregið kjaradeiluna í Straumsvík inn í viðræður um raforkusamning milli Norðuráls og Landsvirkjunar. Þetta áleit forstjóri Landsvirkjunar óheppilegt og gagnrýnivert. Og var greinilega afar ósáttur við þessi vinnubrögð Norðuráls. Orðrétt var haft eftir forstjóra Landsvirkjunar:

Það er ljóst að í umræðunum undanfarnar vikur hafa stjórnendur Norðuráls reynt að bæta sína samningstöðu með því að tengja þessar einföldu kjaraviðræður í Straumsvík inn í sínar viðræður. Ég tel að það sé mjög óheppilegt og rangt.

Forstjóri Norðuráls vildi aftur á móti ekkert kannast við slík vinnubrögð. Og í orðum hans fólst í reynd ásökun um að forstjóri Landsvirkjunar færi hreinlega með rugl ef ekki lygar:

Ragnar-Gudmundsson-CEO-NorduralNorðurál vísar á bug ásökunum forstjóra Landsvirkjunar í garð stjórnenda félagsins í allmörgum fjölmiðlum í gær.  Af máli hans má draga þá ályktun að nær öll gagnrýni sem beinist að Landsvirkjun í opinberri umræðu, í málum af ýmsum toga, sé á ábyrgð Norðuráls.  Jafnframt er því haldið fram að Norðurál stýri ákveðnum verkalýðsfélögum. Eins og allir sjá þá eru þessar fullyrðingar út í hött.

Með hliðsjón af þessum viðbrögðum Norðuráls er fróðlegt að skoða málflutning eins framkvæmdastjóra fyrirtækisins frá liðnu ári. Þar sem rangt var farið með staðreyndir og að auki reynt að nota rangar upplýsingar til að slá ryki í augu almennings. Í hnotskurn virðist sá málflutningur eða áróður hafa eitt meginmarkmið: Að sporna gegn því að stóriðjufyrirtækin hér – og þá einkum Norðurál – fái samkeppni um orkuna.

Áður en nánar verður vikið að umræddum rangfærslum og áróðri Norðuráls, er vert að minna á að nú eru miklar og merkilegar breytingar að eiga sér stað á alþjóðavettvangi – sem haft geta mjög jákvæð áhrif fyrir þjóð sem ræður yfir mikilli endurnýjanlegri orku. Við þetta bætist svo að hér á landi stöndum við nú frammi fyrir óvenjulegum tækifærum. Því á þessu ári mun mögulega ráðast hvort – og þá á hvaða kjörum – verður endursamið af hálfu Landsvirkjunar við bæði Elkem (í eigu China Bluestar) og Norðurál (Century Aluminum, sem er að stærstu leyti í eigu hrávörurisans Glencore). Og á þessu ári gæti líka skýrst hvort sæstrengur milli Íslands og Bretlands er raunhæf og ábatasöm framkvæmd. Það er auðvitað mjög jákvætt að íslensk stjórnvöld séu farin að skoða þennan möguleika af alvöru. En slíkur strengur er bersýnilega allt annað en vinsæll hjá álfyrirtækjunum hér.

 

Áhyggjur stóriðjunnar af réttlátari skiptingu auðlindaarðsins

Það er kannski eðlilegt að erlenda stóriðjan á Íslandi sé ekki ánægð með þá þróun að unnt verði að fá hátt verð fyrir íslenska raforku. Því það myndi þýða að töluvert aukin samkeppni hafi myndast um raforkuna sem hér er framleidd. Sem gæfi Íslendingum tækifæri á því að fá meira af auðlindaarðinum sem raforkuvinnslan skapar i sinn hlut – í stað þess að hann renni áfram að mestu leyti til stóriðjunnar.

Alcoa-Fjardaal-_Reydarfjordur-IcelandStóriðjufyrirtækin sjálf hafa að mestu leyti reynt að gæta sín á því að koma ekki grímulaust fram með áróður gegn aukinni arðsemi í raforkuvinnslunni eða gegn sæstrengsmöguleikanum. Forstjóri Alcoa á Reyðarfirði (Fjarðaáls) gat þó ekki setið á sér að gefa í skyn að Ísland muni ekki eiga raforku aflögu til að selja um sæstreng.

Þetta var einkennileg röksemd hjá áversforstjóranum. Því það vill svo til að Ísland er langstærsti raforkuframleiðandi heims per capita. Ef eitthvert land í heimi hér er aflögufært um raforku til að selja hana beint sem útflutningsvöru, þá er það Ísland. Og ekki þarf annað en að líta til gildandi Rammaáætlunar til að sjá að umrædd ummæli forstjóra Fjarðaáls eru algert þvaður. Það er einfaldlega miklu meira en næg orka hér fyrir sæstreng. Hvort sem sú orka myndi koma frá núverandi virkjunum eða nýjum virkjunum. Þar að auki kunna að vera tækifæri til að úrflutningur af þessu tagi gefi kost á að selja hluta af íslenskri raforku sem dýra eðalvöru – en fram til þessa hefur hún fyrst og fremst verið seld sem ódýr hrávara til stóriðju.

 

Ómerkilegt vindhögg Norðuráls

En víkjum aftur að Norðuráli. Meðan almennir starfsmenn fyrirtækisins unnu ötullega að álframleiðslu í verksmiðjunni á Grundartanga á liðnu ári, horfðu menn í framkvæmdastjórn Norðuráls á nef sitt lengjast á kyrrlátum skrifstofum fyrirtækisins.

Raflina-Vestfirdir-isingÞar náði framkvæmdastjórinn Ágúst Hafberg alveg sérlega góðum árangri í sumarbyrjun liðins árs. Þegar hann kynnti landsmönnum rangar upplýsingar um raforkuverð til álvera á Íslandi. Og afneitaði því snyrtilega að orkusamningur fyrirtækisins við Landsvirkjun væri að renna út – og gaf í skyn að þar væri fyrir hendi einhliða framlengingarheimild af hálfu Norðuráls. En var svo seinheppinn að skömmu áður hafði forstjóri móðurfélags Norðuráls lýst því yfir á opinberum fundi – án nokkurs fyrirvara – að samningurinn renni út 2019. Orðrétt var haft eftir Michael Bless, forstjóra Century: „At Grundartangi, the contract with the national power company expires in 2019„.

Þetta verður vart skýrara. Það var því alveg dásamlega broslegt þegar Ágúst Hafberg skrifaði sléttum mánuði síðar:. „Ketill segir að orka sé að losna frá Norðuráli árið 2019. Það er ekki rétt. Þessi orka er samningsbundin með sérstöku framlengingarákvæði  í samningunum„.

Í reynd er þarna engin einhliða framlengingarheimild. Enda var málflutningur framkvæmdastjórans þvert á orð forstjóra Century. Og er bara dæmi um hvernig stjórnendur Norðuráls reyna að beita blekkingum til að villa um fyrir íslensku þjóðinni. En áróður þeirra er þó fjarskalega klaufalegur.

 

CRU flækist í áróðursvef Norðuráls

Þessi sami framkvæmdastjóri hjá Norðuráli beit svo höfuðið af skömminni með því að birta um svipað leyti upplýsingar úr trúnaðargögnum sem Norðurál kaupir af breska ráðgjafarfyrirtækinu CRU. Með því bæði að senda slíkar upplýsingar í tölvupósti og birta þær á hinum skemmtilega samfélagsmiðli Facebook. Sbr.skjáskotið hér að neðan.

Nordural-AH-confidential-information-from-cru-leakÞrátt fyrir þetta trúnaðarbrot framkvæmdastjórans og fyrrnefndar rangfærslur hans, steig hvorki hann né forstjóri Norðuráls fram til að leiðrétta ruglið og enn síður til að biðjast afsökunar á framkomunni. Og þrátt fyrir augljóst trúnaðarbrot gegn CRU situr þessi umræddi framkvæmdastjóri að sjálfsögðu áfram í skjóli forstjóra Norðuráls. Þetta sýnir vel að ruslgrein Ágústs s.l. sumar, sem ég hef áður fjallað um, og leki hans á trúnaðarupplýsingum frá CRU hlýtur allt að vera með blessun forstjórans.

Kannski hefur Ágúst fengið klapp á kollinn fyrir tilþrifin og hina rösku viðleitni sína til að villa um fyrir íslenskum almenningi. En það var allt annað en ánægja sem þetta útspil Norðuráls skapaði á skrifstofum CRU. Þar var fólki ekki skemmt yfir trúnaðarbrotinu. Um leið sat CRU uppi með það að hafa augljóslega ofmetið raforkuverð til álvera á Íslandi um u.þ.b. 20%. Sem var svolítið erfiður biti að kyngja fyrir CRU. Að eigin sögn leiðréttu þeir meðalverðið vegna Íslands hið snarasta og vonandi að skýrslur þeirri endurspegli nú betur hið rétta orkuverð til álveranna hér.

 

Samál vitnar í trúnaðarskýrslu sem samtökin hafa í reynd ekki séð

Tilgangur hinna klaufalegu skrifa Águsts Hafbergs var bersýnilega að reyna að gera lítið úr grein sem hafði birst 26. maí s.l. (2015) undir yfirskriftinni Tímamót í efnahagssögu Íslands. Þar var í fyrsta sinn á opinberum vettvangi fjallað sérstaklega um það að hér á Íslandi eru mjög stórir og lágt verðlagðir orkusamningar brátt að renna út (2019). Og geysilega mikilvægt að nýta þetta tækifæri til að auka arðsemi af nýtingu íslensku orkuauðlindanna.

Samal-Petur-Blondal-trunadartolur-CRU_juni-2015Skrif mín um þessi tímamót í efnahagssögu Íslands fóru greinilega eitthvað illa í Norðurál. Af einhverjum ástæðum sá svo framkvæmdastjóri Samáls, Pétur Blöndal, ástæðu til aðblanda sér í umræðuna um raforkuverðið. Og endurtaka og ítreka bullið úr skýrslu CRU. Sem hann reyndar mátti ekki gera og átti heldur ekki að geta gert. Því að sögn CRU er Samál ekki viðskiptavinur CRU og gat því ekki haft upplýsingar úr umræddum gögnum CRU. Það er nefnilega svo að um þessi gögn CRU ríkir alger trúnaður milli CRU og viðskiptavina fyrirtækisins.

Samal-Petur-Blondal-vitnar-i-skyrslu-CRULesendur verða sjálfir að reyna að meta eða álykta hvaðan Pétur Blöndal fékk umræddar trúnaðarupplýsingar frá CRU – sem Ágúst Hafberg var þá þegar búinn að birta á Fésbókarsíðu sinni (sic) og dreifa í tölvupósti. Það var svo líka alveg makalaust að þeir félagarnir Ágúst og Pétur kynntu niðurstöður CRU sem svo gott sem heilagan sannleika – þó svo það væri augljóst að niðurstöður CRU vegna Íslands voru rangar. CRU hafði augljóslega dregið rangar ályktanir og stórlega ofmetið meðalverð á raforku til álvera á Íslandi. Þetta ofmat viðurkenndi CRU fyrir þeim sem þetta skrifar, eftir að hafa verið í samband við mig og skoðað málið.

 

Kurteisi og virðing Norðuráls – eða algjört kjaftæði?

Nýjasta útspilið hjá Norðuráli er svo það að fyrirtækið hafi í hvívetna sýnt „kurteisi og virðingu“ í samningaviðræðum sínum við Landsvirkjun. Sá málflutningur forstjóra Norðuráls er svona ámóta trúverðugur eins og málflutningur forstjóra móðurfélagsins; Michael Bless hjá Century Aluminum (sem er að stærstu leyti í eigu hrávörurisans Glencore).

Bless virðist ekki geta tyllt niður fæti á Íslandi án þess að fullyrða að allt líti vel út í Helguvík og framkvæmdir séu um það bil að fara þar á fullt. Þó svo Bless viti fullvel að orka er ekki til taks fyrir álver í Helguvík. Þar að auki virðist augljóst að Century er ekki tilbúið til að bjóða eðlilegt verð fyrir raforku vegna Helguvíkur. Og dapurlegt hvernig fyrirtækið hefur síðustu árin haldið HS Orku svo til í gíslingu vegna samninga frá 2007 – vegna orku sem nota átti í Helguvík en þar hefur ekkert álver risið nú næstum áratug síðar.

 

Norðurál leitar viðskipta við Orkubloggarann

Einhverjum lesendum kann líka að þykja það áhugavert að framangreindar rangfærslur Norðuráls gagnvart málflutningi þess sem þetta skrifar, eiga sér vissa forsögu.

Nordural-mai-2013Eins og lesendum Orkubloggsins ætti að vera kunnugt, hefur hér á Orkublogginu ítrekað verið bent á það hversu fádæma lágs raforkuverðs álverin hér hafa notið. Það var svo í kjölfar skrifa minna á viðskiptavef mbl.is um athyglisverða möguleika vegna sæstrengs, sem framkvæmdastjóri Norðuráls hafði samband við mig. Allt í einu vildi álfyrirtækið fá mig til að útvega því upplýsingar. M.ö.o. að vinna fyrir sig verkefni.

Lesendur geta sjálfir velt fyrir sér hvað þar lá að baki. Þau kaup voru reyndar ekki í boði af minni hálfu. Og það næsta sem heyrðist á opinberum vettvangi frá umræddum framkvæmdastjóra hjá Norðuráli, var að ekkert væri að marka skrif mín því þau væru bara bull. Þannig eru vinnubrögð Norðuráls; ef ekki er unnt að kaupa sérfræðinginn (til starfa) þá má reyna að útmála hann sem bullukoll. En það var auðvitað framkvæmdastjóri Norðuráls sem þarna var hinn raunverulegi bullukolur.

 

Auðlindir stóriðjunnar eða þjóðarinnar?

Þetta kann allt að virðast ósköp sakleysislegt – svona dæmigerður íslenskur skoðanaágreiningur. En í reynd er þarna á ferðinni massífur áróður stórfyrirtækja. Stórfyrirtækja með tugmilljarða veltu. Fyrir einstakling verður það óhjákvæmilega afar ójafn leikur. Og þetta snýst vel að merkja um afar mikilvægt grundvallaratriði; hver á að njóta arðsins af íslensku orkuauðlindunum; stóriðjan eða þjóðin? Þetta skiptir gífurlegu máli. Eða eins og Kjarninn orðaði það ágætlega í ritstjórnargrein:

Glencore-CEO-Ivan-GlasenbergÞað átta sig kannski ekki allir á því en um þessar mundir stendur yfir gríðarlega hörð barátta um afnot að sjálfbærum orkuauðlindum íslensku þjóðarinnar. Sú barátta er tilkomin vegna þess að raforkusamningur sem Norðurál, sem á og rekur álver á Grundartanga, gerði við Landsvirkjun seint á tíunda áratug síðustu aldar rennur út árið 2019 og verið er að reyna að endursemja um hann. Gildandi samningur þykir í flestum samanburði slakur fyrir Landsvirkjun, og þar af leiðandi íslensku þjóðina sem á fyrirtækið.

 

„Þeir ætla sér að eyðileggja þig“

Það var athyglisvert að um mitt ár 2014 hafði samband við mig þaulreyndur framkvæmdastjóri hjá einu af stærstu íslensku fjármálafyrirtækjunum. Og sagði mér að forstjóri Norðuráls væri að hringja í stjórnendur fyrirtækisins og kvarta yfir samstarfi þeirra við mig. Þetta þótti mér auðvitað merkilegt, enda nokkuð undarlegt að fyrirtæki úti í bæ sé að skipta sér af einstaklingum með þessum hætti.

Það var svo í júní á liðnu ári, 2015, að einn af bankastjórunum í íslenska bankakerfinu hafði samband við mig. Og varaði mig við því að Norðurál væri að undirbúa herferð gegn mínum málflutningi. Og væri að reyna að ráða almannatengla til verksins. Og viðkomandi bætti við þessum skemmtilegu orðum: „Þeir ætla sér að eyðileggja þig“.

Þetta þótti mér líka fróðlegt að heyra. Því með þessu fékk ég í reynd staðfest að ég var að birta upplýsingar sem stóriðjan vill ekki að almenningur viti af. Hér er líka vert að minna á blekkingaleikinn sem átti sér stað árið 2009 og sýnir vel hversu sterkur áróður stóriðjunnar er. En nú var sem sagt orðið augljóst að ég var orðinn upplýsingabrunnur sem stóriðjan vildi kæfa.

 

Orkubloggið dregur sig í hlé

Það fór reyndar svo að miðað við ruglukollana sem spruttu nú fram með áróðursskrif fyrir stóriðju og gegn sæstreng, virðist sem Norðuráli hafi gengið eitthvað illa að fá fagfólk til þess verks. Það er a.m.k. svo að ruglukollaskrifin sem þarna spruttu fram eru svo yfirfull af röngum upplýsingum og sleikjuskap við Norðurál og önnur álfyrirtæki, að það er stundum vandséð hvort þau eigi að flokka sem hlægilega vitleysu eða áróður. Ég vænti þess að lesendur geti sjálfir ályktað hvaða ruglukollaskrif ég er þarna að vísa til.

Það er engu að síður svo að ég hef orðið sífellt meira var við það að bæði í orkugeiranum hér, fjármálageiranum og víðar þrífst víða mikil undirgefni gagnvart Norðuráli og öðrum stóriðjufyrirtækjum sem hér starfa. Enda eru þessi útlendu stóriðjufyrirtæki með mikla veltu og kaupa hér margvíslega þjónustu. Og það eitt og sér skapar þeim völd. Hvað viðvíkur mér, þá er þarna um að ræða þvílíka yfirburðarstöðu að einstaklingur getur ekki til lengdar verið í því hlutverki að upplýsa um hið sanna um viðskiptaumhverfi og starfsaðferðir þessara fyrirtækja.

Þess vegna er nú svo komið að ég ætla að draga mig í hlé frá slíkri umfjöllun. Þar með yrðu skrif hér á Orkublogginu, eðli málsins samkvæmt, mun efnisrýrari og ekki eins upplýsandi og verið hefur. Þess vegna er eðlilegt að Orkubloggið verði lagt til hvílu.

 

Horft til nýrra tækifæra – utan Íslands

Þess í stað hyggst ég nú alfarið einbeita mér að alþjóðlegri ráðgjöf á sviði orkumála í löndunum umhverfis okkur. Þar eru margvísleg spennandi tækifæri t.d. í Kanada og Skandinavíulöndunum. Um leið verður sú breyting aðupplýsingaveita sem ég hef starfrækt á ensku, mun hætta að kynna íslensk orkumál sérstaklega. Og þess í stað þróast yfir í að verða upplýsingaveita um orkumál landanna við N-Atlantshaf og á Norðurslóðum, með sérstakri áherslu á Kanada og Noreg.

Ég vil þakka lesendum Orkubloggsins samfylgdina (s.l. átta ár!). Og minni landsmenn á að orkuauðlindir Íslands eru fyrst og fremst auðlindir þjóðarinnar en ekki stóriðjunnar. Vonandi bera stjórnmálamenn og orkufyrirtækin hér gæfu til að tryggja það, að arðurinn af auðlindanýtingunni renni í auknum mæli til eiganda auðlindarinnar, þ.e. þjóðarinnar. Fremur en að hann renni að mestu til erlendu stóriðjunnar, líkt og verið hefur undanfarna áratugi.

 

Heimild: Orkubloggið

Fleira áhugavert: