Mývatn – Niðurstöðurnar túlkaðar á afar mismunandi vegu

mbl

Janúar 2000

myvatn a

Afar skiptar skoðanir eru um nýja skýrslu þriggja erlendra sérfræðinga um áhrif kísilgúrvinnslu í Mývatni sem greint var frá í Morgunblaðinu á föstudag. Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar, segir skýrsluna staðfesta það sem fyrirtækið og flestir Mývetningar hafi ávallt sagt, að einhverjar sveiflur í lífríki Mývatns séu ekki Kísiliðjunni að kenna, og að ekkert sé því til fyrirstöðu að hafin verði námavinnsla í Syðriflóa. Gísli Már Gíslason, prófessor í vatnalíffræði og stjórnarformaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, segir hins vegar að því fari fjarri að þessa skýrslu megi túlka sem grænt ljós fyrir frekara kísilgúrnámi í Mývatni.

„Þessi skýrsla er gríðarlega mikilvæg fyrir þetta fyrirtæki, og fyrir allt fólkið hérna við Mývatn,“ sagði Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar, en skýrsluna unnu tveir Norðmenn og einn Svíi sem sérhæfðir eru í vatnalíffræði. Jafnframt var hollenskur sérfræðingur í setlagaflutningum álitsgjafi við vinnslu hennar.

„Hún segir einfaldlega það, sem flestir Mývetningar og Kísiliðjan hafa haldið fram í mörg ár, að sökudólginn fyrir einhverjum sveiflum í lífríki Mývatns er ekki að finna hjá fyrirtækinu, heldur einhvers staðar allt annars staðar. Í öðru lagi að það sé því ekkert til fyrirstöðu að fara yfir í Syðriflóa og halda áfram þar vinnslu.“

Segir Gunnar Örn að þessar tvær meginniðurstöður séu afdráttarlausar og jafnframt að fái Kísiliðjan leyfi til að fara yfir í Syðriflóa þá sé búið að stíga fyrsta skrefið til að tryggja rekstrargrundvöll hennar.

Segir Kísiliðjuna hafa áhrif

Gísli Már Gíslason prófessor túlkar skýrsluna hins vegar með allt öðrum hætti og segir sérfræðingana þrjá hafa komist að mjög svipaðri niðurstöðu og forsvarsmenn Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn hefðu alla tíð haldið á lofti.

„Sveiflurnar hafa aldrei skipt neinu máli varðandi Kísiliðjuna,“ segir Gísli Már. „Ekki öðruvísi en þannig að þær gera okkur erfiðara fyrir að sjá hvaða áhrif Kísiliðjan hefur á vatnið.“

Gísli Már bendir í þessu sambandi á að erlendu sérfræðingarnir komist þannig að orði að þeir geti ekki tengt sveiflur í lífríki vatnsins á afgerandi hátt við Kísiliðjuna. Hitt komi hins vegar fram að vissulega hafi Kísiliðjan áhrif á lífríki vatnsins.

Þetta hafi eldri rannsóknir auk þess sýnt fram á, t.d. sérfræðinganefndarskýrsla sem lögð var fram 1991 og skýrsla verkefnishóps 1993. Jafnframt hafi þetta verið gert í mati á umhverfisáhrifum sem var lagt fram í september vegna umsóknar Kísiliðjunnar um nýtt námaleyfi, stækkun námasvæðisins í Ytriflóa og til vinnslu á nýju svæði í Syðriflóa.

Loks bendir Gísli Már á að sérfræðingarnir leggi til frekari rannsóknir, verði ákveðið að fara út í frekara kísilgúrnám, rannsóknir sem erfitt sé að sjá annað en myndu kosta a.m.k. 15-20 milljónir á ári.

myvatn eHeimamenn þrýstu á um frekari vinnslu í Ytriflóa

Gunnar Örn neitar því að skýrslan frá 1991 sé slæm fyrir Kísiliðjuna. „Hins vegar var gerð framhaldsrannsókn og aðallega þá varðandi setflutninga, og sú skýrsla kom út 1993. Sú skýrsla hefur verið notuð ákaflega mikið á móti þessu fyrirtæki, algerlega að ósekju, því hún hefur ekki þá burði til þess að vera notuð sem slík.“

Segir Gunnar Örn þá skýrslu í raun merkilega enda sýni hún betur en margt annað hversu grundvöllur fyrir því að vera á móti kísiliðju í Mývatni sé á veikum grunni byggður. Þar sé í aðra röndina komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að segja til um áhrif á lífríkið í Mývatni vegna setflutninga, þar sem ekki liggi fyrir rannsóknir í því efni, en í kjölfarið séu hafðar á lofti getgátur um að langvarandi vinnsla hefði í för með sér verulegar breytingar á lífsskilyrðum í Mývatni.

Gísli Már vísar hins vegar til þess að erlendu sérfræðingarnir séu sammála mati Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn að vatnið sé mjög einstakt á norðurhveli jarðar. Þeir bendi aukinheldur á það í skýrslu sinni að á þessi mál megi horfa frá tvenns konar sjónarmiðum, annars vegar út frá „prinsippi“ og hins vegar út frá reynslu. Fram komi skýrt að það sé mat þeirra að í „prinsippi“ eigi ekki að vera með iðnrekstur í svona einstöku vatni. Vegna ýmissa samfélagsþátta geti engu að síður verið nauðsynlegt að gera það.

„Og í kjölfar þess leggja þeir til að núverandi námavinnslu í Ytriflóa verði hætt á stundinni, en ef það er nauðsynlegt að halda henni áfram þar þá fari hún ekki út fyrir núverandi mörk á námavinnslusvæðinu, sem voru ákveðin 1993. Í annan stað þá benda þeir á varúðarregluna og þeir segja að ef sú ákvörðun verði tekin, að námagröftur haldi áfram, að þá geti þeir hugsanlega mælt með svæði 1 í Syðriflóa, en að þeim líði verr að mæla með að fara niður á tveggja metra dýpi á svæði 2 í Syðriflóa.“

Í þessu sambandi segir Gunnar Örn að eina ástæða þess að Kísiliðjan fór fram á það í mati á umhverfisáhrifum að þeir fengju að vinna fleiri svæði á Ytriflóa hafi verið þrýstingur heimamanna, allir sem búi við Ytriflóa vilji að þeir dæli meira. „En málið er það að kísilgúrlögin eru alltaf að þynnast í Ytriflóa, við erum búnir að taka megnið af góðu svæðunum út, og það er meira eftir af svæðum sem gefa minna af sér. Þannig að það er alveg ljóst, eins og þeir benda á, að út frá varúðarsjónarmiðum þá er miklu skynsamlegra að fara yfir í Syðriflóa.“

kisiliðjan myvatniRéttlætir skýrslan nýtt námaleyfi?

Kísiliðjan í Mývatnssveit starfar nú samkvæmt námaleyfi, sem gefið var út af iðnaðarráðherra hinn 7. apríl 1993 en um leið og það var gefið út var greint frá samkomulagi iðnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis og Náttúruverndarráðs (nú Náttúruverndar ríkisins) þar sem fram kom að skilningur allra sem að því stóðu væri sá að með útgáfu leyfisins væri aðeins verið að gefa svigrúm til að hætta kísilgúrtöku úr Mývatni. Málefni Kísiliðjunnar komust hins vegar í hámæli á nýjan leik í baráttunni fyrir Alþingiskosningarnar síðastliðið vor, ekki síst eftir að fyrirtækið sótti um nýtt námaleyfi, stækkun námasvæðisins í Ytriflóa Mývatns og til vinnslu á nýju svæði í Syðriflóa.

Gunnar Örn kveðst á þeirri skoðun að skýrsla erlendu sérfræðinganna núna styrki málstað Kísiliðjunnar og sýni að ekki var á miklu byggt við skýrslugerðina 1993. Segir hann engan vafa á að Kísiliðjan muni nota skýrsluna þegar hún bregst við óskum skipulagsstjóra ríkisins um frekari gögn og frekari rannsóknir á umhverfisáhrifum vegna aukinnar vinnslu í Mývatni. „Annað væri óeðlilegt enda báðu þeir nánast um það.“

Gísli Már segir aftur á móti að það komi ítrekað fram í skýrslu erlendu sérfræðinganna að þeir vilji ekki blanda sér í þær pólitísku deilur sem um þessi mál standa á Íslandi. Samkomulagið frá 1993 liggi hins vegar fyrir og erfitt sé að túlka skýrslu erlendu sérfræðinganna sem tillögu um að það verði tekið upp að nýju.

Vönduð skýrsla að mati ráðherra

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fékk skýrsluna fyrst í hendur í gærog sagði að sér hefði ekki gefist mikill tími til að fara yfir hana. „Mér sýnist að hún sé mjög vel unnin. Ríkisstjórnin tók þá ákvörðun í vor að fá erlenda sérfræðinga til þess að koma að málinu vegna þess að það hefur alltaf verið ágreiningur um það hvort okkar vísindamenn eru að vinna faglega eða ekki. Að því leyti til er mjög mikilvægt að fá þessa skýrslu,“ sagði Valgerður.

Ráðherrann sagði ennfremur að skýrslan yrði meðal þeirra gagna sem stjórnvöld styddust við þegar ákvarðanir um framhald málsins verða teknar.

 

Heimild: Mbl

Fleira áhugavert: