Hefur þjóðarbúið tapað á raforkusamningum við álfyrirtækin.?

visir

bjarni birgitta

Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra á þingi í dag hvort hann hefði látið kanna hversu miklum tekjum þjóðarbúið hefði orðið af vegna þess sem hún kallaði „útsölustefnu“ á raforkuverði til stórfyrirtækja sem reka álver hér á landi, en á dögunum var kynntur nýr samningur Landsvirkjunar við Norðurál vegna raforkusölu sem tekur gildi í nóvember 2019.

„Lágt verð til Norðuráls á Grundartanga og Fjarðaráls á Reyðarfirði hefur dregið niður meðalverð á raforku til álvera hér á landi í rúmlega 26 dollara á megavattsstund. […] Mig langar því að spyrja hæstvirtan ráðherra hvort hann hafi látið kanna hversu miklum tekjum þjóðarbúið hafi orðið af vegna þessarar útsölustefnu og hvort hann boði stefnubreytingu þar á,“ sagði Birgitta meðal annars.

Fjármálaráðherra sagði að það væri auðvelt að koma undir lok samningstíma samninga sem gerðir væru til langframa og gagnrýna þá. Hann kvaðst síðan fagna því að Landsvirkjun næði hagstæðari samningum þegar horft væri á hagsmuni fyrirtækisins til langs tíma en sagði síðan að spurning Birgittu um tekjumissinn væri ótæk.


alver straumsvik aEngum kaupanda sleppt í staðinn fyrir kaupandann sem fékkst

„Spurningarnar sem við eigum að hafa uppi varðandi Landsvirkjun er til dæmis þessi hér: er arðsemi af fjárfestingu Landsvirkjunar? Hér er spurt hversu miklum tekjum höfum við orðið af vegna lægra raforkuverðs en hefði þurft að vera? Ég held að þetta sé bara eiginlega ótæk spurning vegna þess að í fyrsta lagi við höfum engan kaupanda sem við slepptum í staðinn sem við fengum. Hérna er í raun og veru komið ágætis dæmi um það að eigum að bera saman þann ávinning sem við höfum haft af þessum samningi borið saman við það að hafa ekki gert neitt, að hafa ekki virkjað, að hafa ekki selt neina raforku vegna þess að þetta er vatn sem hefði ella bara runnið til sjávar,“ sagði Bjarni og bætti því svo við að svarið við hans spurningu birtist í eiginfjárstöðu Landsvirkjunar sem væri 200 milljarðar.

Birgitta spurði ráðherrann síðan út í samninginn við Alcoa vegna álversins í Reyðarfirði sem fær orku sína frá Kárahnjúkavirkjun. Sagði Birgitta þann samning vondan en hann gildir til ársins 2048. Spurði hún ráðherra því hvort hann teldi að eitthvað væri hægt að gera við samninginn, til að mynda opna hann.

„Ætlar háttvirtur þingmaður að fá svar frá mér eða?“
Bjarni svaraði því til að hann teldi þingmanninn til þeirra sem hefðu síðar viljað nýta orkuna í landinu enda kvaðst hann minnast þess að hún hefði verið ein af þeim sem mótmæltu Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma. Var Birgitta ekki sátt við þessi orð ráðherrans og kallaði á ráðherrann úr þingsal svo forseti þurfti að slá í bjölluna.

„Ætlar háttvirtur þingmaður að fá svar frá mér eða?“ spurði Bjarni.

Hann sagðist síðan vera algjörlega á öndverðri skoðun við Birgittu sem talaði um samninga Landsvirkjunar við álfyrirtækin sem gjafasamninga.

„Þegar við horfum á þann mikla ávinning sem samfélagið hefur haft af uppbyggingu raforkukerfisins, af því raforkuverði sem almenningur á Íslandi nýtur vegna þess að við höfum farið í orkuframkvæmdir og gert langtímasamninga þar sem keypt er rafmagn, allt rafmagn sem framleitt er, allan daginn, hvern einasta dag ársins þá fá menn aðeins skýrari mynd. En við erum í sama liðinu þegar kemur að því að fá hámarksverð fyrir rafmagnið,“ sagði fjármálaráðherra.

 

Heimild: Vísir

Fleira áhugavert: