Rafbílavæðing Íslands

Heimild:  mbl

 

Maí 2016

Þorsteinn Þorsteinsson

Þorsteinn Þorsteinsson

Á stefnuskrá ríkisstjórnarinnnar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, m.a. með því að efla vistvænar samgöngur. Ein áhrifamesta aðgerðin á því sviði væri að rafbílavæða Ísland. Endurnýjanlegar og vistvænar auðlindir gera þjóðinni kleift að vera í fararbroddi á þessu sviði.

Orkuskipti í samgöngum kalla á markvissar aðgerðir stjórnvalda og orkufyrirtækjanna. Rafbílar eru að verða raunhæfur kostur og flestir, ef ekki allir stórir bílaframleiðendur framleiða nú slíkar bifreiðar.

Orkuskipti af þessu tagi eru kostnaðarsöm og kalla á miklar fjárfestingar í innviðum. Íslendingar búa hins vegar við þann munað að rafmagn er fáanlegt um allt land með dreifikerfi sem nú þegar er til staðar. Verkefnið kallar á að settar verði upp hraðhleðslustöðvar um allt land.

 

Ávinningur af rafbílavæðingu
Það ætti að vera verulegur þjóðhagslegur ávinningur af því að nota innlenda orkugjafa í stað innflutts jarðefnaeldsneytis. Megnið af innfluttu eldsneyti Íslendinga er notað við fiskveiðar og í samgöngum eða um 90% af innfluttri olíu. Reikna má með að andvirði innflutts eldsneytis hafi verið tæplega 80 milljarðar árið 2015. Þessi tala lækkaði hins vegar um tæplega 20 milljarða frá árinu 2014 vegna styrkingar íslensku krónunnar og lækkandi eldneytisverðs á heimsmarkaði. Ljóst er af þessum tölum að mjög verulegur gjaldeyrissparnað næðist ef bílaflotinn yrði rafvæddur.

Á móti vegur að skatttekjur ríkisins af jarðeldsneyti myndu lækka mikið sem reyndar kæmi sér vel varðandi lækkuð eldsneytisútgjöld almennings. Það má þó gera ráð fyrir að tekjur orkufyrirtækjanna af raforkusölu tengdri rafbílum og skatttekjur ríkisins af þeirri starfsemi myndu vega þar upp á móti.

rafbilarVið bruna jarðefnaeldsneytis, sem að stærstum hluta er kolefni, myndast mikið magn koldíoxíðs (CO2). Koldíoxíð er ein þeirra lofttegunda sem valda auknum gróðurhúsaáhrifum, en aukning þessara áhrifa kann að leiða til veðurfarsbreytinga með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir lífið á jörðinni.

Umhverfisstofnun fylgist með útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi, en um 82% þeirra er koldíoxíð. Drjúgur hluti er tilkominn vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti þannig að áhrif eldsneytisnotkunar á losun gróðurhúsalofttegunda eru augljós. Rafbílavæðing myndi þannig auðvelda Íslandi að uppfylla Parísarsamkomulagið en eins og kunnugt er náðist þar söguleg sátt í desember sl. um hertar aðgerðir í loftlagsmálum á heimsvísu.

Síðast en ekki síst myndu orkuskiptin efla sjálfbærni landsins. Þær breytingar væru í samræmi við samþykktir Sameinuðu þjóðanna sem hafa skilgreint hugtakið sjálfbærni þannig að hún mæti þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum.

Hvað þarf að gera?

En hvað geta stjórnvöld og orkufyrirtækin gert til að hraða þessari þróun? Bent hefur verið á þá leið að hækka skatta vegna notkunar á mengandi eldsneyti. Í því tilviki er verið að setja verðmiða á kolefni. Að sama skapi er mikilvægt að hagkvæmni endurnýjanlegra orkugjafa verði aukin fyrir neytendur. Augljós leið er að festa til langframa lækkaðan virðisaukaskatt og niðurfellingu á vörugjöld af innfluttum rafbílum.

Norðmenn hafa nýlega sett sér skýra stefnu á þessu sviði. Markmiðið er að árið 2025 losi engir innfluttir bílar gróðurhúsalofttegundir. Norðmenn munu reyndar leyfa sölu á á svo kölluðum tvinn-bílum lengur en þeir eru knúnir með blöndu af raforku og jarðaefnaeldsneyti. Hollendingar hyggjast feta í fótspor Norðmanna en þessar hugmyndir eru til umfjöllunar á hollenska þinginu. Þar í landi er bensínstöðvum nú þegar skylt að bjóða viðskiptavinum upp á hleðslu af rafknúin farartæki.

Orkufyrirtækin þurfa augljóslega að setja þetta mál á stefnuskrá. Væri það kannski verðugra verkefni fyrir Landsvirkjun og Landsnet að verja kröftum sínum á þessu sviði, í stað þess að starblína á lagningu sæstrengs til Bretlands, sem er alls óvíst að sé þjóðhagslega hagkvæmur?

Fleira áhugavert: