Að lækka hita á kranavatni í galvaniseruðum lögnum

mbl

September 2007

stillum hitann

Það er mjög líklegt að það séu galvaniseraðar kranavatnslagnir, öðru nafni neysluvatnslagnir, í miklum meirihluta húsa hérlendis. Ekki er ólíklegt að það séu allt að 90% húsa með slíkar lagnir. Það er ekki fyrr en undir síðustu aldamót sem tókst að sannfæra þá sem þessu réðu um að slíkar lagnir væru ekki góður kostur. Þá var farið að nota lagnir úr mismunandi plasttegundum eða ryðfríu stáli.

Það er viðurkennd staðreynd að í húsum byggðum eftir 1980 og fram að aldamótum er ástandið alvarlegt í galvaniseruðum lögnum fyrir kalt vatn. Ekki verður farið nánar út í kaldavatnslagnirnar núna en líklega er að finnast endanleg lausn á vandamálum þeirra sem fá telitað vatn á hverjum morgni þegar ætlunin er að fá silfurtært og ferskt vatn, skoðum það í næsta pistli.

En þeir sem hafa galvaniseraðar lagnir í sínum húsum fyrir heitt kranavatn sem tekið er beint frá hitaveitu hafa ekki átt við nein vandamál í þeim lögnum að stríða vegna tæringa. Hins vegar er of hár hiti á kranavatninu ekki aðeins vandamál heldur fylgir því stórfelld slysahætta og á síðustu árum hafa orðið dau
ðaslys af of heitu kranavatni. Það er því hvorki meira né minna en lífsnauðsyn að lækka hita á kranavatni og að því er verið að gera gangskör núna.

Fyrir þá sem eru svo heppnir að hafa neysluvatnslagnir í húsum sínum úr plasti eða ryðfríu stáli, og sumstaðar á landinu úr eir, er þetta ekki vandamál, þar eru fleiri en ein lausn í sjónmáli.

En þeir sem eru með galvaniseraðar lagnir fyrir neysluvatn mega alls ekki taka hvað lausn sem er til að lækka hitann á kranvatninu og það verður að vara húseigendur við fagurgala seljenda um lausnir, því miður virðist óvönduð sölumennska vera að aukast.

galv lagnirÞað er kannski ekki úr vegi að skýra aðeins nánar hvað eru galvaniseraðar lagnir, stundum finnst fagmönnum hlutirnir svo einfaldir að það þurfi ekki að skýra þá nánar. En galvaniseraðar lagnir eru stálrör sem hafa verið húðuð með málminum zinki bæði utan og innan. Þessi rör eru þykk, þau eru tengd með því að snitta rörendana og skrúfa síðan saman. Þessi rör hafa verið notuð til neysluvatnslagna alla 20. öldina hérlendis með oft ágætum árangri, en þó ekki alltaf.

Þá er að athuga hvað má alls ekki gera til að lækka hita á kranavatni ef lagnirnar eru galvaniseraðar. Það má alls ekki hita upp kalt vatn með varmaskiptum og láta síðan það upphitaða vatn renna inn í rörin. Það má heldur alls ekki blanda hitaveituvatnið með köldu vatni þar til nægilega lágu hitastigi er náð, segjum 60°C. Ef þetta er gert má búast við að eftir fá ár verði komnar tæringarskemmdir í galvaniseruðu rörin vegna þess að allt kalt vatn er súrefnisríkt og á að vera það, annars er það ekki gott drykkjarvatn. Það skiptir ekki máli hvort vatnið er alfarið 100% upphitað kalt vatn eða kalt vatn að hluta, segjum 20% og blandað hitaveituvatni. Dæmin sanna að hvort tveggja er skaðlegt galvaniseruðum rörum.

En þá að því jákvæða. Það er til lausn á því að ná niður hita á kranavatni hjá þeim mikla meirihluta sem er með galvaniseraðar lagnir fyrir heitt kranavatn.

Lausnin er að láta hitaveituvatnið renna inn í rörin svo sem gert hefur verið hingað til en kæla það.

Það er gert með varmaskiptum, hitaveituvatnið látið renna um annað hólfið og inn til krananna sem áður, en kalt vatn látið renna á móti um hitt hólfið og þannig er hitaveituvatnið kælt. Þessu er hægt að stýra sjálfvirkt, um leið og opnað er fyrir krana fer hitaveituvatnið að renna og þá opnar sjálvirkur ventill fyrir rennsli kalda vatnsins og kælir hitaveituvatnið niður í hæfilegan hita 60°C.

Vísir menn hérlendis eru nú að þróa þessa tækni og velja og samhæfa tæki. Þetta hefur þegar verið sannreynt að er góð lausn, hún er á næsta leiti.

En þrátt fyrir þetta er ekki minni nauðsyn að nota sjálfvirk hitastýrð blöndunartæki því það er hægt að brenna sig á vatni þó búið sé að lækka hitann niður í 60°C.

En bruni við það hitastig er mun hægari en ef vatnið er segjum 75°C, öryggið hefur aukist verulega en það er ekki nóg.

Sjálfvirku hitastýrðu blöndunartækin ættu að vera við hvert baðker, í hverri sturtu og jafnvel við handlaugar og vaska.

 

 

Heimild: Mbl

Fleira áhugavert: