Áhugaverð niðurstaða Eftirlitsstofnun EFTA – Fyrirtæki á Íslandi skulu ávalt greiða markaðsverð fyrir nýtingu auðlinda

visir

natturuaudlindir

Ísland þarf að breyta lögum til að tryggja að fyrirtæki sem nýta náttúruauðlindir í almannaeigu til raforkuframleiðslu greiði ávallt markaðsverð fyrir. Þetta er niðurstaða ákvörðunar sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) kynnti í gær.

ESA segir íslensk stjórnvöld hafa margoft veitt fyrirtækjum aðgang að náttúruauðlindum til að framleiða raforku úr vatnsafli eða jarðvarma, án þess að íslensk löggjöf sé til um efni slíkra samninga. Hvorki er því lagaskylda til að fara fram á greiðslu markaðsverðs né opinber mælikvarði um ákvörðun endurgjalds.

„Til að tryggja megi sanngjarna og virka samkeppni á íslenska raforkumarkaðnum þurfa orkufyrirtæki að greiða markaðsverð fyrir nýtingu náttúruauðlinda. […] til að ganga úr skugga um að aðilar njóti jafnræðis þurfa íslensk stjórnvöld auk þess að hafa skýra aðferðafræði um hvernig markaðsverð náttúruauðlinda verður ákvarðað,“ segir Sven Erik Svedman, forseti ESA.

ESA leggur til að sett verði lög á Íslandi til að tryggja að öll tilfærsla náttúruauðlinda vegna raforkuframleiðslu verði á markaðsforsendum. Slík kvöð yrði bindandi fyrir bæði ríki og sveitarstjórnir. Íslensk stjórnvöld þurfi líka að endurskoða alla gildandi samninga um nýtingu náttúruauðlinda til að tryggja að orkufyrirtæki greiði markaðsverð út samningstíma.

Ef íslensk stjórnvöld tilkynna ekki innan eins mánaðar að þau samþykki tillögurnar getur ESA hafið formlega rannsókn á málinu.
Hvað niðurstaða ESA þýðir fyrir íslensk orkufyrirtæki er mjög óljóst. Frá Orkuveitu Reykjavíkur fást þau svör að Orka náttúrunnar, dótturfyrirtæki OR, framleiði mestalla sína raforku úr auðlindum á jörðum sem eru í eigu OR. Þetta eru Nesjavellir og Kolviðarhóll (og jarðarskikar á Hellisheiði). Nesjavellir voru keyptir til jarðhitanýtingar 1965 og Kolviðarhóll 1955.

Í fljótu bragði virðist þetta ekki hafa mikil áhrif á rekstur ON en fyrirtækið hafi alla tíð reiknað með að greiða ríkinu fyrir afnot af gufu úr þeim skika á Hellisheiði sem virkjunin nýtir þar og er innan þjóðlendu?

 

Heimild: Vísir

Fleira áhugavert: