Dýpsta og heitasta hola landsins á Suðurnesjum – Gæti gefið tífalt meiri orku

visir

Þess verður freistað að bora allt að fimm kílómetra djúpa háhitaholu á Reykjanesi síðar á þessu ári. Stefnt er að því að holan verði dýpsta og heitasta vinnsluhola jarðvarma á Íslandi. Slík háhitahola gefur fræðilega tífalda orku á við hefðbundna háhitaholu.

HS Orka og Jarðboranir undirrituðu samning um borun háhitaholunnar í gær. Verkefnið er hluti af Íslenska djúpborunarverkefninu (IDDP) sem fékk nýlega styrk upp á 1,3 milljarða króna frá rannsóknaráætlun Evrópusambandsins (Horizon 2020). HS Orka leiðir verkefnið í samstarfi við norska olíufélagið Statoil, auk annarra fyrirtækja innan IDDP-samstarfsins. Auk HS Orku eru Ísor, Landsvirkjun, Georg-rannsóknaklasi í jarðhita ásamt evrópskum fyrirtækjum þátttakendur í verkefninu.

Gudmundur O. Fridleifsson

Guðmundur Ó. Friðleifsson

Tilgangur verkefnisins er að sýna fram á að framleiða megi orku úr djúplægum jarðhitakerfum sem gæti aukið orkuframleiðslu háhitasvæða umtalsvert og þar með dregið úr landrýmisþörf orkuvinnslunnar.

Vonir þeirra sem að verkefninu standa, ef allt gengur að óskum, eru þær sömu og þegar reynt var við djúpborun á Kröflusvæðinu, staðfestir yfirverkfræðingur hjá HS Orku, Guðmundur Ó. Friðleifsson. Litið er til þess að fræðilega geti djúpborun gefið háhitaholu sem gefur allt að því tífalt meiri orku en hefðbundin háhitahola sem nýtt er til vinnslu jarðhita hér á landi í dag. Slík borhola gefur þetta fimm megavött svo 50 megavött rafafls eru talin möguleg, ef besti árangur næst. Til samanburðar er uppsett afl Kröfluvirkjunar um 60 megavött.

Vinnslutækni verkefnisins ræðst af því hvernig jarðhitavökvi finnst á fjögurra til fimm kílómetra dýpi. Ef efnasamsetningin reynist viðráðanleg og unnt verður að vinna yfirhitaða orkuríka gufu beint upp úr djúpu borholunni er það fyrsti valkostur. Ef efnasamsetning vökvans reynist hins vegar of erfið, verður vatni frá yfirborði dælt ofan í holuna til að efla orkuvinnslu úr grynnri nærliggjandi holum. Við borun holunnar, prófanir, mælingar og vinnslu verður prófuð ný tækni og búnaður í samstarfi við bæði innlenda og erlenda aðila.

HS Orka leggur til verksins holu 15 á Reykjanesi sem er 2,5 kílómetra djúp og er ætlunin að dýpka holuna allt niður að fimm kílómetrum. Samningurinn er hluti af öðrum áfanga íslenska djúpborunarverkefnisins (IDDP-2).

Boruðu niður í kvikuhólf

Íslenska djúpborunarverkefnið (IDDP) hefur verið starfrækt í um 15 ár.

Að IDDP standa íslensku orkufyrirtækin HS Orka, Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, ásamt Orkustofnun og norska olíufélaginu Statoil.

Á árunum 2008-2009 var fyrsta djúpborunarholan, IDDP-1, boruð við Kröflu og lenti hún í 900°C heitri kviku á 2,1 kílómetra dýpi. Þar tókst að sýna fram á að vinna mætti mikla orku úr yfirhitaðri gufu úr berginu rétt ofan við bráðna bergkviku, og áformar Landsvirkjun að halda áfram tilraunum með slíka orkuvinnslu þar á næstu árum.

 

Heimild: Vísir

Fleira áhugavert: