Dalandi vinnslugeta Hellisheiðarvirkjunar

or nytt logo

Júní 2013

Hellisheidavirkjun

Samdráttur er að verða í raforkuframleiðslu Hellisheiðarvirkjunar vegna niðurdráttar í jarðhitageyminum. Útlit er fyrir að hann aukist verði ekki að gert. Að undanförnu hefur starfsfólk Orkuveitunnar skoðað ýmsar leiðir til að bregðast við vandanum. Vænlegast virðist að tengja háhitasvæðið í Hverahlíð við Hellisheiðarvirkjun. Það myndi kalla á um fimm kílómetra langa gufulögn á milli svæðanna. Með því yrði komist hjá því að bora meira á núverandi vinnslusvæði virkjunarinnar en þess í stað nýttar öflugar holur, sem þegar hafa verið boraðar við Hverahlíð en hafa ekki aflað tekna í fimm ár.

Ákvörðun um framkvæmdina liggur ekki fyrir en hugmyndin hefur verið kynnt eigendum Orkuveitunnar. Verði í framkvæmdina ráðist tekur við frekari kynning og úrvinnsla hjá leyfisveitendum og eftirlitsaðilum.

 

Reynsla af rekstri jarðhitasvæðis Hellisheiðarvirkjunar

Hellisheiðarvirkjun var fullbyggð haustið 2011 og hefur hún verið rekin á fullum afköstum síðan. Fylgst hefur verið náið með viðbrögðum jarðhitasvæðisins við vinnslunni. Rannsóknir á jarðhitasvæðum í Henglinum, sem m.a. voru kynntar á alþjóðlegu jarðhitaráðstefnunni í Reykjavík í mars, leiða í ljós að núverandi vinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar stendur ekki undir fullri framleiðslu í virkjuninni til frambúðar. Þetta hefur þó ekki áhrif á heitavatnsframleiðslu í Hellisheiðarvirkjun. Jafnframt hafa erfiðleikar komið í ljós við niðurdælingu á vinnsluvatni í jarðhitageyminn en rennslistregða í niðurdælingarholum hefur aukist að undanförnu.

 

Besta lausnin til skemmri tíma litið

Tenging jarðhitasvæðisins í Hverahlíð við Hellisheiðarvirkjun virðist ódýrasta og öruggasta leiðin til þess að tryggja vinnslugetu virkjunarinnar til næstu ára. Fleiri jákvæða þætti má telja fram sem felast í tengingunni:

Gufan í Hverahlíð er þurrari en á vinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar og það dregur úr þörf fyrir niðurdælingu vinnsluvatns, sem annars gæti orðið flöskuháls í vinnslunni á næstu misserum.
Fjárfesting í borholum við Hverahlíð nýtist í stað þess að bora þurfi nýjar holur á jarðhitasvæði Hellisheiðarvirkjunar með verulegum kostnaði og óvissum árangri.
Upplýsingar fást um afköst háhitasvæðisins við Hverahlíð áður en ákvörðun verður tekin um byggingu Hverahlíðarvirkjunar.
Umhverfisáhrif jarðhitavinnslu í Hverahlíð verða minni með því að leiða gufuna niður í Hellisheiðarvirkjun í stað þess að byggja nýja virkjun á háheiðinni.
Meðhöndlun brennisteinsvetnis og vinnsluvatns verður á einum stað og því einfaldari við að eiga.

 

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar:

„Það er nú ljóst að jarðhitasvæði Hellisheiðarvirkjunar stendur ekki undir fullum rekstri virkjunarinnar til frambúðar. Erfiðleikar hafa einnig komið í ljós við að skila vinnsluvökvanum aftur niður í jarðhitakerfið. Við þessar aðstæður höfum við einbeitt okkur að því að finna hagkvæmustu lausn á vandanum bæði í bráð og lengd. Hagkvæmasta lausnin til skemmri tíma virðist sú að leiða gufu frá jarðhitasvæðinu í Hverahlíð niður í Hellisheiðarvirkjun og tryggja þannig full afköst virkjunarinnar og tekjur til næstu ára. Það gefur okkur það tóm sem við þurfum til þess að vinna að öðrum lausnum og varanlegri bæði hvað gufuöflun og niðurdælingu á vinnsluvatni varðar. Á sama tíma vinnum við að lausn á brennisteinsvandanum svo það er í ýmis horn að líta á Hellisheiðinni þessi árin.“

 

Heimild: OR

Fleira áhugavert: