Mikilvægi réttra og hlutlausra upplýsinga

Orkubloggið

ketill sigurjónson 1

Ketill Sigurjónson

Hlutlausir og áreiðanlegir fagaðilar eru ákaflega mikilvægir. Eins og t.a.m. háskólarnir. Þess vegna var óheppilegt hversu villandi mynd skýrslan Áhrif stóriðjuframkvæmda á íslenskt efnahagslíf gaf af raforkuverði til álvera á Íslandi. Ekki síður slæmt er þegar fjölmiðlar og hagsmunaaðilar grípa slíkar villandi upplýsingar og birta þær eins og um staðreyndir sé að ræða.

Verðið til álvera á Íslandi oftast töluvert langt undir heimsmeðaltalinu

Til upprifjunar skal minnt á að í umræddri skýrslu (sbr. pdf-skjal hér) sagði að raforkuverð til álveranna á Íslandi virðist „vera á sama bili og annars staðar að jafnaði“. Þetta var ekki rétt. Hið rétta hefði verið að segja að flest bendi til þess að raforkuverð hér til álvera sé að jafnaði um 25-30% lægra en annars staðar að jafnaði. Eins og útskýrt var í síðustu grein; Alltaf undir meðalverði.

Raforkuverd-alver-LV-heimur_2002-2010Þess má geta að síðan umrædd skýrsla kom út árið 2009, hefur þessi verðmunur lítt breyst. Og stundum orðið meiri – íslensku orkufyrirtækjunum í óhag. Í slíkum samanburði hefur það þó hækkað íslenska meðalverðið að raforkuverð til eins álveranna hér hækkaði verulega meðnýjum orkusamningi árið 2010. Sá samningur var milli Landsvirkjunar og eiganda álversins í Straumsvík.

Síðan 2009 hefur hækkandi raforkuverð til álvera erlendis almennt verið með þeim hætti að að munurinn á íslenska og alþjóðlega meðalverðinu hefur oftast verið svipaður eða meiri en var þarna á fyrsta áratug aldarinnar. Verðmunurinn er þó að sjálfsögðu síbreytilegur frá ári til árs. En almennt er umrætt meðalverð á Íslandi töluvert langt undir heimsmeðaltalinu.

Einhverjir kunna að halda því fram að grafið hér að ofan innihaldi ekki sambærilegar upplýsingar. Þarna er nefnilega ekki gefið upp meðalverð Landsvirkjunar (LV) til álvera, heldur til stóriðjunnar allrar. Sem merkir að þarna er raforkuverðið til járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga líka inni í meðaltalinu.

Aluminum-electricity-tariffs-to-smelters_world-and-iceland-landsvirkjun-2014En það skiptir litlu máli. Af eldri ársskýrslum járnblendiverksmiðjunnar má sjá að þó svo raforkuverðið til hennar sé lágt, er það ekki svo lágt að það dragi meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju mikið niður (og það þó svo meðalverðið til álveranna sú nú orðið nokkru hærra en til járnblendisins). Hér skiptir og máli að hlutfall járnblendiverksmiðjunnar í raforkuviðskiptum Landsvirkjunar er ekki nægjanlega mikið til að umtalsverður munur verði á meðalverði LV til stóriðju og meðalverði LV til álvera. Nú um stundir er staðan t.a.m. sú, að meðalverð LV til stóriðju er einungis um hálfum dollar lægra pr. MWst en meðalverð LV til álvera.

Áhrif raforkusamnings LV við Elkem hefur því óveruleg áhrif á meðalverðið. Þetta á alveg sérstaklega við eftir 2006, þ.e. eftir að Fjarðaál var tekið til starfa. Um meðalverðið til álveranna á Íslandi má svo líka vísa á þetta graf.

Loks má geta þess að meðalverð ON/OR og HS Orku til álvera er örugglega nokkuð lægra en meðalverð LV til álvera (því raforkusamningur LV vegna Straumsvíkur frá 2010 dregur meðalverð LV upp, en meðalverð ON/OR og HS Orku til Norðuráls er mjög lágt). Þess vegna má fullyrða að meðalverðið á raforku til álvera á Íslandi er eilítið lægra en kemur fram á gröfunum hér að ofan.

Álfyrirtækin fögnuðu niðurstöðunni

Áðurnefnd skýrsla frá 2009 hafði þann stóra galla að með röngum eða villandi upplýsingum í svona skýrslu var höggvið að þeim sem gagnrýnt höfðu lágt raforkuverð til álvera og stóriðju á Íslandi. Ýmsir hagsmunaaðilar gripu skýrsluna á lofti og hömpuðu henni og sögðu hana sýna að raforkuverð hér til álvera væri alls ekki lágt. Þannig nýtti ÍSAL í Straumsvík (Rio Tinto Alcan) sér skýrsluna til að segja eftirfarandi (leturbreyting er Orkubloggsins):

Straumsvik-Olafur-Teitur-GudnasonFullyrðingar um „gjafverð“ til álvera á Íslandi standast ekki með hliðsjón af þeirri niðurstöðu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands að þau greiði nálægt meðalverði álvera í heiminum.

Þess má geta að á þessum tíma, þ.e. 2009, var álverið í Straumsvík að greiða miklu lægra raforkuverð en það gerir í dag. Og greiddi þá reyndar lægsta verðið af öllum álverunum hér. Eins og sjá má á þessu grafi.

Auðvitað tóku fleiri þátt í að breiða út gleðiboðaskap skýrslunnar um bærilegt raforkuverð til álvera á Íslandi. Þannig segir eftirfarandi í umsögn Samtaka álframleiðenda um skýrsluna (en Samál var vel að merkja stofnað um ári eftir útkomu skýrslunnar – sennilega til höfuðs hugmyndarinnar um sæstreng milli Íslands og Evrópu og gegn áformum LV um að auka arðsemi af orkusölu fyrirtækisins):

Skýrsla þessi er unnin af Hagfræðistofnun fyrir Iðnaðarráðuneytið. Hún hefur að geyma fjölmargar gagnlegar upplýsingar um þjóðhagsleg áhrif stóriðju hér á landi. Þar kemur meðal annars fram að flest bendi til þess að þjóðhagslega hagkvæmt sé að ráðast í framkvæmdir við stóriðju á næstu árum.

Samorka kinkaði kolli

Meira að segja Samorka (Samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi) kinkaði kolli yfir niðurstöðu skýrsluhöfunda um samhengi raforkuverðs til álvera á Íslandi og í heiminum. Því á vef Samorku birtist eftirfarandi frétt:

Samorka hefur engar frekari upplýsingar um raforkuverð til stóriðju og getur því ekki staðfest þessa ályktun Hagfræðistofnunar. Hins vegar er ástæða til að vekja athygli á þessari niðurstöðu stofnunarinnar þar sem því er iðulega haldið fram að orkuverð til stóriðju sé með lægsta móti hérlendis.

Samorka-logoÚr því Samorka tók það sérstaklega fram að samtökin gætu ekki staðfest (ranga) niðurstöðu Hagfræðistofnunar, má spyrja sig af hverju Samorku þótti tilefni til „að vekja athygli á þessari niðurstöðu stofnunarinnar þar sem því er iðulega haldið fram að orkuverð til stóriðju sé með lægsta móti hérlendis“. Með þessu var Samorka nefnilega augljóslega að gefa það í skyn, að með niðurstöðu Hagfræðistofnunar væri búið að hrekja málflutning þeirra sem segðu að raforkuverðið hér til stóriðju væri lágt.

Þarna hefði Samorka betur sleppt síðustu setningunni í tilvitnuninni hér að ofan. Samorka hefði líka átt að hugleiða hvort niðurstaða Hagfræðistofnunar kynni að vera röng. Hryggjarstykkið í Samorku eru jú orkufyrirtækin. Þ.á m. eru þrjú þau stóru sem selja raforku til álvera. Þau hljóta að hafa búið yfir einhverri þekkingu á því hvar þau stæðu í slíkri raforkusölu í alþjóðlegum samanburði. Þau hljóta því að hafa vitað að umrædd niðurstaða skýrslunnar um raforkuverðið var villandi.

OR-husÞótti kannski þessum orkufyrirtækjum (sem öll voru innan Samorku) heppilegt að fá þann dóm frá Hagfræðistofnun og iðnaðarráðuneytinu að þau væru að fá hið bærilegasta verð frá álverunum? Jafnvel þó svo sannleikurinn væri sá að orkuverðið sem þau voru að fá var í reynd hlutfallslega miklu lægra en skýrslan gaf til kynna. Vildu viðkomandi orkufyrirtæki á þessum tíma kannski ekki að það kæmist upp um hversu raforkuverðið til álveranna hér væri hlutfallslega lágt?

Tekið skal fram að það er mat Orkubloggarans að starfsemi og álitsgjöf Samorku hafi farið batnandi á síðustu árum. En ég held þó að ennþá birtist Samorka mörgu fólki sem afar gamaldags virkjunarsamtök. Þess má geta að um 80 milljónum króna er á ári hverju varið í rekstur Samorku.

Kæruleysi í heimildaöflun olli rangri niðurstöðu um raforkuverðið 2009

Sú ályktun í umræddri skýrslu árið 2009 að raforkuverð hér til álvera hafi þá verið á sama bili og annars staðar í heiminum var röng eða a.m.k. ansið villandi. Skýringin á þessari einkennilegu niðurstöðu virðist einkum hafa verið sú, að þarna var einungis stuðst við eina heimild um raforkuverð til álvera í heiminum. Að auki virðist sem þarna hafi höfundar skýrslunnar ruglað saman árunum 2006 og 2007 (það var nefnilega árið 2006 sem meðalverðið í heiminum var um 27 USD/MWst; ekki árið 2007 eins og skýrsluhöfundar héldu).

Eðlilegast hefði verið að niðurstaða skýrsluhöfunda hefði verið sú, að sterkar vísbendingar væru um að raforkuverð LV til álveranna væri almennt töluvert lægra en heimsmeðaltalið. Og að munurinn þarna væri sennilega oft á bilinu 20-30%. Undantekning hafi verið árið 2006, þegar mjög hátt álverð varð til þess að álverðstengdir raforkusamningar skiluðu LV óvenju hagstæðu meðalverði. En það var sem sagt undantekning. Strax árið 2007 var aftur farið að bera á verulegum verðmun.

Fjölmiðlar kynna boðskapinn líkt og sannleika

Ýmsir fjölmiðar tóku sig að sjálfsögðu til og birtu fréttir af skýrslunni. Og endurtóku gagnrýnilaust hina einkennilegu ályktun þar um raforkuverðið. Þannig má sjá eftirfarandi á vefnum visir.is:

Að mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er orkuverð til stóriðju í meðallagi hátt hérlendis. […] Íslenskir orkusalar hafa aðspurðir sagt orkuverð til stóriðju hérlendis vera nálægt meðallagi þess verðs sem slík fyrirtæki greiða á heimsvísu. 

Í Morgunblaðinu birtist líka frétt um þessa skýrslu Hagfræðistofnunar. Þar sagði m.a. eftirfarandi (Morgunblaðið minnti þó vel að merkja lesendur sína á að annað sjónarmið mætti sjá í annarri skýrslu):

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur skilað iðnaðarráðuneytinu umbeðinni skýrslu um hagrænt mat á áhrifum stóriðjuframkvæmda á íslenskt efnahagslíf. Í skýrslunni kemur m.a. fram að raforkuverð til álvera, samkvæmt ársreikningum Landsvirkjunar, sé á sama bili og annars staðar. Það er annað en fram hefur komið frá höfundum skýrslu Sjónarrandar ehf. fyrir fjármálaráðuneytið, að orkuverð til álvera hér á landi sé lágt og lítil þjóðhagsleg arðsemi sé af stóriðjuframkvæmdum.

Iðnaðarráðherra tók undir ályktun skýrslunnar

Einkennilegast var kannski það að þáverandi iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, var meðal þeirra sem gleypti gagnrýnislaust við því sem þarna birtist um raforkuverðið. Eins og kom fram í frétt RÚV um málið (feitletrun er Orkubloggsins):

Katrin-Juliusdottir-RUV-2009Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segir athugun iðnaðarráðuneytis og Hagfræðistofnunar Háskólans, benda til að álfyrirtækin greiði meðalverð fyrir orkuna en ekki fjórðungi minna eins og kemur fram í nýlegri trúnaðarskýrslu fyrir Norðurál. Ráðuneytið hafi fylgst með því sem vitað er um álverð á Íslandi.Niðurstaða ráðuneytisins sé sú að meðalverð fáist fyrir orkuna.

Niðurstaða ráðuneytisins? Það var og. Af þessu tilefni er vert að ítreka að nánast allt umrætt tímabil, 2002-2010, var meðalverð á raforku Landsvirkjunar til stóriðju og til álvera nokkru lægra en meðalverð á raforku til álvera í heiminum. Til hliðsjónar hér má einnig vísa í það sem sagði í skýrslu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) árið 2011 (leturbreyting hér – til að leggja áherslu á hversu fjarri þetta álit er þeirri ályktun sem birtist í skýrslu Hagfræðistofnunar 2009):

During 2009 Landsvirkjun commissioned the British consultancy company CRU to review and assess the existing preliminary agreement with Alcan. According to the information provided, CRU established that out of 184 aluminium smelters worldwide, Iceland provided the 14th lowest price and 3rd lowest out of 32 smelters in Europe.

upplysingarMikilvægi vandaðra og hlutlausra upplýsinga

Hið rétta í málinu er að flest bendir til þess að meðalverð á raforku til álvera hér er og hefur um langt skeið almennt verið töluvert undir heimsmeðaltali. Og það var rangt eða a.m.k. mjög villandi hjá Hagfræðistofnun að segja að orkuverðið hér „virðist því vera á sama bili og annars staðar að jafnaði“. Þetta var auðvitað miður, því réttar og hlutlausar upplýsingar eru ákaflega mikilvægar. Við getum svo spurt okkur af hverju það var svo lengi almennur skilningur á Íslandi, að meðalverð á raforkunni hér til álvera væri alls ekki lágt ?

 

Heimild: Orkubloggið

Fleira áhugavert: