Vatn og vinna

visir

Eiríkur Hjálmarsson

Eiríkur Hjálmarsson

Sumir segja að skoðunarferðir með ferðamenn séu í raun rútuferðir á milli klósetta. Það ber vissulega margt snoturt og áhugavert fyrir augu á leiðinni en grunnþörfunum verði að sinna. Vatn og vinna er yfirskrift alþjóðlegs vatnsdags Sameinuðu þjóðanna nú í ár en hann er haldinn er 22. mars ár hvert. Við erum hvött til að leiða hugann að því hvernig vatn snertir vinnuna okkar og þar sem vatnið er hrein og klár lífsnauðsyn ættum við ekki að þurfa að hugsa lengi. Þannig snertir aðgengi að rennandi vatni augljóslega starf leiðsögumannsins og rútubílstjórans.

Við í Reykjavík notum talsvert af vatni. Þótt þessi mikli elexír sé vottaður sem matvæli, drekkum við kannski minnst af honum. Verulegt magn fer í þvotta, talsvert í að sturta niður, slatti í eldamennsku og svo stólar slökkviliðið á sama vatn og við súpum á. Heimilin í höfuðborginni nota hinsvegar bara helminginn af vatninu sem rennur um æðar vatnsveitu Veitna. Fyrirtæki og stofnanir þar sem við vinnum nota hinn helminginn.
water daySnemma á síðustu öld, þegar vatnsveita var loks lögð í Reykjavík, var hún forsenda framleiðslu á matvælum með öðrum hætti en fyrr. Fiskur var þveginn úr hreinu vatni, drykkjarvöruframleiðsla gat hafist og hægt var að þrífa mjólkurbúin. Á síðari árum sjáum við til dæmis lyfjafyrirtæki nota mikið vatn einmitt til að losna við þrif með kemískum efnum og vatnið er að mörgu leyti grundvöllur þess hreinlætis sem nauðsynlegt er til að meðalaldur þjóðarinnar sé samanburðarhæfur. Nú er hann einn sá hæsti í heimi.

Þegar við sjáum Ísland auglýst sem hreint og tært vísar það vitaskuld til þeirrar hreinu orku sem við notum en kannski ennþá frekar til vatnsins. Þannig er hreint vatn hluti þeirrar ímyndar sem reynist ferðaþjónustunni vel til að markaðssetja ferðalög til Íslands og er hreint vatn þar með ein undirstaða vinnu stöðugt fleiri landsmanna.

Svona auðlind þurfum við að fara vel með og við gætum best að ímyndinni með að passa upp á vatnsbólin, vatnsveiturnar og vatnið sjálft; árnar, vötnin og sjóinn og vatnið í jörðinni.

 

 

Heimild: Vísir

Fleira áhugavert: