Stormskýlið – Sjálfbært af orkuþörf

visir

stormskylid

Smella á mynd til að stækka

Sprotafyrirtækið IceWind hefur tekið Stormskýlið formlega í notkun. Um er að ræða strætóskýli við Hörpuna sem hefur verið breytt og gert sjálfbært af orkuþörf. Tveimur sérsmíðuðum vindtúrbínum og rafkerfi hefur verið komið fyrir á skýlinu. Rafmagnið sér skýlinu fyrir lýsingu, þráðlausu neti, snjalltækjahleðslu og fjarstýrðum auglýsingaskjá.

Allt er þetta keyrt á vindorkunni.

Stormskýlið er samfélagsverkefni sem var hópfjármagnað á Karolina fund í nóvember síðastliðnum og unnið í samstarfi við AFA JCDecaux og Reykjavíkurborg með stuðningi WOW air.

Samkvæmt tilkynningu frá IceWind segir að um sex mánaða tilraunaverkefni sé að ræða. Markmið þess sé að gera gesti og gangandi meðvitaðri um alla þá orku sem umlyki Íslendinga og þá staðreynd að hægt sé að beisla hana og nýta.

„Stormskýlið er einstakt á heimsvísu, því aldrei áður hefur strætóskýli verið gert sjálfbært með því að staðsetja á það vindtúrbínur. Stormskýlið getur bæði keyrt orkuþörf sína að fullu og safnað orku á rafgeyma þess í einu og endist því í allt að 48 klukkustundir án þess að fá á sig vind,“ segir í tilkynningunni.

IceWind er lítið sprotafyrirtæki í Elliðaárdalnum sem hefur hannað og prófað vindtúrbínur í nokkur ár og stefnir á að bjóða Íslendingum upp á vindtúrbínur fyrir sumarbústaði og köld svæði frá og með vorinu.

 

Heimild: Vísir

Fleira áhugavert: