Verkþekking Íslendinga byggir upp innviði Grænlands

visir

graenland

Virkjunarframkvæmdir Ístaks, sem nú standa yfir við Diskóflóa á Grænlandi, skila 6-8 milljarða króna tekjum til íslenskra fyrirtækja. Íslensk verkþekking byggir um leið upp innviði Grænlands og segir orkumálastjóri landsins smíði vatnsaflsstöðva hafa gríðarlega þýðingu.

Þetta kom fram í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 í kvöld, þeim síðari um störf Íslendinga á Grænlandi, en sá fyrri var í gærkvöldi.

Virkjunin við Ilulissat telst kannski ekki stór á íslenskan mælikvarða, hún verður 22,5 megavött eða um fjórðungur af stærð Búðarhálsvirkjunar, sem nú er í smíðum. Hún verður engu að síður næststærsta virkjun Grænlands.

Fyrir Ístak hafa verkefni af þessu tagi reynst eins og himnasending í íslensku hallæri. Gísli H. Guðmundsson, staðarstjóri Ístaks á Grænlandi, segir að sókn fyrirtækisins í verkefni bæði á Grænlandi og í Noregi hafi skipt verulegu máli fyrir starfsemina. Tekist hafi að halda uppi veltu fyrirtækisins og tryggja starfsmönnum vinnu þrátt fyrir þá erfiðleika sem dundu yfir á Íslandi í hruninu.

Ístak fékk verkið í alútboði sem þýddi að Íslendingar tóku að sér að hanna virkjunina. Það skóp vinnu hjá verkfræðistofum eins og Verkís og Eflu, fyrir verkfræðinga, tæknifræðinga og arkitekta. Fyrir undirverktaka, eins og Rafmiðlun hefur þetta einnig skipt sköpum en,fyrirtækið er með 35 manns í vinnu á Grænlandi við rafbúnað virkjunarinnar.

Stór hluti af 12-13 milljarða króna verksamningi skilar sér inn í hagkerfi Íslands og áætlar Gísli H. Guðmundsson að 50-60% fari í íslenskar hendur.

Á endanum verða það þó Grænlendingar sem græða mest á þeim verðmætum sem íslensk verkþekking er þarna að skapa, eins og forstjóri Orkustofnunar Grænlands, Henrik Estrup, lýsir. Hann stýrir Landsvirkjun þeirra Grænlendinga sem valdi Ístak þótt fyrirtækið hafi ekki boðið ódýrustu lausnina.

Estrup segir að bygging vatnsaflsvirkjana hafi haft gríðarmikla þýðingu fyrir Grænland. Landið hafi verið þróast frá því að keyra alfarið á dísilrafstöðvum þar til nú með þessari virkjun að sjálfbær orkuframleiðsla fari upp í 70 prósent af raforkuþörf landsins. „Við spörum innflutning á olíu og svo losum við minna magn af koltvísýringi,“ segir Henrik Estrup.

Hann lýsir mikilli ánægju með Ístak. Fyrirtækið hafi áður reist virkjun í Sisimiut, sem reynst hafi mjög vel, og þeir búist við því sama hér í Ilulissat.

Áætlað er að fyrsta aflvélin verði gangsett í nóvember en það verður þó ekki fyrir undir lok næsta árs sem verkinu lýkur, verki sem Ístaksmenn telja mikla áskorun:

„Að geta framkvæmt svona verk hér, langt frá heimahögum, á öruggan hátt, og í þessu tilviki erum við pínulítið að hjálpa til byggja upp grænlenskt samfélag, innviði þess, með þessari vatnsaflsvirkjun, og selja okkar íslensku verkþekkingu,“ segir staðarstjórinn Gísli H. Guðmundsson.

Heimild: Vísir

Fleira áhugavert: