Sjóvarnir í Vík – Framkvæmd uppá 330 milljónir

ruv

myrdalur

Áætlaður kostnaður við nýjan varnargarð vegna sjávarrofs við Vík í Mýrdal er tæpar 330 milljónir króna, segir Ólöf Nordal Innanríkisráðherra í svari við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar á Alþingi. Ólöf segir að hefjist framkvæmdir á þessu ári, sé ekki talin þörf á bráðaaðgerðum. Varanlegar aðgerðir felist í viðgerð á varnargarði sem gerður var 2011 og gerð nýs garðs, um 700 metrum austar.

Steingrímur spurði innanríkisráðherra hvort talin væri þörf á bráðaaðgerðum, hvort áætlanir lægju fyrir um varanlegar aðgerðir og hvað framkvæmdir myndu kosta. Ólöf segir að nýr garður eigi að kosta 256 milljónir og viðgerðir á garðinum sem fyrir er um 70 milljónir. Vegagerðin vinni nú að nánari útfærslu og hönnun á nauðsynlegum mannvirkjum og muni leggja fram kostnaðargreindar tillögur til ráðuneytisins að því loknu. Þegar niðurstaða þeirra vinnu liggi fyrir verði teknar ákvarðanir um fram­hald málsins. Útfærslan verði að nokkru háð dýptarmælingum við ströndina sem nú séu í undirbúningi. Lengd nýja garðsins hafi áhrif á vegalengdina á milli þeirra.

 

Mikið rof í suðvestanóveðri

Mikið sjávarrof hefur orðið við byggðina í Vík í óveðrum í vetur. Fárviðri af suðvestri hefur valdið miklu rofi á ströndinni. Töluvert sér á varnargarði sem gerður var árið 2011 til að verja byggðina í Vík. Austan hans hefur brotnað mikið land og sjór færist nær iðnaðarhverfi þorpsins. Áætlað var að hefja framkvæmdir við síðari garðinn á næsta ári, en heimamenn telja eftir að landbrotið varð í vetur að, málið þoli enga bið. Aðgerðir verði að hefjast á þessu ári. Á myndunum sést ströndin eftir og fyrir óveðrin.

 

Heimild: RÚV

Fleira áhugavert: