Kína – Stærsta jarðvarmaveita heims

Grein/Linkur:  Stærsta jarðvarmaveita heims í smíðum í Kína

Höfundur: Viðskiptablaðið

Heimild: Viðskiptablaðið

.

kina1

.

Desember 2007

Stærsta jarðvarmaveita heims í smíðum í Kína

Ufangsmikið hitaveituverkefni Enex Kína í Xianyang borg í Shaanxi héraði í Kína gengur bæði betur og hraðar en áætlað hafði verið. Áætlað er að innan fimm ára verði hitaveita Xianyang stærri en hitaveita Orkuveitu Reykjavíkur, sem er í dag talin stærsta jarðvarmaveita í heimi.

Enex Kína er í eigu íslensku fyrirtækjanna Enex hf., Geysis Green Energy og Reykjavík Energy Invest. Enex hf. er auk þess að stærstum hluta í eigu Geysis Green Energy.

.

xiangyang

.

Í tilkynningu vegna verkefnisins segir að fyrsta verkefni Enex Kína hafi verið uppbygging og rekstur jarðvarmaveitu í borginni Xianyang í Shaanxi héraði, í Kína. Á öðru stigi uppbyggingarinnar hefur hitaveitan verið stækkuð enn frekar til annarra hverfa Xianyang. Hitaveitan hefur stækkað nær fjórfalt á einu ári og farið úr 160.000 upphituðum húsnæðisfermetrum í 560.000. Hitaveitan leysir kolakyndingu af hólmi og dregur þannig verulega úr mengun í borginni. Strax í vetur má áætla að yfir 20.000 tonn af CO2 sparist vegna kyndingar með jarðvarma í stað kola og á næsta vetri verði sú tala komin yfir 50.000 tonn.

Á næsta ári, 2008, bætast við 1,5 milljónir hitaðir fermetrar, og þá verður veitan á stærð við hitaveitu fyrir Hafnarfjörð. „Við ætlum okkur stærri hlut í Kína“, segir Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður Enex Kína. „Umsvif Enex Kína eiga eftir að vaxa enn frekar á þessu svæði. Markmiðið er að stækka hitaveitu borgarinnar í 15 milljónir fermetra á næstu fimm árum. Þar með verður hún orðin stærri en hitaveita Orkuveitu Reykjavíkur og þá um leið sú stærsta í heiminum“.

.

kolaorkuver

.

Samstarfsverkefni Íslendinga og Kínverja

Að uppbyggingu hitaveitunnar í Xianyang borg í Shaanxi héraði Kína standa fyrirtækin Enex Kína og Shaanxi CGCO, sem eiga og reka fyrirtækið Shaanxi Green Energy Geothermal Development Co. Það er að 49% hluta í eigu Enex Kína og 51% í eigu CGCO, sem er að stærstum hluta í eigu Sinopec, næststærsta olíufélags Kína. Enex Kína ehf. er í eigu Enex hf., Geysis Green Energy og Reykjavík Energy Invest. Enex hf. er auk þess að stærstum hluta í eigu Geysis Green Energy.

Ásgeir segir miklar framkvæmdir standa yfir á næsta ári hjá Shaanxi Green Energy. „Á árinu 2008 munum við bora 13 holur, byggja 8 hitastöðvar, leggja 7,3 km. af dreifikerfi og bæta við um 1,5 milljónum fermetra í hituðu húsnæði. Þannig munum við ma. ljúka uppbyggingu jarðvarmaveitu þriggja hverfa í Xianyang borg, bora 5 holur í borginni og byggja tvær dreifistöðvar, bæta við tveimur km. í dreifikerfi og koma þar í gagnið 800.000 fermetrum af hituðu húsnæði.“

Möguleikar einkum í húshitun

„Gríðarlega miklir vaxtarmöguleikar eru í Kína,“ segir Ásgeir. „Annars vegar er það vegna hins öra hagvaxtar sem Kína býr við, hins vegar vegna þeirrar opinberu stefnu kínverskra yfirvalda, að 15% af allri orkuþörf Kína verði mætt með endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2020. Þannig verði horfið frá notkun mengandi orkugjafa eins og t.d. kola. Jarðhiti finnst víða í Kína og þar sem kol eru sá orkugjafi sem hvað mest er notaður til hitunar, má gera ráð fyrir að þau svæði, sem á annað borð eiga jarðhita, verði undir miklum þrýstingi frá ríkisstjórninni að skipta yfir í jarðhita. Það er því einkum á sviði húshitunar sem stærstu tækifærin eru í jarðvarma.“

bor kina„Jarðhitaborg Kína“

 Starfsemi Enex Kína hefur verið byggð upp í Shaanxi, sem er landlukt hérað með 37 milljónir íbúa, í mið Kína. Höfuðborg héraðsins er Xian (Xi’an) en hún er gömul höfuðborg kínverska keisaradæmisins. Þar búa nú um sex milljónir manna. Í 50 km. fjarlægð er borgin Xianyang (Xian Yang) með um fjórar milljónir íbúa, en þar hefur Enex-Kína starfstöð. Feng He svæðið er kjarninn í frekari uppbygginu Xianyang borgar, en það er m.a. liður í framtíðaráætlunum um nánari tengsl borgarinnar við Xian borg.

Undir Xianyang er jarðhitalind, sem hefur 90-110° heitt vatn í umtalsverðum mæli. Þrátt fyrir mikinn jarðvarma er hann hins vegar enn að mestu ónýttur. Yfirvöld borgarinnar, sem fékk á árinu formlega titilinn „Jarðhitaborg Kína“, hafa sýnt verkefnum Enex-Kína mikinn stuðning. Það er í samræmi við stefnu kínverskra stjórnvalda, að 15% allrar orkunotkunar Kína komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2020.

Olíufélögin sjá framtíðina i jarðvarmanýtingu

Enex Kína hefur í samstarfi við Glitni samið við Sinopec um að útvíkka samstarf sitt þannig að það nái til alls Kína. Ásgeir Margeirsson segir að í samstarfi við þetta risavaxna fyrirtæki felist viðurkenning á því hversu stóran hluta jarðvarmanýting geti átt í orkuöflun Kínaverja í náinni framtíð. „Nú er bara verið að tala um fyrstu borgina í fyrsta héraðinu í Kína. Gera má ráð fyrir að í öðrum borgum Shaanxi héraðs og í öðrum héruðum Kína sé a.m.k. tugur annarra tækifæra sem hægt er að gera að veruleika með jafn sterkum samstarfaðila og Sinopec, “ segir Ásgeir og bætir við að brautryðjandastarf Glitnis í Kína hafi opnað ýmsa möguleika á þessu sviði, eins og segir í tilkynningunni.

Fleira áhugavert: