Vaðlaheiðargöng – Ein flóknasta aðgerð í jarðgöngum hér á landi

ruv

Smella á mynd til að sjá frétt

vadlaheidargong

 

Hafnar eru framkvæmdir í Vaðlaheiðargöngum við að fylla upp í gríðarstórt misgengi sem þar opnaðist fyrir tæpu ári. Þetta er eitt flóknasta verkefni sem gangagerðarmenn hér á landi hafa staðið frammi fyrir.

Gangagerðarmenn í Vaðlaheiði hafa sprengt og grafið í gegnum nokkur misgengi í fjallinu, í flestum tilfellum vandræðalaust. Í apríl í fyrra gaf loftið sig í göngunum Fnjóskadalsmegin og gríðarlega mikið af efni hrundi úr 10 metra breiðu misgengi. Á eftir fylgdu um 500 sekúndulítrar af vatni og göngin fylltust. Þau hafa nú verið tæmd af vatni, en það hefur ekkert við hróflað við efninu sem hrundi úr misgenginu. Haugurinn fyllir ennþá upp í göngin og hann er notaður til að halda við svo að hrynji ekki meira niður.

Sjaldan lent í svona aðstæðum

Eftir miklar vangaveltur og rannsóknir eru nú hafnar aðgerðir við að fylla upp í misgengið svo hægt verði að halda gangagerðinni áfram. Björn A. Harðarson, umsjónarmaður verkkaupa í Vaðlaheiðargöngum, segir þetta mjög snúið verkefni. „Við höfum sjaldan lent í svona snúnu, að vera með svona mikið af lausmassa og vatni. Það er að vísu miklu minna vatn núna, það eru um 100 lítrar á sekúndu sem koma úr misgenginu núna.“

Tæknilega mjög flókið verkefni

Fyrst er borað fyrir lögnum sem eiga að leiða vatnið framhjá þessum stað í sprungunni. Þar fyrir neðan eru boraðar holur til að dæla inn efnum til að fylla upp í holrými og styrkja lausa efnið ofan við gangaloftið. Þá er hugmynd að bora fyrir fjölmörgum stálstöngum sem eiga að mynda þak neðst í misgenginu. Þá fyrst verður hægt að grafa í gegnum hauginn í göngunum og styrkja þau jafn harðan með stálbogum. Steypu verður svo sprautað þar yfir að lokum.

Taka eitt skref í einu

Aðspurður um hvort það sem lagt er upp með núna muni duga, segir Björn að eitt skref sé tekið í einu. Þá sé árangurinn metinn og síðan tekið næsta skref. „Það eru margir möguleikar sem við erum með á borðinu og það er verið að afla efna og aðfanga til þess að undirbúa sem best. Það er ekki hægt að fullyrða nákvæmlega hvaða skref verða tekin til enda,“ segir hann.

Gæti tekið allt upp í 3 mánuði að ljúka þessu

Og hann segir mjög erfitt að segja til um hvenær þessari aðgerð lýkur þannig að hægt verði að byrja aftur að sprengja og bora austanmegin í göngunum. „Það gæti verið eftir tvo mánuði, það gæti verið eftir þrjá. Það er voðalega erfitt að segja til um það,“ segir Björn A. Harðarson.

 

Heimild: RÚV

Fleira áhugavert: