Breytingar á regluverki skipulags- og mannvirkjamála

samband íslenskra sveitarfélaga

Biggingarreglugerd

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur kynnt tillögur að breytingum á byggingarreglugerð sem ætlað er að styðja við áform stjórnvalda um lækkun byggingarkostnaðar. Jafnframt eru kynntar hugmyndir að endurskoðun á mannvirkjalögum og skipulagslögum, en þær breytingar eru liður í innleiðingu á framtíðarskipan húsnæðismála sem félags- og húsnæðismálaráðherra hefur forgöngu um.

Þessar áformuðu breytingar á regluverkinu hafa verið til umsagnar að undanförnu og m.a. fengið rýni hjá byggingarfulltrúum sveitarfélaga og skipulagsmálanefnd sambandsins. Sambandið hefur nú, ásamt allmörgum sveitarfélögum, sent inn umsögn sína um breytingarnar.

Varðandi breytingar á byggingarreglugerð tilgreinir sambandið sérstaklega að kröfur um lágmarksstærðir íbúðarherbergja séu felldar út úr reglugerðinni. Sambandið telur að hér sé um róttæka breytingu að ræða sem fylgjast þurfi grannt með hvernig reynist. Ef breytingin verður að veruleika leggur sambandið til að Mannvirkjastofnun verði falið að greina, með formlegum hætti, hvernig hönnun á litlum íbúðum, einkum á miðsvæðum innan sveitarfélaga, muni þróast á komandi misserum.

Ýmsar hugmyndir eru uppi um lagabreytingar og mælist sambandið til að þær fái heildstæða yfirferð sem skili vel ígrunduðu frumvarpi um atriði sem þarf að endurskoða í lagarammanum að fenginni reynslu. Megináhersla er lögð á að endurskoða þá kröfu að frá og með 1. janúar 2018 þurfi svokallað faggildingu til þess að byggingarfulltrúar yfirfari hönnunargögn og annist úttektir. Að mati sambandsins er um að ræða íþyngjandi kröfu sem leggst með mjög misjöfnum hætti á embættin. Skoða beri að krafan um faggildingu verði aðlöguð að umfangi framkvæmda. Þannig verði yfirferð gagna og úttektir vegna stærri verka á grundvelli faggildingar en að byggingarfulltrúar geti áfram sinnt yfirferð og úttektum vegna annarra framkvæmda með lítið breyttu sniði.

 

Heimild: Samband íslenskra sveitarfélaga

Fleira áhugavert: