5,5 milljónir deyja árlega vegna loftmengunar – 360.000 vegna kolabrennslu í Kína

ruv

mengun kina

Minnst fimm og hálf milljón manna deyr ótímabærum dauðdaga á ári hverju vegna loftmengunar. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem unnin var sem hluti af stóru rannsóknarverkefni á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, þar sem leitast er við að kortleggja þær byrðar sem sjúkdómar hvers konar leggja á mannkynið í heild. Flest þessara dauðsfalla verða í hinum ört vaxandi iðnaðarstórveldum, Kína og Indlandi.

Svifryk er helsti skaðvaldurinn, örsmáar agnir sem verða til við eldsneytisbruna og umferð. Kolaorkuver, verksmiðjur, umferð vélknúinna ökutækja og brennsla kola og viðar til húshitunar og eldamennsku er meginuppspretta svifryksins á þessum slóðum. Í Kína létust 1,6 milljónir vegna loftmengunar árið 2013, og 1,3 milljónir á Indlandi, en nýrri gögn eru enn óunnin.

Nokkur munur er á því, hvaðan mesta mengunin kemur í þessum löndum. Í Kína er kolabrennsla meginuppistaða fínasta svifryksins, og talin eiga sök á minnst 360.000 dauðsföllum ein og sér. Á Indlandi er það brennsla á viði, taði og hvers kyns þurrkuðum gróðurleifum innandyra, sem flesta drepur, en þessu er brennt jafnt til húshitunar og eldamennsku.

Vísindamenn sem unnu að rannsókninni segja tölurnar sýna svart á hvítu, að stjórnvöld þessara ríkja verði að grípa til róttækra aðgerða án tafar, til að bæta loftgæði. Mælingar þeirra leiddu í ljós að á slæmum degi í Dehli og Bejing séu allt að 300 míkrógrömm af fínu svifryki í hverjum rúmmetra lofts. Viðmiðunarmörk eru hins vegar 25 – 35 míkrógrömm í rúmmetra.

Innöndun fíns svifryks í þetta miklu magni getur valdið hjartasjúkdómum, slagi, öndunarsjúkdómum og jafnvel krabbameini. Samkvæmt skýrslunni veldur loftmengun fleiri ótímabærum dauðsföllum en áhættuþættir á borð við vannæringu, offitu, áfengisdrykkju og fíkniefnaneyslu. Einungis hækkaður blóðþrýstingur, óheilnæmt mataræði og reykingar senda fleiri jarðarbúa í gröfina fyrir aldur fram.

Í skýrslu sem birt var nýverið um ótímabær dauðsföll af völdum loftmengunar í Evrópu kemur fram að þar má rekja nær allt svifryk til bílaumferðar, en um hálf milljón Evrópubúa deyr um aldur fram vegna loftmengunar.

 

Heimild: RÚV

Fleira áhugavert: